Listræn aftaka

Logo

Viktor Orri Valgarðsson

Stjórnmálafræðingur við Félagsvísindastofnun HÍ og málefnastjóri Landssambands æskulýðsfélaga. Skrökva-ði og Þrasa-ði í Stúdentaráði og Morfís. Kvennskælingur að fornu og nýju. Lýðræðisvaktin, Hreyfingin, UJ, Píratar, SANS og Stjórnlagaþing. Áttavitinn, Hamragrill, DV og Skoðun. Frjálshyggju-krati, andfemíniskur femínisti, með og á móti ESB, realískur friðarsinni, frjálslyndur vinstri-maður, trúgjarn efahyggjumaður og óflokksbundinn framapotari... tek á móti fleiri skoðana-stimplum í athugasemdakerfinu.

14/10/2014

14. 10. 2014

Talsmenn frelsis, frjálshyggju og frjálslyndis eiga oft erfitt með að sættast á við hvaða aðstæður, ef einhverjar, frelsi einstaklinga má takmarka. Flestir sættast á að frelsi eins takmarkist við frelsi annarra og að ég hafi ekki frelsi til að skaða aðra gegn vilja þeirra. Frjálshyggjumenn leggja að sama skapi gjarnan mikla áherslu á hinn mannlega skapaða […]

BannaðTalsmenn frelsis, frjálshyggju og frjálslyndis eiga oft erfitt með að sættast á við hvaða aðstæður, ef einhverjar, frelsi einstaklinga má takmarka.

Flestir sættast á að frelsi eins takmarkist við frelsi annarra og að ég hafi ekki frelsi til að skaða aðra gegn vilja þeirra. Frjálshyggjumenn leggja að sama skapi gjarnan mikla áherslu á hinn mannlega skapaða og ríkisvarða séreignarétt – en mótmæla að sama skapi hvers kyns takmörkunum einstaklingsfrelsis á grundvelli félagslegra réttinda, réttinda aðra til lífs, jafnra tækifæra o.s.frv., með þeim rökum að það sé svotil heilagt og megi aldrei skerða.

Athyglisverður vinkill á þeirri umræðu hefur komið oft upp á Íslandi undanfarin ár þegar kemur að tjáningarfrelsi einstaklinga; oftast í því samhengi að íslensk löggjöf og dómaframkvæmd hefur hingað til takmarkað tjáningarfrelsið verulega, skuggalega og í þágu ofbeldismanna, auðvalds og stjórnvalda á kostnað almennra borgara sem voga sér að tjá skoðanir sínar óheflað á internetinu.

Sú umræða er með þeim mikilvægari sem við þurfum að eiga – en núna um helgina kom upp tilvik sem reyndi allverulega á þolmörk þessarar frelsisreglu með allt öðrum hætti en hingað til hefur verið; þegar upp komst að viðbjóðslegu hryðjuverkasamtökin ISIS notuðust við íslenskt lén og vefhýsingu til að koma málstað sínum á framfæri í gegnum internetið.

ISIS.is

Í tilefni þess að forsætis- og dómsmálaráðherra sagði slíkan óbeinan stuðning íslenskra aðila og tengingu við ímynd landsins einfaldlega ekki ganga, einka-aðilinn sem hýsti síðuna lokaði á hana og lénið var tekið niður, hafa margir félagar mínir í hópi baráttumanna fyrir tjáningarfrelsi stokkið upp á nef sér og fordæmt þessa harkalegu aðför að tjáningarfrelsinu.

Þau virðast, flest sem eitt, líta svo á að tjáningarfrelsið sé fullkomlega takmarkalaus frelsisregla, að um leið og eitthvað megi skilgreina sem „tjáningu“ hafi athöfnin ekkert með áhrif hennar, skaða eða frelsi annarra að gera heldur eigi að leyfa hana alltaf og alls staðar, sama hvað. Þrátt fyrir að flest myndu þau viðurkenna að frelsisreglur á borð við athafna- og markaðsfrelsi eigi sér áðurnefnd takmörk.

Umræðan um réttmæti lokunar lénsins getur, og hefur, snúist annars vegar um hvort hún hafi verið lögleg og hins vegar hvort hún hafi verið siðleg. Nú þykir í fyrsta lagi augljóst að einka-aðila með vefhýsingu sé fullfrjálst að ákveða við hverja þeir eiga viðskipti og hverja ekki, og í öðru lagi að efni síðunnar hafi með beinum og óbeinum hætti brotið gegn ákvæðum laga um hatursáróður, hvatningu til ofbeldis og stuðning við hryðjuverkasamtök.

Ástæðan fyrir þessum lagalegu takmörkunum byggir síðan amk. að hluta á þeim siðferðislegu takmörkunum sem frelsisreglum eru almennt settar; að ég hafi ekki frelsi til að brjóta á frelsi annarra eða skaða þau. Þannig að ef ákveðin tjáning er mjög bein aðför að frelsi og mannréttindum annarra, veldur þeim verulegum andlegum skaða án tilefnis, hvetur til ofbeldis gegn þeim, skipuleggur slíkt ofbeldi og/eða styður beint og berlega við ofbeldisfulla og ólöglega starfsemi, þá séu þessi brot á frelsi annarra nægileg rök fyrir því að takmarka slíka tjáningu – jafnvel þó það sé erfitt að draga þau mörk hverju sinni.

Að tjá sig með aftöku

Í tilviki ISIS var ekki bara um að ræða „tjáningu“ – ekki frekar en vefsíður með barnaklámi, eða „snuff-myndum“ eru bara tjáning, þó þau notist við internetið til að miðla starfsemi sinni. Þar var um að ræða beinan lið í starfsemi, stríðsrekstri og viðbjóðslegu ofbeldi samtakanna; þann miðil sem m.a. var notaður til að dreifa myndböndum af afhöfðunum sem voru framkvæmdar í þeim tilgangi að setja þau á internetið, til að hvetja til frekara ofbeldis af því tagi, réttlæta það og safna liði til að halda áfram.

Þessi svokallaða tjáning er því óaðskiljanlegur hluti af þeim aftökum sem myndböndin sýna og vefsíðan í heild sinni þjónar þeim tilgangi að styðja við frekara ofbeldi og fjöldamorð samtakanna. Fjölskyldur fórnarlambanna hafa þurft að vita af og hugsanlega horfa upp á ástvini sína myrta með hrottalegum hætti og velþóknun á internetinu – og nú vilja íslenskir tjáningarfrelsissinnar með öllu móti verja takmarkalausan rétt ofbeldismannanna til að tjá sig með þeim hætti.

Til að þeir geti haldið áfram að tjá óumræðilega viðbjóðslegar aftökur sínar, koma hótunum sínum á framfæri – og standa við þær.

Þar kemur einfaldlega að takmörkunum. Tjáningarfrelsi þeirra er á þrotum, alveg eins og athafnafrelsi ofbeldismannsins.

Og hvað varðar frelsi okkar hinna til að forvitnast um vefsíðuna þeirra og horfa á viðbjóðsleg myndbönd akkúrat á meðan á hermdarverkunum stendur og alls ekki í gegnum aðra miðla: ég trúi því varla að nokkur heilvita maður telji þau rök vega þungt, gegn því grafalvarlega samhengi sem hér er um að ræða. Bíðið eftir myndinni, í guðanna bænum…

Deildu