Hugmyndin um byggðakvóta er merkilega langlíf, sérstaklega ef tekið er tillit til þess hversu vitlaus hún er. Samt á hún ekki að koma manni á óvart í ljósi þess hversu duglegir allir stjórnmálaflokkar hafa verið að halda fram einhverri byggðastefnu sem á að koma í veg fyrir þá þróun sem á sér stað. Sumir læra einfaldlega aldrei þó mistökin blasi við þeim.
Byggðakvóti á að leysa vanda þeirra byggðarlaga sem nú horfa fram á fólksflótta. Tvennt er þó sem veldur því að þessi leið er ekki líkleg til að skila árangri. Annars vegar sú staðreynd að það er ekki endilega atvinnuleysi sem fólk er að flýja heldur miklu frekar fábreytt atvinnulíf sem byggir að mestu á sjávarútvegi og það fátæklega menningar- og félagslíf sem fólk sættir sig í æ minnkandi mæli við í nútímaþjóðfélagi þegar það sér hvað býðst annars staðar. Að ógleymdri þeirri staðreynd að fólk þarf að flytja á brott til að afla sér menntunar umfram grunnskólann og fær fæst vinnu á fámennum heimaslóðum þar sem hæfileikar þeirra og menntun nýtast. Einnig kemur til sögunnar spurningin um það hvaða áhrif stjórnmálamenn eigi að hafa á hvar fyrirtæki starfa og eins hvaða áhrif byggðakvóti hefur á hagkvæmni í sjávarútvegi. Sagan hefur fjarri því sannfært mig ágæti þess að stjórnmálamenn úthluti kvóta, sérstaklega þegar tekið er tillit til fiskeldis- og loðræktarævintýranna fyrir ekki svo löngu síðan.
Byggðakvóti myndi örugglega lengja lífdaga lítilla sjávarþorpa. Ég er hins vegar síður en svo sannfærður um að kjör íbúa þeirra sömu þorpa myndu batna. Ég er líka viss um að mörg sjávarþorp sem myndu í fyrstu njóta góðs af byggðakvóta munu á endanum líða undir lok. Við það hef ég ekkert að athuga. Það sem mér finnst öllu verra er að stjórnmálamenn skuli gefa íbúum, því sem næst, dauðadæmdra smáþorpa undir fótinn með þessum hætti. Til lengri tíma gagnast þetta ekki íbúunum sem nú þegar búa við slakari kjör en almenningur í fjölmennari sveitarfélögum. Fólk sem þarf að sækja sér menntun, þjónustu og skemmtun út fyrir sinn heimabæ endist þar ekki lengi. Því til sönnunar eru síðustu áratugir 20. aldar. Atvinnuleysi hefur vissulega átt stóran þátt í byggðaþróuninni. En það er ekki eini vandinn, og ekki endilega stærsti vandinn. Þannig hefur fólk flust frá bæjum þar sem full atvinna er og þörf fyrir meira vinnuafl. Ekki er atvinnuleysi sökin þar. Staðreyndin er einfaldlega sú að það eru fleiri en íbúar höfuðborgarsvæðisins sem vilja geta skroppið á kaffihús, í leikhús eða bíó, á Laugarveginn og í Kringluna. Ég er heldur ekki eini maðurinn sem ekki vill hafa um það að velja að starfa í fiski eða kaupfélagi.
Byggðakvóti breytir því afskaplega litlu um þá byggðaþróun sem hefur átt sér stað og er í tísku að kalla byggðavanda. Hann myndi hins vegar efalaust draga úr hagkvæmni í sjávarútvegi og draga úr lífskjörum landsmanna allra. En það vefst víst ekki fyrir þeim stjórnmálamönnum sem hafa haldið uppi úr sér gengnu landbúnaðarkerfi, notað fé til vegagerðar sem hálfgerðar mútur í eigin kjördæmi og hlaupið á eftir hverju því tækifæri sem gefst til kjördæmapots.