Óumræðileg kosningabarátta

Logo

Viktor Orri Valgarðsson

Stjórnmálafræðingur við Félagsvísindastofnun HÍ og málefnastjóri Landssambands æskulýðsfélaga. Skrökva-ði og Þrasa-ði í Stúdentaráði og Morfís. Kvennskælingur að fornu og nýju. Lýðræðisvaktin, Hreyfingin, UJ, Píratar, SANS og Stjórnlagaþing. Áttavitinn, Hamragrill, DV og Skoðun. Frjálshyggju-krati, andfemíniskur femínisti, með og á móti ESB, realískur friðarsinni, frjálslyndur vinstri-maður, trúgjarn efahyggjumaður og óflokksbundinn framapotari... tek á móti fleiri skoðana-stimplum í athugasemdakerfinu.

21/07/2014

21. 7. 2014

Herra Ólafur Ragnar Grímsson „er lýðræðið“ í hugum margra – ekki síst hans eigin. Sjálfur talar hann varla um annað og lítur raunar svo á að sigur hans í forsetakosningunum sumarið 2012 hafi verið „sigur lýðræðislegrar byltingar í landinu„. Hvorki meira né minna. Þess vegna kann sumum fylgismönnum hans að hafa brugðið í brún þegar […]

Herra Ólafur Ragnar Grímsson „er lýðræðið“ í hugum margra – ekki síst hans eigin. Sjálfur talar hann varla um annað og lítur raunar svo á að sigur hans í forsetakosningunum sumarið 2012 hafi verið „sigur lýðræðislegrar byltingar í landinu„.

Hvorki meira né minna.

Þess vegna kann sumum fylgismönnum hans að hafa brugðið í brún þegar embætti hans lýsti því yfir að það væri beinlínis stefna forsetans að hunsa eigin kosningaloforð og neita að ræða þau eftir að hann hefur náð völdum. Þannig að fulltrúar lýðræðislegu byltingarinnar séu örugglega algerlega óbundnir af þeim orðum og gjörðum sem þeir voru kosnir út á.

Hafi maður fylgst náið með atferli forsetans þarf þessi afstaða þó ekki að koma mjög á óvart; sá sem telur sjálfan sig holdgerving lýðræðisins þarf varla að hafa miklar áhyggjur af smámunum eins og kosningum og því hvað öðrum finnst. Það er líka sérstaklega skiljanlegt að forseti vor vilji að þjóðin gleymi kosningabaráttu hans árið 2012 sem allra fyrst.

Byrjað með látum (ósvífnum árásum)

Þá kosningabaráttu byrjaði Ólafur Ragnar nefnilega með harkalegum árásum á mótframbjóðanda á fæðingardeild, sagði að þjóðin þyrfti ekki á slíkri „skrautdúkku“ að halda og að framboð hennar væri „ofboðslega 2007“ bíó og sjóv – af því það vildi svo til að einn stuðningsmanna hennar var kvikmyndaleikstjóri.

Hann skammaði hana líka fyrir að segjast ekki myndu gefa upp eigin afstöðu í kosningum um aðild að ESB. Sú afstaða hennar væri beinlínis „stórhættuleg og kolröng“. Það hefur þá væntanlega verið enn hættulegra þegar hann neitaði sjálfur að gefa upp eigin afstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslum um Icesave-samningana.

Áfram hélt hann með fullkomlega óstuddum atvinnurógi gegn eiginmanni sama frambjóðanda og öðrum fjölmiðlamönnum; þar sem hann sakaði þá ekki bara um hlutdrægan fréttaflutning heldur beinlínis um að hafa skáldað upp fréttir til að koma höggi á hann. Þagði hann síðan þunnu hljóði, þegar bent var á að þessar ásakanir væru á eintómu lofti byggðar.

Þeir fáu fjölmiðlar sem leyfðu sér að benda á fáránleika þessara árása máttu síðan þola fádæma fyrirlitningu og hroka virðulega þjóðhöfðingjans í sinn garð, hann hló að þeim, sakaði þau um sjálfhverfu og sagðist ekki geta læknað þau.

Beinar lygar

Ólafur Ragnar laug semsagt ítrekað í kosningabaráttunni og skammaðist sín ekki neitt fyrir það. Fyrir utan að hafa hætt við að hætta sem forseti sagði hann orðrétt þann 4. mars:

„En jafnframt set ég þann fyrirvara skýrt í yfirlýsingunni að þegar óvissunni verður eytt, vonandi fljótlega á næstu misserum, innan örfárra ára, að þá muni þjóðin sýna því skilning ef að ég tel það rétt  […] að ég hverfi þá til annarra starfa áður en kjörtímabilinu er lokið og forsetakosningar fari þá fram fyrr en ella.“

12. mars sagði hann hins vegar í viðtali á Sprengisandi:

