Afskipti eða afskiptaleysi

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

12/04/2000

12. 4. 2000

Þó mörgum virðist sem stefnur stjórnmálaflokka á Vesturlöndum hafi allar runnið saman í eitt miðjumoð þar sem smávægilegur útfærslumunur er notaður til að vísa í hugmyndafræðilegar rætur er enn til staðar grundvallarágreiningur á milli hægri- og vinstriflokka um hvaða hlutverki ríkisvaldið skuli gegna. Í þessu samhengi hefur jafnaðarstefnan þurft að þola mjög mótsagnakenndar ásakanir sem […]

Þó mörgum virðist sem stefnur stjórnmálaflokka á Vesturlöndum hafi allar runnið saman í eitt miðjumoð þar sem smávægilegur útfærslumunur er notaður til að vísa í hugmyndafræðilegar rætur er enn til staðar grundvallarágreiningur á milli hægri- og vinstriflokka um hvaða hlutverki ríkisvaldið skuli gegna.


Í þessu samhengi hefur jafnaðarstefnan þurft að þola mjög mótsagnakenndar ásakanir sem hvorar um sig eru rangar. Sú fyrri er sú að jafnaðarmenn hafi gengist markaðsöflunum á hönd og hafi snúið baki við hugsjónum sínum. Hin er sú að jafnaðarmenn séu ófærir um að skilja markaðslögmálin og komist þeir til valda muni þeir þenja út ríkiskerfið með tilheyrandi kostnaði og óhagkvæmni.

Staðreyndin er hinsvegar sú að jafnaðarstefnan hefur alltaf verið valkosturinn á milli tveggja öfga og mun sem slík aldrei fallast skilyrðislaust á aðferðir róttækrar félagshyggju eða á markmið frjálshyggju. Markmið jafnaðarstefnunar standa enn óbreytt þó jafnaðarmenn hafi tekið í sína þjónustu ýmsar þær aðferðir frjálshyggjunnar sem hafa sannað ágæti sitt.

Fimm reglur
Það má segja að til grundvallar afstöðu jafnaðarstefnunar til umsvifa ríkisins liggi fimm almennar reglur.

1) Ríkið á ekki að reka fyrirtæki í samkeppni við einkaaðila.Ástæða þess er sú að sá aðstöðumunur sem ríkisfyrirtæki hefur umfram einkaaðila í krafti tengsla sinna við ríkið skapar ójafna samkeppni og getur virkað hamlandi á eðlilega þróun markaðarins.

2) Ríkið á að halda úti óarðbærri þjónustu sem talin er nauðsynleg.Þessi regla fellur að fyrstu reglunni þar sem það er sjálfgefið að einkaaðilar muni ekki sjá ástæðu til að fara út í slíkan rekstur, og jafnvel þó svo væri yrði slíkur rekstur skammlífur. Þetta takmarkast einnig við að það sé nauðsynlegt fyrir samfélagið að þjónustan sé til staðar.

3) Það er æskilegra að ríkið reki fyrirtæki á vettvangi þar sem ekki er forsenda fyrir frjálsri samkeppni, m.a. vegna smæðar markaðarins, en þó aðeins sé hún nauðsynleg.Þetta felur í sér undantekningu frá fyrstu reglunni þar sem smár markaður getur verið arðbær fyrir eitt fyrirtæki þó svo hann standi ekki undir samkeppni. Hún byggir á þeirri afstöðu að einokun sé jafn skaðleg markaðskerfinu og samkeppni ríkis og einkaaðila. Þessi regla takmarkast við nauðsyn, líkt og regla tvö.

4) Ríkið á að halda uppi þjónustu sem varðar jafna aðstöðu og tækifæri auk þess að tryggja öryggi þegnanna.Þetta felur í sér menntun enda skapar jafn aðgangur að menntun aukna hagkvæmni í atvinnulífinu þar sem öllum er gefin kostur á að vera metnir eftir eigin verðleikum fremur en ætterni eða aðstöðu. Þetta felur einnig í sér heilbrigðisþjónustu enda er óásættanlegt að fjármagn geti gert út um hver fær bót sinna meina. Auk löggæslu felur þetta einnig í sér félagslega samtryggingu enda er mikilvægt að tryggja efnahagslegt öryggi einstaklingsins fyrir hvers kyns skakkaföllum.

5) Ríkið á ekki að halda uppi þjónustu með gróðasjónarmið fyrir augum
Þessi regla er í raun undirstaða allra hinna. 1)Aðstaða ríkisfyrirtækja gerir það að verkum að þau geta undirboðið einkaaðila, og samkvæmt þessari reglu eiga þau að gera það. Því er fráleitt að ríkisfyrirtæki keppi við einkaaðila. 2)Þessi regla kemur í veg fyrir að óarðbærni þjónustu sé forsenda þess að ríkið láti það vera að veita hana. 3)Nauðsynleg þjónusta er ódýrari í höndum ríkisins en einkaaðila með einokunarstöðu, enda er ekki markmið ríkisins að græða heldur að veita nauðsynlega þjónustu. 4)Sé markmið ríkisins að græða á þjónustu s.s. menntun eða heilbrigðisþjónustu er almenningur lítið betur settur við að sækja þjónustu sína til ríkisins en til einkaaðila með sama markmið.

Undirstöðu lögmálið
Jafnaðarmenn taka undir þá gagnrýni að ríkisrekstur geti verið þunglamalegur og óhagkvæmur. Enn fremur vilja þeir leitast við að hámarka hagkvæmni í samfélaginu. En auk hagkvæmninnar leggja jafnaðarmenn einnig áherslu á velferð þegnanna. Bæði hagkvæmni og velferð þegnana eru eftirsóknarverð í sjálfu sér, en fari þessi markmið ekki saman skal hagkvæmnin víkja.

Deildu