Íslamófóbía, rétthugsun og köngulær

Logo

Kristinn Theodórsson

Kristinn Theodórsson er fæddur árið 1977 í Reykjavík. Hann er verslunarmaður og vel kvæntur þriggja barna faðir. Kristinn er varamaður í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á ÍslandiNetfang: kiddithe@skodun.is

04/12/2014

4. 12. 2014

Munið þið eftir köngulóarmyndinni Arachnophobia? Hún fjallaði um baneitraðar köngulær sem drápu fólk í hrönnum og drukku úr því blóð. Þær laumuðust t.d. ofan í inniskó og bitu fólk í tærnar þegar það reis upp úr rúminu og potaði fótunum ofan í hlýju skóna á gólfinu. Köngulær eru líka til á Íslandi. En þær eru […]

Munið þið eftir köngulóarmyndinni Arachnophobia? Hún fjallaði um baneitraðar köngulær sem drápu fólk í hrönnum og drukku úr því blóð. Þær laumuðust t.d. ofan í inniskó og bitu fólk í tærnar þegar það reis upp úr rúminu og potaði fótunum ofan í hlýju skóna á gólfinu.

Köngulær eru líka til á Íslandi. En þær eru leiðinlega meinlausar og gera fólki ekki annað mein en að bregða okkur með sjálfri tilvist sinni. Fólk hrekkur við og rekur hausinn í skáphurðir og þessháttar. Getur verið dálítið pirrandi, en yfirleitt eru þær bara úti í náttúrunni að éta flugur.

Köngulóarfælni á Íslandi er sem sagt órökréttur og tilgangslaus ótti. Það er það sem er átt við með „fóbíu“.

Fólk óttast það sem það þekkir ekki. Og fólk hatar að vera hrætt. Þannig það er oft stutt á milli ótta og haturs. Margir segja einmitt „oh, hvað ég hata köngulær“.

Þið sjáið vitaskuld hvað ég er að vísa í með þessu. Ég er núþegar búinn að ganga allt of langt með líkinguna. Boðskapurinn er morgunljós og farinn að skera í augun.

En er líkingin góð? Það er spurningin.

Fólk óttast íslam af því að við höfum um árabil búið við (óeðlilega mikinn) fréttaflutning af ofbeldi, ofstæki og kúgun í nafn íslam. Rithöfundar og skomyndateiknarar hafa þurft að fara í felur vegna morðhótana í framhaldi af fatwa einhverra klerka. Fatwa er íslömsk lagaályktun; t.d. að einhver sé réttdræpur fyrir að hafa smánað Múhameð spámann.  Við þykjumst líka vita að sharíalög þýði sumstaðar að höggva þurfi hendur af þjófum og fleira þess háttar og síðast en ekki síst vitum við að sumstaðar meðal múslíma njóta konur ekki réttinda á við karlmenn og eru jafnvel mjög kerfisbundið kúgaðar. Og… ISIS.

Við tengjum margt slæmt við íslam.

En þrátt fyrir allar þessar hörmungar er stundum erfitt að fá að halda því fram að það sé sitthvað vont við íslam. „Þú ert bara með íslamófóbíu“ segir einhver og allir andvarpa yfir fáfræðinni og fordómunum.

„Veistu ekki að þetta er allt Bandaríkjamönnum að kenna? Þeir hafa fjármagnað og vopnavætt öfgahópa, valdið klofningi meðal múslíma, komið einræðisherrum til valda – þannig tryggt uppgang öfganna og með því komið múslímum í Mið-Austurlöndum til að hata Vesturlönd. Íslam væru annars bara trúarbrögð eins og hver önnur. Múslímar eru langflestir venjulegt fólk.“

Þyki einhverjum að þessi ræða skýri ekki allt og fer samt að tala um að í íslam séu vondar hugmyndir, er gjarnan sussað svo rækilega á viðkomandi og hann sakaður um fóbíu, að honum kemur til hugar orðið rétthugsun. Að einungis ein afstaða til íslam sé viðurkennd og umræða um önnur sjónarmið því einfaldlega þögguð í hel.

Rétthugsun felst oft í ofurviðkvæmni fyrir hönd hóps. T.d. fyrir hönd múslíma. Þá þykja vangaveltur og ásakanir sem önnur trúarbrögð og hugmyndakerfi þurfa reglulega að þola, ekki viðeigandi gagnvart þeim hópi.

Það má setja ofurviðkvæmni þessa á sama ás og íslamóphobíuna. Lengst til vinstri á ásnum er viðkvæmni allt of mikil og jafnvel eðlileg gagnrýni túlkuð sem tilefnislaus árás. Lengst til hægri ræður andúðin ríkjum og látið er með almenn vandamál eins og þau eigi bara við um það sem er gagnrýnt  -og gefi þess vegna tilefni til reiði og útskúfunar. Öfgarnar eru báðar viðlíka illa til þess fallnar að ræða hverjar staðreyndirnar eru.

Við þessi vandræði bætist svo að íslamófóbar vilja oft ekki kannast við að slík fóbía sé til og rétthugsunarfólkið vill að sama skapi ekki kannast við að það sé með ofurviðkvæmni eða að fóbíuásakanirnar séu stundum að kæfa eðlilega umræðu.

Hér á landi er bæði heilmikið um íslamófóbíu og rétthugsun. Ofurviðkvæmnin sem fylgir rétthugsuninni er þó að því leytinu til skiljanlegri að hún kemur m.a. til af því að kristin öfl sjá íslam sem ægilega ógn og eru svo ofsafengin í sínum málflutningi gegn trúarbrögðunum að fólki fyrirgefst að þykja ekki skorta á argaþras um vankanta þeirra, að gagnrýnin sé vatn á myllu rasískra íhaldsafla.

En íslamófóbíuna er erfiðara að verja því hún er svo gagnslaus. Við höfum engan lagalegan rétt til að mismuna múslímum og það hefur því ekkert upp á sig að hvetja til andúðar og reiði gegn þeim. Þvert á móti er mun líklegra að við getum vonast til þess að múslímar hér á landi verði vingjarnlegt og þægilegt fólk ef við erum þannig sjálf. Aldrei í sögunni hefur gefist vel að hata fólk og ætlast til þess að það bregðist við með því að vera vinalegra en ella.

Með öðrum orðum: við þurfum öll að reyna að vera meinlausar köngulær.

ps. Ég skil samt alveg að smá íslamófóbía komi stundum yfir fólk. Ég eyddi sjálfur tíma í þannig hugsanir áður en ég komst að þeirri niðurstöðu að þær séu gagnslausar.

Deildu