Eitt land, ein þjóð, ein trú?
Í tæp 900 ár voru Íslendingar lögum samkvæmt allir sömu trúar. Engum leyfðist að trúa öðru eða að trúa ekki. Að vísu voru örlitlar undanþágur mögulegar í upphafi og enda þessa tímabils. Meginreglan var engu að síður sú að allir skyldu vera kristnir. Fyrst kaþólskir en síðar evangelísk-lútherskir þegar veraldleg yfirvöld fundu nýja leið til að leysa eiginfjárvanda sinn.
Þetta skýrir öðru fremur hvers vegna svo stór hluti íslensku þjóðarinnar er skráður í Þjóðkirkjuna. Það sem hefur löngum verið haft fyrir satt, hvort sem er í krafti röksemdafærslu eða valdníðslu, getur verið furðu lífseigt og áhrifamikið þrátt fyrir ýmsar þær breytingar sem kunna að verða á þjóðfélaginu. Kannanir sem gerðar hafa verið á trúarbrögðum Íslendinga gefa ekki til kynna að Íslendingar séu sérstaklega kristnir. Flestir játa trú þegar þeir eru spurðir en eiga margir hverjir erfitt með að útskýra hana þegar eftir því er leitað. Meira að segja embættismenn Þjóðkirkjunnar hafa lent í vandræðum með að útskýra hverjar kenningar Þjóðkirkjunnar eru (eins og maður mér kunnugur komst að fyrir nokkru þegar hann gekk á milli trúfélaga og leitaðist við að kynnast kenningum þeirra).
Arfur fortíðar
Þrátt fyrir þetta er kristinni trú og trúfræðslu skipaður mikill sess í íslenskri stjórnsýslu. Þannig reiðir ríkið árlega af hendi háar fjárhæðir í rekstrarstyrki til Þjóðkirkjunnar ofan á sóknargjöldin auk ýmissa annarra útgjaldaliða sem gagnast Þjóðkirkjunni öðrum trúfélögum fremur.
Börnum er kennd kristinfræði í grunnskólum. Þannig er þeim kennt að Guð hafi skapað heiminn og Jesús Kristur dáið fyrir syndir okkar dauðlegra manna (reyndar fer lítið fyrir þeim hlutum Biblíunnar sem þykja í dag of ofbeldisfullir fyrir börn og unglinga). Í flestum tilfellum er þetta kennt sem heilagur sannleikur. Reyndar er stundum minnst á að önnur trúarbrögð séu líka til og jafnvel að sumir séu trúleysingjar. Niðurstaðan er þó sú að kristni er kennd sem sannleikur og oft lítið gert úr öðrum viðhorfum. Væntanlega finnast kennarar sem hafa meiri fyrirvara á kennslu sinni. Ég hef hins vegar fáa slíka hitt að máli og námsefnið gefur sjaldnast tilefni til að ætla annað en að kristinfræði og trúarbragðakennsla í grunnskólum landsins séu hreint og klárt trúboð. Ríkisrekið og mótað í samvinnu við eitt trúfélag.
Meira að segja Alþingi hefur störf sín á því að hlýða á messu og reyndar hafa sumir lagt til að allir þingfundir hefjist á bænahaldi hversu fáránlegt sem það kann að hljóma.
Er ekki nóg komið?
Þrátt fyrir að trúarbrögð skipti sífellt minna máli í lífi fólks og að hlutfall Íslendinga í Þjóðkirkjunni lækki ár frá ári er margt í lögum og stjórnsýslu lýðveldisins sem virðist ganga út frá trúarbrögðum sem meginþætti í lífi þjóðarinnar. Það er, samkvæmt minni reynslu og eftir því sem ég hef kynnt mér, einfaldlega rangt. Eftir stendur þó að ríkisrekið trúboð kostar ríflega tvo milljarða króna á ári hverju og það án þess að kostnaður við Kristnihátíð sé talinn með en þar bætast nokkur hundruð milljónir við.
Það er úrelt fyrirkomulag að eitt trúfélag njóti fyrirgreiðslu stjórnvalda á kostnað annarra. Reyndar finnst mér óeðlilegt að ríkið skuli tryggja tekjur trúfélaga almennt í formi sóknargjalda og tel rétt að gera trúfélög ábyrg fyrir fjárhag sínum. Í nútíma þjóðfélagi er aðskilnaður ríkis og kirkju mál sem ætti að vera löngu komið í höfn.