Opið bréf til stjórnmálamanna um málefni barna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/02/2014

14. 2. 2014

Kæru stjórnmálamenn Ég sendi ykkur hér með stutt hvatningarbréf. Ég vil hvetja ykkur til að hugsa um og fjalla meira um málefni barna. Mér finnst þið sem sitjið á þingi eða eruð í sveitarstjórnum fjalla alltof lítið um málefni barna sem eiga erfitt og/eða búa við erfiðar aðstæður. Ég er forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga […]

Kæru stjórnmálamenn

Ég sendi ykkur hér með stutt hvatningarbréf. Ég vil hvetja ykkur til að hugsa um og fjalla meira um málefni barna.

BarnMér finnst þið sem sitjið á þingi eða eruð í sveitarstjórnum fjalla alltof lítið um málefni barna sem eiga erfitt og/eða búa við erfiðar aðstæður.

Ég er forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík og fylgist því vel með umræðunni. Ár eftir ár er kallað eftir auknu fjármagni og sterkari úrræðum til að aðstoða börn í vanda en lítið virðist gerast. Þið mætið og haldið ræður á fundum hjá Viðskiptaráði og LÍÚ en ég man ekki eftir mörgum ykkar á fyrirlestum og fundum um barnaverndarmál. Hvernig stendur á því?

Alltof mörg börn búa við óviðunandi aðstæður algerlega að óþörfu. Alltof mörg börn hafa ekki aðgang að viðeigandi úrræðum sem gætu mögulega hjálpað þeim. Hér á landi starfar fjöldi fagfólks sem er með góðar og vandaðar hugmyndir um hvernig hægt væri að efla þjónustu við þessi börn. Ég hvet ykkur til að hlusta og bregðast við.

Flestar af þessum hugmyndum kosta vissulega peninga til skamms tíma en ég get lofað ykkur því að ef farið yrði eftir þeim myndu þær líklegast spara peninga til lengri tíma og örugglega draga úr eymd.

Ég vil benda ykkur á ágæta umfjöllun Fréttablaðsins um „Börnin á brúninni“ síðustu daga. Í gær var meðal annars birt viðtal við Steinunni Bergmann, félagsráðgjafa hjá Barnaverndarstofu, þar sem hún fer yfir stöðu barnaverndarmála á Íslandi. Steinunn bendir á ýmislegt sem fagmenn og aðstandendur hafa vitað lengi. Það er skortur á fjármagni og einstaklingsmiðuðum langtímaúrræðum  fyrir börn í vanda.
Sjá: Börnin á brúninni: Festast á gráa svæðinu 

Í dag er viðtal í Fréttablaðinu við fyrrverandi skjólstæðinga barnaverndakerfisins sem gagnrýna ýmsar brotalamir í kerfinu. Þetta er ekki ný umræða og engar nýjar upplýsingar sem þarna koma fram. Ég bið ykkur samt lesa þessi viðtöl og bregðast við.
Sjá: Börnin á brúninni: Vistin gaf mér von 

Ég sjálfur hef nokkrum sinnum reynt, af veikum mætti, að fjalla um málefni barna og bent á nákvæmlega sömu atriði og bent hefur verið á í umfjöllun síðustu daga. Ég tók meira að segja þátt í að skrifa skýrslu árið 2011 þar sem fjallað var að mestu um sömu hluti. Gerið mér þann greiða og lesið þessa skýrslu og myndið ykkur skoðun á henni.
Sjá umfjöllun um skýrsluna hér: Brotalamir í barnaverndarmálum 

Börn í vanda og fjölskyldur þeirra eru, af augljósum ástæðum, ekki sérstaklega öflugur þrýstihópur. Það er því hlutverk okkar sem vinnum í málaflokknum og ykkar sem farið með löggjafar- og fjárveitingarvaldið að vekja athygli á stöðu þessa hóps og gera eitthvað í málunum.

Börnin í samfélaginu þurfa frekar á okkur að halda heldur en fjársterkir hagsmunahópar eins og LÍÚ og Viðskiptaráð. Munum það.

Höfundur er forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir börn hjá Barnavernd Reykjavíkur

Sjá einnig

Deildu