Biskup í sjónvarpi

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

14/02/2000

14. 2. 2000

Kirkjunnar mönnum verður tíðrætt að í raun og veru sé búið að koma á aðskilnaði ríkis og kirkju hérlendis. ARK-urum* eins og mér er þetta lítt skiljanlegt þar sem ég hef alltaf talið fjölda dæma um það hvernig ríkisvaldið tryggir evangelísk-lúthersku kirkjunni yfirburðastöðu í íslensku samfélagi. Þessi svokallaði aðskilnaður Síðastur til að halda þessu fram […]

Kirkjunnar mönnum verður tíðrætt að í raun og veru sé búið að koma á aðskilnaði ríkis og kirkju hérlendis. ARK-urum* eins og mér er þetta lítt skiljanlegt þar sem ég hef alltaf talið fjölda dæma um það hvernig ríkisvaldið tryggir evangelísk-lúthersku kirkjunni yfirburðastöðu í íslensku samfélagi.


Þessi svokallaði aðskilnaður
Síðastur til að halda þessu fram er Karl Sigurbjörnsson biskup í Silfri Egils síðasta sunnudag. Þar sagði hann meðal annars að ef undan væri skilin sú staðreynd að ráðherra skipar biskup og presta mætti segja að hér ríkti aðskilnaður ríkis og kirkju. Hann minntist hins vegar ekki á það að kristinboð/kristinfræðsla er yfirgnæfandi þáttur í því námsefni skólanna sem nefnt er trúfræðsla (námskrá getur þú nálgast á heimasíðu menntamálaráðuneytisins). Hann gleymdi einnig að minnast á þá staðreynd að Þjóðkirkjan nýtur stjórnarskrárbundinnar verndar ríkisvaldsins og fór ansi varlega í það að Þjóðkirkjan nýtur umtalsverðra ríkisstyrkja umfram önnur trúfélög.

Ég blæs því á þá staðhæfingu biskups og annarra kirkjunnar manna að hér ríki aðskilnaður ríkis og kirkju. Hér ætla ég til gamans að telja upp örfá skilyrði þess að hægt sé að tala um aðskilnað ríkis og kirkju og er listinn fjarri því tæmandi:

1. Stjórnarskrárbundin vernd ríkisins til handa evangelísk-lúthersku kirkjunnar verði afnumin og lögum í þeim anda breytt eða numin úr gildi.

2. Komið verði á fjárhagslegu sjálfstæði trúfélaga þannig að þau verði sjálf ábyrg fyrir allri tekjuöflun sinni. Til vara má gera þá kröfu, ef ekki verður orðið við þessu, að önnur félagasamtök fái notið sóknargjalda einstaklinga kjósi þeir að hafa það svo.

3. Siðfræðikennsla komi í stað trúfræðikennslu í grunnskólum.

Margt fleira mætti telja til en verður ekki gert að svo stöddu.

Góður biskup
Ég verð að viðurkenna að biskup kom ansi vel fyrir í þættinum og er mér til efs að þeir rúmlega tvö hundruð sem kusu hann hefðu getað valið mikið frambærilegri mann. Þannig komst hann vel frá nokkrum erfiðum málefnum. Sérstaklega þótti mér fróðleg orð hans um fóstureyðingar. Hann taldi slæmt hversu algengar þær væru en taldi ekki rétt að takmarka möguleika fólks til þeirra heldur sagði hann að leiðin til að bæta ástandið væri mótun hugarfars. Þar er ég honum alfarið sammála.

Hins vegar var sumt sem ég er ekki sammála honum um. Þannig finnst mér hann (svo sem skiljanlega miðað við stöðu hans) gera of mikið úr gildi trúarbragða og of lítið úr trúleysi. Þannig svaraði hann því aðspurður að teldi ekki hægt að halda uppi siðmenntuðu samfélagi ef trúin væri ekki með. Eins lýsti hann guðleysi þannig að það væri að bera enga lotningu fyrir náunganum eða samfélaginu. Sem trúleysingja sárnar mér alltaf þegar ég heyri svona yfirlýsingar. Ég reyni að koma vel fram við fólk og vel að eiga samstarf við það svo lengi sem ég get frekar en að setja mig upp á móti því (fyrir þessu eru auðvitað takmörk eins og öðru). Ég geri það hins vegar ekki vegna þess að það sé gott og kristilegt. Ég geri það vegna þess að friðsamlegt og hjálplegt samfélag er miklu betra en þjóðfélag þar sem átök ríkja. Rólegra, skemmtilegra og líklegra til árangurs. Ég reyni líka að hjálpa fólki eftir getu, eins og við gerum væntanlega flest. Það geri ég þó ekki vegna kristilegra siðaboða eða hugmyndarinnar um vist í himnaríki og helvíti. Heldur einfaldlega vegna þess að það er við hæfi og auk þess vonast ég til þess að þarfnist ég hjálpar séu aðrir reiðubúnir að veita hana. Gullna reglan um að koma fram við aðra eins og við viljum að þeir komi fram við okkur hefur nefnilega ekkert með trúarbrögð að gera. Hún er ósköp einfaldlega undirstaða mannlegs samfélags, trúaðs eða trúlauss.

*Ég er orðinn leiður á að skrifa alltaf: fylgismenn/talsmenn aðskilnaðar ríkis og kirkju og leyfi mér því að nota þetta skrípi hér.

Deildu