Ofvaxið ríkisvald

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

10/04/2000

10. 4. 2000

Ríkisvaldið á Vesturlöndum hefur vaxið meira en góðu hófi gegnir. Stjórnmálamenn og kjósendur finna sífellt fleiri viðfangsefni til að sinna og á sama tíma eykst skattbyrði almennings. En er sökin ekki líka okkar? Afskræming atvinnustarfsemi Stjórnmálamenn hafa verið duglegir við að verða við óskum sérhagsmunahópa. Einna öflugastir þeirra hópa hafa verið samtök sjávarútvegs og landbúnaðar. […]

Ríkisvaldið á Vesturlöndum hefur vaxið meira en góðu hófi gegnir. Stjórnmálamenn og kjósendur finna sífellt fleiri viðfangsefni til að sinna og á sama tíma eykst skattbyrði almennings. En er sökin ekki líka okkar?


Afskræming atvinnustarfsemi
Stjórnmálamenn hafa verið duglegir við að verða við óskum sérhagsmunahópa. Einna öflugastir þeirra hópa hafa verið samtök sjávarútvegs og landbúnaðar. Iðnaður hefur ef til vill ekki verið jafn duglegur en nýtur þó nokkurra styrkja.

Landbúnaðinn er sárt að tala um; framleiðslustyrkir, útflutningsstyrkir, þróunarstyrkir og í raun og veru styrkir til hvers sem er kosta almenning um átta milljarða, á þessu ári einu, í bein ríkisútgjöld auk svipaðrar upphæðar sem tapast vegna innflutningshafta. Sorglegast er þó að Bændasamtökin, sem alltaf heimta meira, eru rekin á kostnað ríkissjóðs. Hagsmunaaðilar í sjávarútvegi mótuðu að miklu leyti sjálfir þær reglur sem þeir fara eftir auk þess að njóta beinna og óbeinna ríkisstyrkja svo sem sjómannaafsláttar og endurgjaldslausrar úthlutunar veiðiheimilda.

Okkar hjartans mál
Eins og lesendur hafa orðið varir við gremst aðstandendum Skoðunar afskipti stjórnvalda af trúarlífi landsmanna. Tveimur og hálfum milljarði af skattpeningum landsmanna er varið í trúmál. Stjórnvöld vernda eitt trúfélag á kostnað annarra og sjá til þess að innræta börnum kristna trú í skólum. Einhver kynni að spyrja hvað trú einstaklinga kemur stjórnvöldum við og ennfremur hvort þetta séu ekki takmarkanir á trúfrelsi almennings.

Menning, listir og ríkisreknir fjölmiðlar
Ég hef gaman af því að fara í leikhús af og til, eins hef ég farið á tónleika Sinfóníuhljómsveitarinnar og litið á listasöfn. Mér finnst þó fráleitt að skattar fólks sem hefur engan áhuga á þessari dægradvöl séu notaðir til að niðurgreiða mína skemmtun. Eða hvaða rök eru fyrir því að eyða stórfé í listasýningar sem virðast ekki njóta það mikils áhuga almennings að þær standi undir sér sjálfar? Eru svo sterk rök fyrir Ríkisútvarpinu (Rás 1, Rás 2 og Sjónvarpinu) að réttlætanlegt sé að stjórnvöld skylda alla eigendur sjónvarpstækja til að borga fyrir þjónustu sem óvíst er að þeir notfæri sér?

Okkar sök?
Þrátt fyrir að hagsmunum almennings sé ansi oft fórnað fyrir hagsmuni afmarkaðra hópa er vart hægt að sakfella stjórnmálamenn og sérhagsmunagæslumenn eina. Við höfum jú öll látið þetta yfir okkur ganga. Sökin hlýtur að vera okkar eða höfum við einhvern tíma sagt stjórnmálamönnum hvernig við viljum forgangsraða? Eða erum við kannski sátt við að borga of hátt matvælaverð, að borga fyrir útvarpsstöðvar sem við hlustum ekki á og að greiðslur fyrir afnot af sameign þjóðarinnar fari í vasa einstakra útgerða frekar en þjóðarinnar í heild?

Deildu