Ójafnaðarstjórnin

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

19/09/2013

19. 9. 2013

Núverandi ríkisstjórn er sannkölluð ójafnaðarstjórn. Helstu mál á dagskrá eru flatar skuldaniðurfellingar, flatar skattalækkanir, afnám eða lækkun ýmissa skatta og gjalda og um leið gríðarlegt aðhald í opinberum rekstri. Eins og margoft var bent á fyrir kosningar er flöt niðurfelling skulda óháð eignum, tekjum og greiðsluvanda fólks, lítið annað en öfugur sósíalismi. Í staðinn fyrir […]

ÓjöfnuðurNúverandi ríkisstjórn er sannkölluð ójafnaðarstjórn. Helstu mál á dagskrá eru flatar skuldaniðurfellingar, flatar skattalækkanir, afnám eða lækkun ýmissa skatta og gjalda og um leið gríðarlegt aðhald í opinberum rekstri.

Eins og margoft var bent á fyrir kosningar er flöt niðurfelling skulda óháð eignum, tekjum og greiðsluvanda fólks, lítið annað en öfugur sósíalismi. Í staðinn fyrir að hið opinbera hjálpi fyrst og fremst venjulegu fólki sem er í greiðsluvanda og á litlar eða engar eignir á að verja almannafé í að niðurgreiða skuldir fólks sem vel getur greitt þær.

Þetta er einfaldlega staðreynd. Það er ekki hægt að nota sömu peningana tvisvar og þegar stefnt er að því að nota hundruð milljarða í að greiða niður skuldir eignafólks er verið að draga úr svigrúmi hins opinbera til að aðstoða þá sem mest þurfa á aðstoð að halda. Það er heldur ekki hægt að nota peninginn til að greiða skuldir ríkisins.

Sama má auðvitað segja um flatar skattalækkanir. Slíkar flatar lækkanir á álögum gagnast best þeim sem eiga mikið og eru með góðar tekjur. Milljarðamæringar græða milljónir á meðan fólk í láglaunastörfum fær sama og ekki neitt. Um leið skerðast tekjustofnar ríkisins sem kallar á að niðurskurð hjá hinu opinbera sem aftur bitnar mest á fátæku fólki. Því fólki sem þarf helst á almannaþjónustu að halda.

Stefna ríkisstjórnarinnar, sem framfylgt er í nafni réttlætis, er stefna ójöfnuðar og fátt skaðar samfélög meira en aukin misskipting og ójöfnuður.

Ég vil ekki búa í slíku samfélagi.

Deildu