Eineltisfrásögn 2: Var oftar ,,veik” heima en í skólanum

Höfundur:

15. 8. 2002

Ég er úr Kópavoginum, fædd þar og uppalin og gekk alla tíð í Kópavogsskóla. Þessi ár voru mér hryllileg. Það voru aðrir sem fengu að kenna verr á því en ég, ég var kjaftfor þannig sá sem skaut á mig fékk fast skot á móti, krakkarnir þorðu því ekki mikið að gera nema tveir eða […]

Ég er úr Kópavoginum, fædd þar og uppalin og gekk alla tíð í Kópavogsskóla. Þessi ár voru mér hryllileg. Það voru aðrir sem fengu að kenna verr á því en ég, ég var kjaftfor þannig sá sem skaut á mig fékk fast skot á móti, krakkarnir þorðu því ekki mikið að gera nema tveir eða fleiri sæju um svívirðingarnar. Fyrstu ár grunnskólans voru fín, ég hef átt yndislega vinkonu frá því við vorum fimm ára, hún var með mér í bekk og erum við enn bestu vinkonur í dag. Það var ekki fyrr en í tíu ára bekk að ballið byrjaði, þá bættist ný stelpa í bekkinn og hún var hið týpíska rotna epli.

Ég held í dag að henni hafi staðið ógn af mér þar sem flestum líkaði við mig þegar hún kom og mér gekk vel í náminu, og hinum félagslega. Ég man ekki allt, hef held ég valið að gleyma, en ég ætla þó að telja upp nokkur minnisstæð atvik.

Ég man alltaf eftir því þegar allir krakkarnir voru að hlaupa út ganginn til þess að fara út í fótbolta og ég hljóp líka dauðhrædd,  bíðandi eftir því að vera felld eða hrint. Eins fékk ég að líða fyrir það að ég átti bróður sem var tveimur árum eldri en ég og gekk lengi vel í sama skóla. Hann var mjög sérstakur, gríðarlega vel gefin og þar með útskúfaður og strítt, við erum mjög lík í útliti og fór fólk þá að kalla mig hans nafni, sem ég á endanum var farin að svara. Það hljómaði einsog blótsyrði í munninum á þeim. Ég fór alltaf í sérstakan ,,mér er alveg sama“ gír í skólanum, ég talaði illa um bróður minn (sé eftir því enn þann dag í dag) því krökkunum fannst það fyndið hvað hann var skrítinn.

Ég man einu sinni að hafa hlaupið upp ganginn dauðhrædd með allan skarann á eftir mér hrópandi ,,berjum hana“ ég endaði inná bókasafnsgangi þar sem húsvörðurinn stóð til allra hamingju og bjargaði mér.

Í áttunda bekk vildi enginn tala við mig, og ef einhver yrti á mig var það til að segja mér að ég væri ljót, með stórt nef í ljótum fötum eða illa lyktandi, enn kölluð nafni bróður míns. Aldrei alla grunnskólagönguna trúði ég því að ég væri falleg, ég var með mikið sítt hár, sem var mjög fallegt, en ég hef ekki enn getað látið það vaxa aftur. Fékk sjaldan bólur og gekk vel í skólanum, námslega séð. Semsagt enginn augljós ástæða fyrir einelti.

Ég var orðinn hrædd við að leggja af stað heim, í áttunda bekk, þá fór ég oft í strætó í vinnuna til mömmu því það bjó svo mikið af þessum krökkum í mínu hverfi. Meira að segja krakkarnir sem voru með bróður mínum í bekk gátu ekki látið mig vera, var iðulega kaffærð og niðurlægð á einhvern máta á leiðinni heim.

Ég fékk vottorð í leikfimi og sundi til að þurfa ekki að fara og ég var svo oft ,,veik“ að í tíunda bekk var ég oftar ,,veik” heima en í skólanum.

Það sem situr fastast í mér er hið andlega niðurrif, á hverjum degi heyrði ég eitthvað ljótt um mig, vonaði að ekki væri búið að taka útifötin mín eða troða skónum mínum ofaní töskuna mína. Þessi rosalega útskúfun að vera hvergi velkomin og öllum finnst ég ógeðsleg. Ég trúði ekki að ég gæti nokkurn tíma átt kærasta, þannig þegar tækifærið gafst eftir að ég kláraði barnaskólann og hélt á vit ævintýranna útí hinum stóra heimi, svaf ég hjá öllum sem á mig litu, því ég var svo hissa á þessum mikla áhuga sem ég mætti alstaðar frá hinu kyninu. Ég sé gríðarlega eftir þessu í dag og vildi óska að ég hefði kunnað að meta sjálfa mig betur.

Í dag á ég yndislegan mann og falleg börn, nota enn sömu vörnina og þá, bara að hér sé allt ókei, ég er alltaf bara svona afslöppuð yfir öllu, svo gasalega opin og félagsleg, á meðan mér líður allt öðruvísi en ég læt skína í og fáir þekkja hina sönnu mig. Ég mannaði mig uppí að segja frá þessu í rifrildi við bróður minn ein jólin, ég held ég hafi verið 18, hann sagði þá bara að þetta hefði ekkert með hann haft að gera heldur væri ég bara svona mikil tík að ég kallaði þetta yfir mig. Mamma og pabbi stóðu þarna bæði en hafa ekkert nefnt þetta við mig síðan, allir voru svo uppteknir af vandræðabróður mínum að allir gleymdu því að ég fékk að líða fyrir hann líka.

Ég hef hitt sumt af þessu fólki á förnum vegi í gegnum tíðina og aldrei hef ég heyrt eitt styggðar yrði um mig, frekar hitt, allir rosa glaðir að hittast aftur, bara látið einsog ekkert hafi gerst. Enginn af þeim upplifði að eitthvað væri að. Á meðan bíð ég eftir því að fá að heyra ,,gælunafnið“ . Sem betur fer virðast allir hafa fullorðnast með árunum en mér þykir enn sárt að tala við þetta fólk sem ég taldi vini mína, en snérust gjörsamlega gegn mér í tíu og ellefu ára bekk, að enginn skuli biðjast afsökunar á framferði sínu.

Ég stend í þakkarskuld við eina yndislega vinkonu mína. Hún var eina heila manneskjan sem aldrei sagði neitt ljótt við mig og varði mig þegar krakkarnir réðust að mér. Án hennar hefði þetta sjálfsagt náð að buga mig meira en raun ber vitni. Enn í dag er hún sama heila manneskjan og þá trú sjálfri sér og sínum vinum.

Deildu