Icesave og skuldaleiðréttingin

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/05/2013

6. 5. 2013

Sigur Framsóknarflokksins í kosningum má að einhverju leyti rekja til Icesave. Þegar dómur féll Íslandi í vil í Icesave málinu fullyrtu Framsóknarmenn og ýmsir aðrir að þeir höfðu haft „rétt fyrir sér“ og margir gáfu til kynna að allir aðrir væru bjánar og landráðsmenn. Enda var baráttan gegn Icesave samningunum knúin mikið til af reiði […]

icesaveSigur Framsóknarflokksins í kosningum má að einhverju leyti rekja til Icesave. Þegar dómur féll Íslandi í vil í Icesave málinu fullyrtu Framsóknarmenn og ýmsir aðrir að þeir höfðu haft „rétt fyrir sér“ og margir gáfu til kynna að allir aðrir væru bjánar og landráðsmenn. Enda var baráttan gegn Icesave samningunum knúin mikið til af reiði og þjóðerniskennd. Fólk úr ýmsum flokkum sem hafði stutt síðasta samning af skynsamlegum ástæðum fór að trúa vitleysunni frá Framsóknarflokknum. Sumir báðu þjóðina meira að segja afsökunar á afstöðu sinni.

Fáir þorðu að benda á að niðurstaðan kom mörgum af færustu lögfræðingum heims á óvart. Það var óvinsælt að benda á að það var fjárhættuspil að hafna samningum.  Staðreyndin er sú að heppileg niðurstaða fyrir Ísland í Icesave  málinu hafði ekkert með snilligáfu þeirra sem voru á móti samningum að gera. (Sjá: Icesave og sigur lýðræðisins? og Ég hafði ekki rangt fyrir mér – Spuninn um Icesave)

Farsæl niðurstaða í Icesave málinu varð til þess að efla trú fólks á Framsóknarflokknum og gat flokkurinn í kjölfarið fullyrt út í bláinn og án teljandi mótstöðu að hægt væri að afskrifa skuldir allra landsmanna með því að skjóta vonda útlenda hrægamma eða berja þá með kylfum.

Þeir sem efast um að leið Framsóknarflokksins sé fær eða yfirleitt skynsamleg eru sakaðir um vilja „vernda fjármálkerfið“ og um að vera á „móti heimilunum í landinu“. Gott ef menn eru ekki einnig sakaðir um landráð.

Ég óttast að þessi undarlega umræða sem er mikið til byggð á tilfinningum og þjóðerniskennd en ekki rökum og gagnrýnni hugsun eigi eftir að reynast okkur öllum hættuleg.

Deildu