„Það er rangt sem að er sá tónn í þessum fréttum sem Svavar var að reyna að búa til í sjónvarpinu að ég ætlaði bara að vera í tvö ár eða eitthvað svoleiðis og það er áróður sem hefur náð töluverðum árangri (þú sagðir það sjálfur?) nei! Ég sagði það aldrei! Ég hef aldrei sagt það! Það eina sem ég sagði, Sigurjón, var það að ef að öll þessi stóru mál væru komin í heila höfn, og þjóðin væri komin á trausta og örugga siglingu og vildi þá í samræmi við nýja stjórnarskrá velja sér nýjan forseta […], þá væri ég tilbúinn að stíga til hliðar.“

Og aftur í Beinni línu á DV.is þann 21. maí:

„Ég hef aldrei sagt að ég ætlaði bara að vera í tvö ár. Þetta er áróður sem reynt var að læða að fólki, m.a með fréttunum sem Svavar bjó til á RÚV þegar verið var að kanna framboð Þóru. Það hefur alltaf verið skýrt að ég býð mig fram til fjögurra ára. […] Ef þjóðinni hefur tekist að eyða margvíslegri óvissu, varðandi stjórnarskrá, stöðu þjóðarinnar á alþjóðavettvangi, efnahagslíf og lífskjör almennings og þegar kominn er stöðugleiki í stjórnarfari… og ný stjórnarskrá, þá myndi ég ekki standa í veginum fyrir því ef þjóðin vill þá velja sér nýjan Forseta. Það er ákvörðun þjóðarinnar, ekki mín.

Fyrst bað hann semsagt um „að þá muni þjóðin sýna því skilning ef að ég tel það rétt að hverfa til annarra starfa áður en kjörtímabilinu er lokið…“ en síðar sagði hann „Ég sagði það aldrei, það eina sem ég sagði var að ef þjóðin vildi velja sér nýjan forseta þá væri ég tilbúinn að stíga til hliðar. Það er ákvörðun þjóðarinnar, ekki mín“.

Þetta var ekki bara bein lygi, heldur notaði forsetinn hana í þeim tilgangi að ráðast að atvinnuheiðri fjölmiðlamanna og koma höggi á mótframbjóðanda sinn og eiginmann hennar. Ósvífnin átti sér engin takmörk.

Innantóm fyrirheit

Þegar Ólafur Ragnar tilkynnti um framboð sitt til forseta árið 2012 lét hann eftirfarandi ummæli falla:

„Og kannski yrðin enginn glaðari en ég, ef að það myndaðist nokkuð ríkur vilji þjóðarinnar á bak við það að einhver annar myndi standa þessa vakt á næstu misserum og næsta kjörtímabili“

Þegar Þóra Arnórsdóttir kom hins vegar fram og mældist með meira fylgi en hann brást hann ekki beinlínis glaður við, heldur með áðurnefndum árásum og dónaskap.

Í kosningabaráttunni hampaði hann framboði sínu alla tíð sem öryggisventli gagnvart ríkisstjórn Íslands; í þágu lýðræðis og stöðugleika, til að vernda þjóðina í gegnum þá miklu óvissu sem fylgdi aðildarviðræðum við ESB, breytingum á kvótakerfinu og gerð nýrrar stjórnarskrár. Þrátt fyrir það hefur ekki heyrst múkk í forsetanum allt kjörtímabil nýrrar ríkisstjórnar sem hann þvert á móti styður í einu og öllu, meðan þau sturta niður öllum þessu málum og gefa skít í vilja þjóðarinnar. Í kosningabaráttunni gleymdu sagði hann raunar sérstaklega um sjávarútvegs-mál:

„Þar er um að ræða ráðstöfun á sameign þjóðarinnar. Þar er um að ræða hvað þjóðin, eigandi auðlindarinnar, fær í sinn hlut. Það er erfitt að hugsa sér stærra mál en það, sem myndi vera eðlilegt að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu, ef einhver hluti þjóðarinnar telur það mikilvægt…“

Eftir að hafa hlotið kjör skrifaði hann hins vegar blygðunarlaust undir frumvarp ríkisstjórnarinnar um lækkun veiðigjalda, þrátt fyrir að hafa fengið fleiri áskoranir um að neita að skrifa undir þau lög heldur en um fjölmiðlafrumvarpið árið 2004, sem þá var væntanlega mun betur til þjóðaratkvæðagreiðslu fallið en „ráðstöfun á sameign þjóðarinnar“.

Ógleymanleg kosningabarátta

Það skyldi kannski engan undra, að forseti Íslands vilji gleyma því sem fyrst að hafa komist til valda sem einn þaulsetnasti þjóðhöfðingi veraldar í krafti ómaklegra árása á mótframbjóðendur, beinna lyga og atvinnurógs, fyrirlitningar og innantómra loforða sem hann hefur í engu framfylgt.

Þannig birtist okkur nefnilega ljóslifandi „lýðræðið“ sem Ólafur og hans nýju bandamenn í Hádegismóum og stjórnarráðinu ólust upp við, standa fyrir og verja í dag saman með kjafti og klóm – gegn allri viðleitni í átt að raunverulegu lýðræði, virðingu og málefnalegri samræðu í íslenskum stjórnmálum.

Það er einmitt þess vegna sem kosningabaráttan sumarið 2012 má aldrei gleymast.

Deildu