Bernie Sanders byltingin

Bernie Sanders
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

03/02/2020

3. 2. 2020

Það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður í Iowa í kvöld/nótt og svo í New Hampshire eftir viku. Vonandi verður loksins valinn sannur mannvinur, sem Bernie Sanders vissulega er, til að leiða Demókrataflokkinn til sigurs gegn Donald Trump síðar á árinu. Vonandi…

Í dag, 3. febrúar, fer fram fyrsta kosningin í forvali Demókrata fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum þegar kosið verður í Iowa fylki. Nýjustu spár benda til þess að sósíal demókratinn Bernie Sanders fái þar flest atkvæði.

Samkvæmt meðaltali kannana er hann með um 4% forskot á helsta keppinaut sinn Joe Biden í Iowa. Kosningin í dag gæti orðið tæp en Sanders á sannarlega góðan möguleika á að sigra.

Gengi Sanders í könnunum og fjáröflun er ævintýri líkast. Fyrir örfáum árum hefði engum dottið í hug að demókratískur sósíalisti, sem berst fyrir gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu til handa öllum (þar á meðal sálfræði- og tannlæknaþjónustu), niðurfellingu námslána og lána vegna heilbrigðiskostnaðar og róttækri umhverfisstefnu, ætti minnsta möguleika til að verða útnefndur forsetaframbjóðandi í Bandaríkjunum. Mekka kapítalismans.

Þetta gæti þó orðið raunin. Sanders hefur tekist að virkja fjöldann með einlægni og stefnufestu. Hann hefur safnað lang mest í kosningasjóð sinn með stuðningi almennings (hann tekur ekki við framlögum frá milljarðamæringum og stórfyrirtækjum). Enginn hefur nokkurn tímann fengið fjárstuðning frá svo mörgum einstaklingum í sögu kosninga í Bandaríkjunum. Þetta fjárstuðningskort segir allt sem segja þarf.

Eftir viku, 11. febrúar, verður svo kosið í New Hampshire og eru taldar mjög miklar líkur á að Sanders sigri þar, enda með töluvert forskot (+9%) samkvæmt könnunum. Á landsvísu er Biden enn með mest fylgi. 3,7% meira en Sanders. Fyrir stuttu síðan var Biden þó með um 15% forskot.

Þar sem forvalið fer fram yfir marga mánuði í fylkjunum skiptir staðan á landsvísu ekki svo miklu máli. Meira máli skiptir hvernig frambjóðendum gengur í fyrstu fylkjunum sem kjósa. Ef Sanders tekst að sigra í fyrstu tveim fylkjunum, Iowa og New Hampshire, er hann í ansi góðum málum því aðeins einu sinni á seinustu 40 árum hefur frambjóðandi hlotið útnefningu Demókrataflokksins eftir að hafa tapað bæði í Iowa og New Hampshire. Sá frambjóðandi sem kemur best út úr þessum tveimur fylkjum mun síðan án efa styrkja stöðu sína í fylkjunum sem eftir koma. Fólk á það til að stökkva á sigurstranglegasta frambjóðandann.

Svo er Sanders einnig í góðri stöðu, samkvæmt könnunum, í California sem er fjölmennasta fylkið í Bandaríkjunum.

Það verður spennandi að sjá hver niðurstaðan verður í Iowa í kvöld/nótt og svo í New Hampshire eftir viku. Vonandi verður loksins valinn sannur mannvinur, sem Bernie Sanders vissulega er, til að leiða Demókrataflokkinn til sigurs gegn Donald Trump síðar á árinu. Vonandi…

Þessi auglýsing lýsir Bernie Sanders vel:

Hér fyrir neðan má sjá spár frá því í dag, 3. febrúar 2020:

IOWA – kosið 3. febrúar (í dag, þegar þessi grein er birt)

Meðaltöl skoðanakannana (% atkvæða) undanfarna daga samkvæmt RealClearPolitics:

Bernie Sanders – 24,2 (+4,0)
Joe Biden – 20,2
Pete Buttigieg – 16,4
Elizabeth Warren – 15,6
Amy Klobuchar – 8,6

Líkur á sigri samkvæmt FiveThirtyEight:

Það eru 39% líkur á að Sanders fái flest atkvæði en 34% líkur á að Biden sigri. Buttigieg (14%), Warren (11%), Klobuchar (3%).

NEW HAMPSHIRE – kosið 11. febrúar

Meðaltöl skoðanakannana (% atkvæða) undanfarna daga samkvæmt RealClearPolitics:

Bernie Sanders – 26,5 (+9,0)
Joe Biden – 17,5
Elizabeth Warren – 14,3
Pete Buttigieg – 13,7
Amy Klobuchar – 6,7

Líkur á sigri samkvæmt FiveThirtyEight:

Það eru 58% líkur á að Sanders fái flest atkvæði en 20% líkur á að Biden sigri. Buttigieg (12%), Warren (10%), Klobuchar (1%).

CALIFORNIA – kosið 3. mars

Meðaltöl skoðanakannana (% atkvæða) undanfarna daga samkvæmt RealClearPolitics:

Bernie Sanders – 25,8 (+4,8)
Joe Biden – 21,0
Elizabeth Warren – 19,8
Pete Buttigieg – 7,3
Michael Bloomberg – 4,3
Amy Klobuchar – 3,5

Líkur á sigri samkvæmt FiveThirtyEight:

Það eru 50% líkur á að Sanders fái flest atkvæði en 34% líkur á að Biden sigri. Warren (10%), Buttigieg (5%), Klobuchar (0,6%), Bloomberg (0,3%).

Deildu