Eineltisfrásögn 1: Pabbi var öðruvísi

Höfundur:

15. 8. 2002

Þegar ég var orðin unglingur þá attaði ég mig á ýmsu…… Mér var meðal annars strítt á því að faðir minn væri fyllibytta þegar ég var barn en þegar ég var orðin unglingur þá áttaði ég mig á því að pabbi stelpunnar sem að stóð fyrir eineltinu var forfallinn alkóhólisti og drykkjusjúklingur. Ég hafði séð […]

Þegar ég var orðin unglingur þá attaði ég mig á ýmsu……

Mér var meðal annars strítt á því að faðir minn væri fyllibytta þegar ég var barn en þegar ég var orðin unglingur þá áttaði ég mig á því að pabbi stelpunnar sem að stóð fyrir eineltinu var forfallinn alkóhólisti og drykkjusjúklingur. Ég hafði séð hann oftar fullan en edrú. Á heimilinu sem að ég ólst upp á var manni kennt að vera ekki að kjafta um náungann og bera út slúður og alls ekki hlusta á slúður.

Enda var ekki talað um fólk, allavega ekki neikvætt á mínu heimili. Slúður var ekki til! Enda hefur alltaf skoðun mín verið sú að slúður sé viðbjóðslegt og mannskemmandi og eigi ekki að eiga sér stað. Sennilega hef ég þess vegna aldrei veitt þessu neina athygli þegar ég var krakki.

Minn pabbi var öðruvísi. Hann var bráðklár, hreinskilinn og heiðarlegur, átti marga vini og þótti sopinn góður en var aldrei í feluleik þegar hann var að fá sér í glas. Honum var sama þó að allur heimurinn vissi það en hann var ekkert að bögga fólk, lét það bara í friði og fór sínar eigin leiðir. Það getur enginn kvartað yfir drykkjulátum í honum og hann var líka þekktur í sinni heimabyggð fyrir hreysti og skemmtilegheit.

Hann dó fyrir 27 árum og eineltið minnkaði þá en stoppaði ekki alveg því miður. Ég hef oft hugsað hvort að það hefði virkilega þurft dauðsfall föður míns til að eineltið nánast hætti. Hvað ef að hann hefði lifað lengur blessaður? Af tvennu illu hefði ég viljað hafa hann nokkur ár í viðbót og þola eineltið en maður stjórnar víst ekki svoleiðis. Það hætti nú ekki alveg en það var bara svipur hjá sjón eftir að hann dó. Sem sagt, lífið var mér bærilegt en ég treysti fólki ekkert frekar og gat ekki beðið eftir að hætta í grunnskóla og komast eitthvað burt. Enn í dag er fólk að koma til mín og spyrja hvort að ég sé ekki örugglega dóttir hans Árna* og þá fæ ég líka yfirleitt að heyra eitthvað fallegt um hvaða mann faðir minn hafði að geyma. Fólk tók eftir honum af því að hann var frekar sérstakur.

Hitt er annað mál að ég skil ekki hvernig kennarar og starfsfólk í skólanum gátu lokað augunum fyrir svona löguðu. Ég var sko ekki sú eina sem að lenti í einelti. Ætli samviskan hafi aldrei sagt til sín hjá þessu fólki sem að var við stjórnvölinn? Hvernig er hægt að horfa á svona svo árum skiptir, börn að vinna skipulega í því að rústa lífi bekkjarfélaga sinna og mjög oft börn frá sömu fjölskyldu ár eftir ár og enginn gerir neitt í málinu? (Stóri bróðir stelpunnar sem að stóð fyrir eineltinu á mér lagði eldri systur mína í einelti og tók hana á taugum öll grunnskóla árin og enginn gerði neitt) Þetta varð bara hluti af daglega lífinu hjá því að horfa á börnin níðast hvort á öðru og gera nokkrum einstaklingum í skólanum lífið óbærilegt. Er hægt að lifa með þetta á samviskunni alla ævi eða hefur þetta fólk enga samvisku? Þetta er hlutur sem ég ekki skil og fæ aldrei skilið.

Ég man að ég hugsaði oft sem barn að það hlyti að vera gaman að vera fullorðinn af því að þá ætti maður svo góða vini og alltaf væri einhver að koma til mín í heimsókn. Það rættist nú kannski ekki alveg og það er mér að kenna því að ég enn í dag held fólki í fjarlægð og treysti mjög fáum. En þeir sem að heimsækja mig eru líka fólk sem að mér þykir vænt um og að ég treysti. Ég varð mjög mikill einfari sem krakki og unglingur og í dag þykir mér bara svo gott að vera ein og líður vel þannig enda þyrfti ég sjálfsagt að fara á námskeið í mannlegum samskiptum því að ég er kannski ekki sú besta í þeim. Segi alltaf eitthvað rangt á röngum stað og röngum tíma :). Getur verið spaugilegt stundum.

Ég gæti haldið endalaust áfram en ég ætla að stoppa núna.

*Árni er dulnefni

Deildu