Bannið við fjárfestingu útlendinga í íslenskum sjávarútvegi er sorglegt dæmi um gamaldags efnahagslegan nasisma sem enn er við lýði og ekki líklegur til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag, nema síður sé.
Löndun og fjárfesting
Fyrir örfáum árum síðan var útlendingum enn bannað að landa afla sínum hérlendis. Þetta var afleiðing þorskastríðanna þegar íslensk stjórnvöld leituðu ýmissa leiða til að halda fiskiskipum annarra þjóða út úr stækkandi íslenskri landhelgi. Nú ætla ég ekki að tjá mig um gagnsemi bannsins við þær aðstæður. Það er hins vegar sorglegt að það var ekki fyrr en um 20 árum eftir lok síðasta þorskastríðsins sem þetta bann var afnumið. Á þeim tíma virkaði það fyrst og fremst sem bann við því að íslensk fiskvinnslufyrirtæki öfluðu sér hráefnis að utan.
Bannið við fjárfestingu útlendinga í sjávarútvegi er svipaðs eðlis. Misvitrir stjórnmálamenn leitast við að telja okkur trú um að hagsmunum okkar sé best borgið með því að halda útlendingum utan íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja og rökstyðja þannig bann við fjárfestingum útlendinga í íslenskum sjávarútvegi á sama tíma og Íslendingar fjárfesta í erlendum sjávarútvegi.
Kannski eiga þau enn við orð Einars Benediktssonar sem kvartaði undan dauðri hönd sem lægi yfir efnahagslífi Íslendinga og kæmi í veg fyrir framþróun. Meðan íslensku fjármagni væri leyft að starfa í útlöndum en útlendu fjármagni ekki hérlendis væri ekki von á því að Íslendingar risu úr þeirri fátækt sem þeir bjuggu þá við.
Lærdómurinn
Saga Íslands er sönnun þessara orða skáldsins. Þegar við höfum lokað okkur af frá öðrum höfum við goldið þess sjálf en notið þess þegar við höfum lagt áherslu á samstarf við aðrar þjóðir. Bannið við fjárfestingum útlendinga í sjávarútvegi er úrelt fyrirbæri sem efnahagsleg og siðferðisleg rök styðja að sé afnumið.