Meðvirkni með ríkisstjórn ríka fólksins

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/10/2013

15. 10. 2013

Hugmyndin um Læknavísindakirkjuna er skemmtileg en um leið óframkvæmanleg. Fyrst og fremst er hugmyndin þó dæmi um grátlega meðvirkni fólks með ríkisstjórn sem hugsar fyrst og fremst um hagsmuni hinna ríku. Það hefði verið tiltölulega einfalt að efla Landspítalann og aðra almannaþjónustu með réttri forgangsröðun og það án þess auka við skuldir ríkisins. Ríkisstjórnin, hið […]

Hugmyndin um Læknavísindakirkjuna er skemmtileg en um leið óframkvæmanleg. Fyrst og fremst er hugmyndin þó dæmi um grátlega meðvirkni fólks með ríkisstjórn sem hugsar fyrst og fremst um hagsmuni hinna ríku.

Það hefði verið tiltölulega einfalt að efla Landspítalann og aðra almannaþjónustu með réttri forgangsröðun og það án þess auka við skuldir ríkisins. Ríkisstjórnin, hið svokallaða silfurskeiðabandalag, ákvað að lækka almenna skatta. Hún ákvað að falla frá gistináttagjaldi. Hún ákvað að afnema auðlegðarskatt. Hún ákvað að hækka ekki veiðileyfagjöld.

Ríkisstjórnin ákvað um leið að fara í stórfelldan niðurskurð á samneyslunni. En það er einmitt fyrst og fremst fátækt fólk og fólk með miðlungstekjur sem hefur gagn að opinberri þjónustu. Það er því alveg ljóst fyrir hverja núverandi stjórnvöld eru að vinna.

Bankakerfið á Íslandi svo gott sem hrundi. Það var ekki fátæku fólki að kenna. Það var heldur ekki velferðarkerfinu að kenna eða opinberri þjónustu yfirleitt. Ríkissjóður er ekki í mínus af því að hér er of miklum peningum varið í velferðarþjónustuna.

Ríkissjóður er í vanda vegna þess að hér varð hrun. Og það ekkert „svokallað“ hrun.

Lágtekjufólk hefur þegar þurft að greiða herkostnaðinn með auknum skuldum, atvinnuleysi og minnkandi kaupmætti. Nú á sama lágtekjufólkið að herða beltin enn frekar og sætta sig við að velferðarkerfið verði holað að innan af því við verðum víst öll að sýna aðhald og spara.

Nema ríka fólkið. Það þarf skattalækkun því ef það fær ekki stærri kökkur hrökkva öngvir molar til okkar hinna.

Við þurfum enga Læknavísindakirkju. Við þurfum nýja ríkisstjórn. Ríkisstjórn sem hugar að almannahag og trúir ekki á blint á brauðmolakenningar og önnur gervivísindi úr heimi hagfræðinnar.

Deildu