Um langan tíma hefur byggðastefna á Íslandi verið rekin með það fyrir augum að halda öllum smábæjum og þorpum í byggð. Þannig hefur tugum milljarða verið varið í ýmis verkefni sem hafa átt að tryggja atvinnu víðs vegar um landið. Niðurstaðan hefur þó verið sífellt meiri þróun í þá átt að landsbyggðafólk flytji á höfuðborgarsvæðið þar sem atvinnutækifæri eru fjölbreyttari og samfélagið margbreyttara.
Vitlaus markmið
Að mínu mati hafa markmið byggðastefnu löngum verið röng. Sú von manna að halda öllum „krummaskuðum“ landsins í byggð er röng einfaldlega vegna þess að þau virðast ekki svara þörfum og óskum landsmanna. Byggðaþróun síðustu ára er skýr sönnun þess. Fólk hefur flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins, ekki endilega vegna þess að atvinnuna skorti á heimaslóðum heldur og jafnvel frekar vegna þess að atvinnutækifærin eru fábreytt og að margra mati óspennandi.
Fyrir utan félagslega þáttinn þarf að taka tillit til hagsemissjónarmiða. Allur kostnaður við rekstur lítilla sveitarfélaga er hlutfallslega meiri en rekstur stærri sveitarfélaga. Enn fremur er skortur á fjárfestingu í smáum sveitarfélögum til marks um það að þau atvinnutækifæri sem eru ekki nú þegar til staðar verði ekki til staðar síðar meir, einfaldlega vegna þess að atvinnurekendur telja hagkvæmara að fjárfesta annars staðar. Tvennt ræður, annars vegar rekstrarkostnaður en hins vegar skortur á hæfu starfsfólki.
Byggðastefnan sem við búum við hefur haldið lífinu í sveitarfélögum sem reiða sig á eitt eða tvö fyrirtæki og lenda á vonarvöl þegar þau fyrirtæki fara á hausinn. Þetta er hins vegar lítil lausn á vanda fólksins sem þar býr.
Raunhæfar leiðir
Eitt sem við verðum að gera okkur grein fyrir er að þegar fólk í sveitarfélögum kallar á hjálp er það ekki endilega að biðja um hjálp við að búa áfram á sama stað heldur er það að biðja um aðstoð til að framfleyta sér og fjölskyldum sínum. Á þessu er grundvallarmunur.
Fyrir skömmu var úthlutað byggðakvóta til að bjarga atvinnu á nokkrum stöðum kringum landið. Um áratugaskeið hefur tugum milljarða verið eytt í hin fjölbreyttustu verkefni sem fæst hafa skilað umtalsverðum árangri. Byggðafélög sem lenda á vonarvöl þegar fiskvinnslufyrirtækið á staðnum fer á hausinn eru ekki komin á græna grein þegar byggðakvótanum er úthlutað. Þau fá einfaldlega gálgafrest.
Þessi gálgafrestur hefur komið í veg fyrir eðlilega byggðaþróun. Þegar fólk leitar eftir fjölbreyttari atvinnutækifærum og litríkara samfélagi á ekki að „leysa“ vanda þess með því að halda líftórunni í deyjandi sveitarfélögum. Markvissara er að gefa fólki tækifæri á að flytja annað sé það vilji þess og aðstoða það við flutningana. Besta aðstoðin er ekki endilega fólgin í því að halda fólki á sama stað, ef fólk vill flytja er að mínu mati ekkert sjálfsagðara en að veita því sömu aðstoð og ef það vill búa áfram á sama stað.
Byggðastefna verður að taka mið af því að byggðir kunna að leggjast í eyði. Það hefur gerst áður og væri að öllum líkindum búið að gerast í mun meira mæli ef ekki hefði verið gripið til skammtímaaðgerða til að halda áfram rekstri gjaldþrota fyrirtækja. Í byggðastefnunni sem hér hefur verið fylgt hefur það gleymst að markmiðið er það að hjálpa íbúunum, ekki byggðunum. Sjálfur held ég að oft hefði verið betra fyrir íbúana að létta þeim sem vildu búferlaflutninga frekar en að segja vandann leystan með nokkurra mánuða greiðslufresti.
Hvers vegna ekki?
Í upphafi forsætisráðherratíðar sinnar lýsti Davíð Oddsson því yfir að það þyrfti að endurskoða byggðastefnuna. Í tillögum hans fólst að þétta þyrfti byggð og koma upp þjónustukjörnum í hverjum landsfjórðungi sem væri miðstöð byggðar. Þá var líka ljóst að einhver sveitarfélög myndu leggjast í eyði meðan önnur myndu eflast. Margir urðu þó til að gagnrýna þetta á misjafnlega málefnalegum forsendum og Davíð hefur ekki minnst á þetta í nær átta ár.
Þó segir mér svo hugur að þetta sé eitthvert merkasta mál sem hann hefur reifað. Byggðastefnan sem hann lagði til þar hefði flýtt fyrir þeirri byggðaþróun sem á sér nú þegar stað og hjálpað íbúum deyjandi sveitarfélaga miklu frekar en byggðakvótar og aðrar vanmáttugar smáskammtalækningar.
Við þurfum opna umræðu um þetta eins og svo mörg mál önnur. Hún má hins vegar ekki einkennast af upphrópunum um landsbyggðarhatur eða ofuráherslu á hagstjórnaratriði. Hún verður að taka tillit til þeirra sem málið varðar sem einstaklinga frekar en íbúa sveitarfélaga.