Alþýðuflokkurinn og ESB

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

27/03/2000

27. 3. 2000

Það er til lífseig saga um að ástæðan fyrir slöku gengi Alþýðuflokksins í Alþingiskosningunum 1995 sé áherslu flokksins á aðildarumsókn að Evrópusambandinu að kenna. Mér finnst það ótrúleg ástæða sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að skömmu áður en flokkurinn birti stefnu sína mældist fylgi hans í skoðanakönnunum í svipuðu magni og áfengisinnihald pilsners. […]

Það er til lífseig saga um að ástæðan fyrir slöku gengi Alþýðuflokksins í Alþingiskosningunum 1995 sé áherslu flokksins á aðildarumsókn að Evrópusambandinu að kenna. Mér finnst það ótrúleg ástæða sérstaklega þegar tekið er tillit til þess að skömmu áður en flokkurinn birti stefnu sína mældist fylgi hans í skoðanakönnunum í svipuðu magni og áfengisinnihald pilsners.


Tekið af skarið
Nokkrum mánuðum fyrir kosningar var Alþýðuflokkurinn í einhverri dýpstu lægð sem flokkurinn hefur gengið í gegnum. Fylgi hans var í lágmarki og flest varð ógæfu flokksins að vopni. Þrátt fyrir þetta náði flokkurinn að hífa sig upp og ná sjö mönnum á þing. Vissulega tap frá fyrri kosningum en betri útkoma en ýmsar skoðanakannanir höfðu gefið til kynna síðasta árið fyrir kosningar.

Eftir að Alþýðuflokkurinn samþykkti á aukaflokksþingi sínu sem haldið var í byrjun árs 1995 að sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu fór hagur flokksins að vænkast. Fólk sem hafði stutt aðra flokka, og gerir í dag, fór að líta á Alþýðuflokkinn sem valkost. Þarna var kominn fyrsti íslenski flokkurinn sem lýsti því yfir að sækja bæri um aðild að Evrópusambandinu. Þetta skilaði verulegum árangri. Vissulega kunna einhverjir að hafa horfið frá flokknum vegna Evrópustefnunnar. Hinir voru þó fráleitt færri sem komu að honum einmitt vegna þess hversu skýr stefna flokksins varðandi Evrópusambandið var. Ástæðanna fyrir fylgistapi er að leita annars staðar.

Klofinn, spilltur flokkur í erfiðu árferði
Eitt sem menn horfa framhjá þegar leitað er að ástæðum fyrir fylgistapi Alþýðuflokksins í kosningunum 1995 er að þá voru Íslendingar að koma út úr erfiðri kreppu sem reið yfir heimsbyggðina. Í því góðæri sem við upplifum nú er auðvelt að gleyma því hversu erfitt ástandið var fyrir nokkrum árum síðan. Talsverður árangur hafði náðst 1995 og efnahagsástandið var að batna. Það var hins vegar enn nokkur leið í það góðæri sem við höfum upplifað nokkur undanfarin ár. Óþarft frá að segja tapa ríkisstjórnarflokkar nær alltaf fylgi í slæmu árferði.

Önnur ástæða sem menn líta framhjá er sú staðreynd að Alþýðuflokkurinn fékk á sig spillingarstimpil sem reyndist erfitt eða ómögulegt að afmá. Umdeildar mannaráðningar og óheft ásókn í kjötkatlana varð síður en svo til að bæta orðstír flokksins. Sennilega endurspeglaðist viðhorf margra landsmanna til flokksins í orðum sjónvarpsfréttamanns sem sagði um varaformann flokksins að þar færi „spilltasti maðurinn í spilltasta armi spilltasta flokks landsins“.

Augljósasta ástæðan fyrir fylgistapi flokksins er auðvitað brotthlaup vinsæls varaformanns flokksins sem stofnaði nýjan flokk til að sameina jafnaðarmenn eftir að hafa tapað formannskosningu á flokksþinginu 1994. Þjóðvaki Jóhönnu Sigurðardóttur fékk fjóra menn kjörna, Alþýðuflokkurinn tapaði þremur.

Hver er lærdómurinn?
Þegar menn segja að fylgistap Alþýðuflokksins 1995 megi rekja til stefnu flokksins gagnvart Evrópusambandinu verð ég að segja að ég tel að þeim skjátlist. Það sem réði mestu um fylgistap flokksins var spillt ásjóna flokksins sem réði sennilega vanhæfasta Seðlabankastjóra Íslandssögunnar, erfitt efnahagsástand þó batnandi færi og klofningur flokks sem missti einn sinn vinsælasta stjórnmálamann.

Ég held nefnilega að þrátt fyrir allt hafi Evrópustefna Alþýðuflokksins 1995 bjargað honum frá því að lenda í sömu sporum og flokkurinn lenti í á fyrstu árunum eftir að Viðreisnarstjórnin hraktist frá völdum 1971.

Deildu