Þolendur – Hverjir eru lagðir í einelti?

Rannsóknir hafa leitt í ljós að nokkur sameiginleg einkenni þolenda, sem geta hugsanlega útskýrt af hverju sumir krakkar eru lagðir í einelti en ekki aðrir.

Börn sem verða fyrir einelti eiga það oft sameiginlegt að vera óöruggari, hræddari, hlédrægari, viðkvæmari, hæglátari, varkárari eða hæverskari en börn almennt. Einnig hefur komið í ljós að þessi börn eiga hlýrra og nánara samband við foreldra sína en önnur; þá sérstaklega við móður.

Einnig einkennir það þessi börn frekar en önnur að þau stríða ekki öðrum, eru ekki árásargjörn og eru í eðli sínu mótfallin ofbeldi og beita ógjarnan ofbeldi sjálf við lausn ágreinings.

Þó svo að gerendur útskýri eineltið oft með vísun í ýmis ytri einkenni þolenda hafa rannsóknir sýnt að þolendur eru yfirleitt ekki frábrugðnir öðrum krökkum í útliti. Eini marktæki munurinn er að þolendur eru yfirleitt líkamlega veikbyggðari en jafnaldrar þeirra.

Það skiptir ekki öllu máli hvers eðlis ofbeldið er. Hvort það er líkamlegt eða andlegt. Það sem er verst er ofbeldi sem á sér stað aftur og aftur þannig að þolendur lifa sjaldnast glaðan dag.

Einelti hefur sömu áhrif og annað ofbeldi. Fórnarlambið missir smátt allan þrótt, gleði og lífsvilja og kennir sjálfu sér jafnvel um hvernig komið er.

Þeir sem verða fyrir einelti eru því oft einmana og yfirgefnir í skólanum. Þeir hafa neikvæða sjálfsmynd og álíta sig heimska, mislukkaða og lítið aðlaðandi.

Hvernig er hægt að vita að einhver er lagður í einelti?

Stundum fara fórnarlömb eineltis leynt með aðstöðu sína og því er ekki alltaf augljóst að viðkomandi er lagður í einelti. Hér fyrir neðan eru nokkur algeng einkenni þeirra sem lenda í einelti:**

  • Fórnarlambið neitar að segja frá því sem gerðist.
  • Fórnarlambið fer inn í sig, byrjar að stama, missir sjálfstraust.
  • Fórnarlambið byrjar að skrópa.
  • Fórnarlambið hættir að sinna námi, fær slæmar einkunnir.
  • Fórnarlambið byrjar að tala um að svipta sér líf, eða gerir tilraun til þess.
  • Fórnarlambið er með sár, marbletti og klór sem það getur ekki útskýrt.
  • Fórnarlambið verður óttaslegið, áhyggjufullt, missir matarlyst.
  • Fórnarlambið gefur fráleita skýringar á þeim atriðum sem hér hafa verin talin upp.
*Notast er við upplýsingar úr bókinni ,,Einelti“ eftir Guðjón Ólafsson.
** Notast er við upplýsingar frá heimasíðunni Kidscape.org.uk.