Ég er einn þeirra sem bregður ansi oft þegar Visa-reikningurinn kemur inn um lúguna og ég sé að ég hef stórlega vanmetið útgjöld mín mánuðinn á undan. Ég get sem best trúað því að fjármálaráðherra hafi brugðið álíka þegar hann fékk tölurnar um hvernig rekstur ríkissjóðs á síðasta ári gekk. Þess vegna ætla ég að gefa honum nokkur ráð um hvernig má ná niður ríkisútgjöldum.
Það fyrsta sem við verðum að gera er að ákveða hvaða verkefni eiga að vera í verkahring hins opinbera og hvað ekki. Auðvitað á öryggi íbúanna, menntun þeirra, heilbrigðisþjónusta, félagsleg aðstoð og samgöngur (að einhverjum hluta) að vera í verkahring hins opinbera. Þetta finnst mér svo sjálfsagt að ég ætla ekki einu sinni að rökstyðja þetta í þessari grein. Meðal þess sem ríkið er að vasast í núna en mér finnst óheppilegt má nefna styrkjakerfi landbúnaðar og sjávarútvegs, kostun trúfélaga og rekstur útvarps- og sjónvarpsstöðva.
Nokkur stutt dæmi
Ég verð því miður að viðurkenna að ég skil ekki rökin fyrir því að halda uppi landbúnaðarkerfi sem gerir ekki annað en að draga niður lífskjör almennings í landinu. Samt stöndum við frammi fyrir því að hér er rekið dýrt styrkjakerfi í landbúnaði auk þess sem innflutningshömlur eru settar á erlendar landbúnaðarvörur sem heldur svo uppi vöruverði vegna skorts á samkeppni. Kannski er ég svona illa gefinn en ég hélt að ríkisvaldinu væri ætlað að bæta hag fólksins í landinu. Landbúnaðarkerfið sem við búum við er því miður gott dæmi um það hvernig stjórnmálamenn hafa villst af leið. Þess má til „gamans“ geta að gera má ráð fyrir því að kaupmáttaraukning þeirra lægst launuðu nemi um 10% ef við tökum upp markaðsleiðir í landbúnaði.
Í sjávarútvegi stöndum við frammi fyrir því að gífurlegum verðmætum er úthlutað endurgjaldslaust í formi veiðiheimilda. Sá dráttur sem hefur orðið á því að veiðileyfagjald verði tekið upp er svo sem ekkert annað en ríkisstyrkir þó svo það sjáist ekki á reikningum. Aðrir duldir styrkir til sjávarútvegsins er svo sjómannaafslátturinn en með sérstökum skattaívilnunum eru sjávarútvegsfyrirtæki styrkt um á annan milljarð króna á ári.
Kostnaður hins opinbera af rekstri trúfélaga á síðari ári nam á þriðja milljarð króna. Þar sem ég tel trúmál vera einkamál einstaklinga finnst mér ekki við hæfi að ríkið sé að vasast í trúmálum. Því tel ég rétt að koma á fullum aðskilnaði ríkis og kirkju þannig að öll trúfélög verði sjálf ábyrg fyrir rekstri sínum. Á sama tíma gefst gott tækifæri til að svara í eitt skipti fyrir öll hver sé eigandi títtnefndra kirkjujarða.
Fjölmiðlarekstur hins opinbera er enn einn útgjaldaliðurinn sem ég á stundum erfitt með að sætta mig við. Þegar fjöldi útvarps- og sjónvarpsstöðva er starfandi (þó svo flestar stöðvanna náist aðeins á takmörkuðum svæðum) sé ég litla ástæðu til að ríkið sé í sérstökum rekstri. Því finnst mér rétt að einkavæða alla vega Rás 2 og Ríkissjónvarpið.
Peningum kastað á glæ
Þetta er alls ekki teljandi upptalning. Ég gæti bætt við ýmis konar menningarstarfsemi og öðrum verkefnum sem spurning er hvort ríkið eigi að kosta. Til þess hef ég þó hvorki tíma né pláss í þessum stutta pistli. Aftur á móti telst mér til að liðirnir að ofan kosti ríkissjóð árlega hátt á annan tug milljarða króna. Það er gríðarlega mikill peningur, reyndar svo mjög að fæstir gera sér grein fyrir hvers konar upphæðir þetta eru. Til að setja þetta í samhengi má þó segja að fyrir hvern af þessum mörgu milljörðum er hægt að kaupa yfir þúsund smábíla, vel yfir hundrað íbúðir eða fara 1.538.461 í bíó. Þessum pening köstum við á glæ á hverju ári.