Hér eru mínar hugleiðingar um komandi kosningu um tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá. Ég sat fund um komandi stjórnarskrárkosningu síðastliðinn laugardag í Iðnó. Nokkrir fulltrúar úr stjórnlagaráði fluttu erindi og voru þau öll áhugaverð og gagnleg. Skemmtilegt hvað ég gat verið sammála öllum ræðumönnum í flestum atriðum. Fjallað var um kosninguna í heild og þær auka fimm spurningar sem kjósendum gefst kostur á að svara.
Helstu niðurstöður mínar eru þessar:
1) Samþykkjum tillögur stjórnlagaráðs
„Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?“
Mitt svar: Já
Það er sama hvernig þú kýst. Þú getur ekki ógilt atkvæði þitt. Þannig getur þú svarað spurningu 1 neitandi en samt haft skoðun á spurningum 2 – 6. Þú getur svarað einni spurningu, öllum, eða einfaldlega skilað auðu. Það er því engin ástæða til að taka ekki þátt. Íslenska þjóðin hefur aldrei fengið að kjósa um tillögur að stjórnarskrá og það væri því mikil sóun á lýðræðinu ef fólk fjölmennir ekki á kjörstað. Ég tek undir með Þorvaldi Gylfasyni sem sagði á fundinum síðasta laugardag: „Þjóðaratkvæðagreiðslan 20. október er mikilvægasta þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir íslenska þjóð á lýðveldistímanum.“
2) Náttúruauðlindir í þjóðareign
„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?“
Mitt svar: Já
Það er afar mikilvægt að það sé tekið skýrt fram í stjórnarskrá að náttúruauðlindir landsins, sem nú þegar eru ekki í einkaeign, verði í þjóðareign. Ef einkaaðilar vilja nýta náttúruauðlindir Íslands verða þeir að greiða fullt gjald fyrir. Sumar náttúruauðlyndir á aldrei að „nýta“. Þetta er að mínu viti grundvallarmál. Í hvert sinn sem einkaaðilar fá afnot að auðlindum ýmist ókeypis eða fyrir of vægt gjald er það ekkert annað en arðrán á kostnað hins almenna borgara og ófæddra Íslendinga. Að fá afnot að einhverju sem er 100 milljóna króna virði með því að borga 10 milljónir er það nákvæmlega sama og að fá 90 milljón króna gjöf frá hinu opinbera (ef við gefum okkur að í þessum tölum sé tekið tillit til kostnað við að nýta auðlindina o.s.frv.). Of algengt er að þjóðarauðlindir séu seldar á undirverði, sérstaklega á krepputímum. Þegar gríðarlegar fjárhæðir eru í húfi er hætta á spillingu mikil. Einnig er mikil hætt á því að ráðamenn á hverjum tíma freistist til að selja (eða jafnvel gefa) mikilvægar auðlindir í nafni atvinnusköpunar og hagvaxtar. Reynsla margra þjóða sýnir að fátækasta fólkið og millistéttin græðir lítið sem ekkert af slíkum gjörningum. Sérstaklega ekki þegar til lengri tíma er litið.
3) Þjóðkirkja á ekki heima í stjórnarskrá
„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“
Mitt svar: Nei
Þessi spurning hefur vafist fyrir mörgum. Hvað þýðir að hafa ekki ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá? Svarið er einfalt. Það verður ekki ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá. Það er ekki verið að spyrja um aðskilnað ríkis og kirkju. Mikilvægt að því sé haldið til haga. Ég, og mikill meirihluti þjóðarinnar (72% samkvæmt nýjustu könnun Capacent), vil aðskilnað ríkis og kirkju og ég tel að það sé ákveðinn áfangi að losna við þjóðkirkju úr stjórnarskrá allra Íslendinga. Ekki á að fjalla sérstaklega um eitt lífsskoðunarfélag í stjórnarskrá. Stjórnarskrá Íslands á að tryggja fullt trúfrelsi og jafnræði borgaranna óháð lífsskoðun þeirra. Hlutverk stjórnarskráa almennt er að tryggja almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni. Því er mikilvægt að fólk svari þessari spurningu neitandi. Svari fólk þessari spurningu neitandi er það líka að styðja tillögu stjórnlagaráðs þar sem ekki er kveðið á um þjóðkirkju í tillögum þess.
