Skapstyggi heimalningurinn og rússarnir nýríku

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

19/08/1999

19. 8. 1999

Ég mun alltaf minnast þess þegar Guðlaugur Þór, borgarfulltrúi og vaxtaræktarfrömuður, gekk að mér á bar, einhverja kosningabaráttuna og sagði: „Hugsjónin er okkar megin!“ Það kom dálítið á mig og eftir nokkra umhugsun spurði ég hann um hvað hugsjón hann væri að tala. Það er ekki von að maður spyrji, sérstaklega nú þegar hinn hýri […]

Ég mun alltaf minnast þess þegar Guðlaugur Þór, borgarfulltrúi og vaxtaræktarfrömuður, gekk að mér á bar, einhverja kosningabaráttuna og sagði: „Hugsjónin er okkar megin!“ Það kom dálítið á mig og eftir nokkra umhugsun spurði ég hann um hvað hugsjón hann væri að tala.


Það er ekki von að maður spyrji, sérstaklega nú þegar hinn hýri hugmyndafræðingur frjálshyggjunar, ríkisstarfsmaðurinn Hannes Hólmsteinn Gissurarson, afhjúpar að frjálshyggjan sé á engan hátt algilt lögmál sem skuli fylgja, heldur tilviljanakennt tæki ætlað til notkunar þegar málsvörum hennar hentar. Sjálfstæðismenn virðast telja að þeir sem setja leikreglurnar þurfi ekki endilega að hlýta þeim.

Nú er ég auðvitað að tala um þau ummæli Hannesar Hólmsteins að Jóni Ólafssyni, þeim er kenndur er við Skífuna, sé á engan hátt treystandi til að eiga banka. Máli sínu til stuðnings reynir Hannes að afhjúpa svínslegt eðli Jóns með því að benda á að Jón hafi etv. lagt sitt af mörkum til lýðræðisins með því að leggja fjármagn í kosningarsjóði, sem og það illvirki að ætla að breyta Laugardalnum í alhliða fjölskylduskemmtigarð fremur en athvarf aldraðara og ungbarna, líkt og hann er í dag.

Það sem Hólmsteinn vildi hinsvegar ekki segja var nokkuð sem kom til tals á Hólahátíðinni. Þar steig í pontu hinn bráðláti forsætisráðherra þjóðarinnar og lak af honum heiftin svo mjög að líkt var og andkristur væri í kirkju kominn. Þar fór forsætisráðherra óblíðum orðum um rússnesku mafíuna sem ógnar skyndilega íslenskum viðskiptum. Líklegt virðist að hún vilji kaupa sig inn í íslenskt bankakerfi.

Það dylst engum að orð forsætisráðherra um menn sem hafa hagnast á fíkniefnaviðskiptum er sérstaklega beint gegn Jóni Ólafssyni. Það kemur mér svo sem ekkert á óvart að Davíð hafi lesið umfjöllun Helgarpestarinnar/Pressunar/Eintaks um persónu Jóns enda fá allir Alþingismenn fjölmiðlana heim í póstkassa á kostnað skattborgaranna. Það hlýtur þó að teljast til nokkurra tíðinda að forsætisráðherra trúi því sem stendur á síðum gulu pressunar. Kannski veit hann eitthvað sem ég ekki veit. Kannski er hann Elvis. Þess ber þó að geta að Rússneska mafían er hópur manna sem hefur byggt stöðu sína og auð á vernd ríkjandi valdhafa, ekki ólíkt því sem löngum hefur tíðkast í íslensku efnahagslífi.

Ekki ætla ég að vera bitur þó Jón hafi ekki ausið fé í mína kosningasjóði. Þvert á móti fagna ég því að þeir öflugu málsvarar frjálsra viðskipta sem standa að Orkunni skuli nú vera að fara inn á nýtt svið. Þeir hafa skilað umtalsverðum árangri á sínum sviðum og kannski að nú horfi til nýrra tíma í íslenskum bankamálum. A.m.k. hafa bankastjórar í gegn um tíðna ekki gefið þjóðinni mikið tilefni til að leggja traust sitt á þessa stétt, þó sumir þeirra hafi seinna meir smokrað sér aftur inn á Alþingi. Ég veit það allaveganna fyrir mitt leiti að ég fagna því að fá menn inn í bankageirann sem geta talið upp á fimm á fingrum annarar handar.

Hinir sjálfsskipuðu fulltrúar frelsis og framfara í íslenskum stjórnmálum hafa því afhjúpað sig. Trúin á á frjálst framtak og sú grundvallar hugsjón að maður skuli saklaus uns sekt er sönnuð eiga aðeins við þá aðila sem eru heimalingnum úr Valhöll eru þóknanlegir.

Deildu