Áróður Samtaka atvinnulífsins gegn launafólki

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/11/2013

21. 11. 2013

Það styttist í kjarasamninga og áróðursvél Samtaka atvinnulífsins (SA) gegn launahækkunum er komin í gang. Samkvæmt nýrri sjónvarpsauglýsingu SA eru launahækkanir rót alls ills. „Of miklar“ launahækkanir valda víst bæði verðbólgu og auknu atvinnuleysi. Fyrri staðhæfingin er umdeilanleg og sú síðari líklegast röng.  „Of miklar launahækkanir hafa valdið verðbólgu sem hefur étið upp ávinninginn.“ Þó […]

Það styttist í kjarasamninga og áróðursvél Samtaka atvinnulífsins (SA) gegn launahækkunum er komin í gang. Samkvæmt nýrri sjónvarpsauglýsingu SA eru launahækkanir rót alls ills. „Of miklar“ launahækkanir valda víst bæði verðbólgu og auknu atvinnuleysi. Fyrri staðhæfingin er umdeilanleg og sú síðari líklegast röng.

 „Of miklar launahækkanir hafa valdið verðbólgu sem hefur étið upp ávinninginn.“

Þó launahækkanir geti vissulega ýtt undir verðbólgu þá má ekki gleyma því að ein helsta orsök verðbólgunnar nú er hrun íslensku krónunnar. Fyrirtæki og stofnanir vernda sig og sína með því að hækka verð og gjöld og ýta þar með enn frekar undir verðbólguna. Launþegar geta ekki varið sig nema með því að vinna meira og/eða krefjast hækkunar launa til að standa undir öllum hækkununum. Það mega þeir ekki því þá er verðbólgan þeim að kenna.

Réttlætisjafnan lítur því svona út: Stóreignafólk, braskarar, fyrirtæki og stjórnvöld búa til samfélag þar sem verður stórkostlegt hrun með þeim afleiðingum að krónan fellur, kaupmáttur almennings versnar og skuldir aukast.  Almenningur, venjulegt launafólk sem tapaði mest á hruninu, á svo að taka á sig alla ábyrgðina og biðja um minni launahækkanir. Allir mega semsagt tryggja sig nema venjulegt launafólk.

Í auglýsingu Samtaka atvinnulífsins er fullyrt:

„Tekjur heimilanna verða meiri eftir tvö ár með minni launahækkunum vegna aukinnar atvinnu.“

Þetta er fullyrðing út í bláinn. Það er vægast sagt mjög umdeilt að launahækkanir hjá venjulegu launafólki dragi úr atvinnu. Margt bendir til þess að þessu sé einmitt öfugt farið. Þegar tekjur láglauna- og millitekjufólks hækka eykst neysla þeirra sem kemur fyrirtækjum til góða. Fólk í lægri launaþrepum sparar lítið. Næstum allur tekjuauki fer í að greiða fyrir vöru og þjónustu. Á þessu græða fyrirtækin.

Að auki má nefna að launamaður sem er sáttur við laun sín er ólíklegri til að skipta um starf og það er líklegra að hann skili betri vinnu. Ánægður starfsmaður er afkastameiri starfsmaður. Munum að há starfsmannavelta og léleg afköst starfsmanna bitnar hvað verst á fyrirtækjunum sjálfum með auknum kostnaði. Allir geta því grætt á launahækkunum.

Samtök atvinnulífsins enda auglýsingu sína á þessum orðum:

 „Þetta er einfalt. Það þarf samstillt átak til að vinna bug á verðbólgunni og til að halda aftur að verðhækkunum. Það þarf þjóðarsátt um betri lífskjör.“

Það er laukrétt að það þarf „samstillt átak“ til að draga úr verðbólgu og halda aftur að verðhækkunum. Því er ósanngjarnt að skella allri ábyrgðinni á launþega eins og gert er í þessu áróðursmyndbandi. Fyrirtæki þurfa ekki að hækka samstundis öll verð þegar kostnaður hækkar og stjórnvöld þurfa ekki að hugsa fyrst og fremst um hag þeirra sem eiga mestu peningana með því að lækka skatta, skera niður hjá hinu opinbera og hækka gjöld.

Í áróðursmyndbandi Samtaka atvinnulífsins gleymist alveg að minnst á að almenningur er nú þegar búinn að borga hátt verð fyrir óráðsíu fyrirtækja, stjórnvalda og braskara. Það er því í hæsta máta ósanngjarnt að krefjast þess að launafólk borgi aftur fyrir brúsann með því að halda aftur að eðlilegum launahækkunum. „Samstillt átak“ þýðir nefnilega að fleiri beri ábyrgð en venjulegt launafólk. 

Deildu