4) Heimila á persónukjör í meiri mæli
„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?“
Mitt svar: Já
Ég hef átt hvað erfiðast með að svara þessari spurningu. Ég styð án nokkurs vafa meira lýðræði en hef óttast ákveðið lýðskrum í kringum persónukjör. Eiríkur Bergmann Eiríksson svaraði vangveltum mínum vel á þessum fundi. Hann benti réttilega á að Ísland væri nú þegar með helstu ókosti persónukjörs (lýðskrum, „séð og heyrt“ frambjóðendur, óhóflega styrki til einstaklinga í framboði o.s.frv.) í gegnum prófkjör flokkanna. Hægt er að setja sérstök lög og leikreglur um fjárframlög, opið bókhald og annað til að draga úr ókostunum en um leið gefa fólki meiri möguleika á að kjósa einstaklinga en ekki bara flokka. Eiríkur benti jafnframt réttilega á að ótal útgáfur eru til af persónukjörum sem eru mishollar lýðræðinu. Eftir stendur að ég tel mikilvægt að persónukjör í einhverri mynd verði stundað í ríkari mæli.
5) Jafna þarf atkvæðavægi
„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?“
Mitt svar: Já
Það er grundvallaratriði að atkvæði kjósenda vegi jafnt óháð búsetu. Ég skil að mörgu leyti ótta sumra sem búa út á landi sem telja að jafnt vægi atkvæða muni hafa neikvæð áhrif á landsbyggðina. Ég held þó að sá ótti sé óþarfur. Ég er sannfærður um að enginn stjórnmálaflokkur kæmist upp með það til lengdar að hundsa landsbyggðina þó að vægi atkvæða yrði jafnað. Vissulega búa langflestir á höfuðborgarsvæðinu og flestir kjósendur því þar. En hvaða máli skiptir það? Af hverju þarf að jafna atkvæði útfrá búsetu? Af hverju ekki út frá öðrum eiginleikum manna? Til dæmis út frá kynþætti, kyni, lífsskoðun, tekjum o.s.frv.? Stjórnarskrá á að tryggja jafnræði allra þegna. Þetta er einfalt sanngirnismál. Hvernig á annars að ákveða hversu mikið misvægi atkvæða er? Hvernig er hægt að reikna það út? Það er ekki hægt. Einfaldast og réttlátast er „einn maður, eitt atkvæði“.
6) Sjálfstæður réttur þjóðarinnar til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu er mikilvægur
„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?“
Mitt svar: Já
Af mörgum ástæðum reynist þingheimi oft erfitt að taka á mjög umdeildum málum. Málum sem jafnvel er mikill meirihluti fyrir. Kjörnir leiðtogar veigra sér við að taka á erfiðum málum meðal annars út af ótta við sterk hagsmunasamtök eða ótta við að sprengja stjórnarsamstarf og þar með missa völd. Því er nauðsynlegt að þjóðin skjálf geti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæg mál, og það án milligöngu forseta. Aukinn réttur til þjóðaratkvæðagreiðslu getur einnig haft það í för með sér að löggjafarvaldið vandar sig betur við lagasetningu. Stjórnvöld verða þannig að ná betri samstöðu um erfið mál og kynna rök sín betur fyrir þjóðinni ef þau ætla ekki að eiga það á hættu að þjóðin taki málið í sínar hendur. Þó ég sé hlynntur auknum rétti kjósenda til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu má það samt ekki verða of auðvelt. Það þarf að hafa skýrar reglur um hvernig slík krafa kemur fram og hugsanlega þarf að gera auknar kröfur um fjölda þeirra sem geta óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu.
Mikilvægast er að allir nýti atkvæðarétt sinn og kjósi 20. október næstkomandi. Ekki láta einstaka stjórnmálamenn eða hreyfingar letja ykkur frá því að kjósa.
Ítarefni
- Samtök um nýja stjórnarskrá – SANS
- Kjörseðill við þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október 2012
- Segjum Nei við þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá
- Upptaka af fundinum sem haldinn var í Iðnó