Hvað á ég að kjósa?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/04/2013

5. 4. 2013

Hugsað upphátt um komandi kosningar: Í fyrsta skipti síðan ég fékk kosningarétt er ég mjög óviss um hvaða flokk ég ætla að kjósa nú þegar aðeins er tæpur mánuður til kosninga. Það eru nokkrir ágætir kostir, enginn frábær. Fyrir nokkrum vikum hefði ég mjög líklega kosið Samfylkinguna enda er ég frjálslyndur jafnaðarmaður og ég er […]

KosningHugsað upphátt um komandi kosningar: Í fyrsta skipti síðan ég fékk kosningarétt er ég mjög óviss um hvaða flokk ég ætla að kjósa nú þegar aðeins er tæpur mánuður til kosninga. Það eru nokkrir ágætir kostir, enginn frábær. Fyrir nokkrum vikum hefði ég mjög líklega kosið Samfylkinguna enda er ég frjálslyndur jafnaðarmaður og ég er afskaplega ánægður með margt sem núverandi ríkisstjórn hefur gert. „Vonda“ vinstristjórnin hefur staðið sig mjög vel þó ýmislegt megi vitaskuld gagnrýna. Líkurnar á því að ég kjósi Samfylkinguna hafa dvínað töluvert eftir stjórnarskrárklúðrið. Eftir að hafa skoðað sviðið er Samfylkingin þó enn einn af þeim flokkum sem kemur til greina.

Staðan í stuttu máli er þessi :

Björt framtíð (A)Kannski: Mikið af ágætu fólki í Bjartri framtíð og flest með hjartað á réttum stað held ég. Stefnumál þeirra eru þó loðin og óljós. Það er ekki nóg að ætla bara að draga úr sóun, fara betur með skattfé og vera góð við hvort annað. Mér sýnist að BF ætli að reyna að ná kjöri með því að lofa engu og stuða engan. BF vill klára aðildarviðræður að ESB sem er kostur.

Framsóknarflokkurinn (B)Kemur ekki til greina: Ég segi bara eins og Þorvaldur Gylfason: „Brennuvargar eiga ekki að taka að sér slökkvistörf“ .  Gleymum ekki að Framsóknarflokkurinn lofaði 90% húsnæðislánum, fíkniefnalausu Íslandi og stóð fyrir glórulausum virkjanaframvæmdum í góðæri. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn bera höfuðábyrgð á að hér varð hrun. Það má ekki verðlauna þessa flokka núna. Ég er sammála því að Íslendingar eru hamstar í hjóli sem þurfa skuldaleiðréttingu en það er ekki sama hvernig það er gert og ég treysti loforðum Framsóknarflokksins síst.

Sjálfstæðisflokkurinn (D) Ekki séns: Sjá umfjöllun um Framsóknarflokkinn hér fyrir ofan. Auk þess sem hugmyndir Sjálfstæðisflokksins um skattalækkanir eru ekkert annað en dekur við ríkt fólk. Almenn skattalækkun er versta leiðin til að hjálpa þeim sem hafa lægstu tekjurnar. Frjálshyggjan er dauð. Svo er glórulaus hugmynd að slíta aðildarviðræðum við ESB. P.s. ég finn til með Bjarna Ben og er næstum því tilbúinn að kjósa hann af því ég er svo meðvirkur.

Hægri grænir (G) Nei: Kaupi ekki hugmyndir þeirra um flata skatta (dekur við efnað fólk) og afstaða þeirra gegn Evrópusambandinu útilokar þá.

Húmanistaflokkurinn (H)Nei:  P.s. flokkurinn tengist ekki Siðmennt neitt.

Flokkur heimilanna (I)Nei: Fæ hausverk þegar ég hlusta á Útvarp Sögu.

Regnboginn (J)Nei: Kýs ekki íhaldsmenn sem stela fánum samkynhneigðra.

Lýðræðisvaktin (L)Hugsanlega: Mér finnst Þorvaldur Gylfa töff og ég er sammála ýmsu sem flokkurinn býður upp á. Innan flokksins eru þó ákveðnir frambjóðendur em ég á afskaplega erfitt með að kjósa.

Alþýðufylkingin (R)Nei: Myndi þó frekar kjósa Alþýðufylkinguna en D og B.

Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands (S)Kannski: Samfylkingin með Jóhönnu Sigurðardóttir í fararbroddi hefur gert margt gott. Það er jákvætt að flokkurinn er ekki að lofa að gera allt fyrir alla. Auðvitað á að klára aðildarumsókn að ESB og það þarf að skoða alvarlega að taka upp nýjan gjaldmiðil. Klúður flokksins í stjórnarskrármálinu og hálfgert daður við Sjálfstæðisflokkinn hefur verulega dregið úr vilja mínum til að kjósa flokkinn síðustu vikur. Kannski er Samfylkingin samt ennþá einn skásti kosturinn…

Dögun (T)Nei: Samt ágætt fólk þar. Kann vel við Margréti og Tryggva. Aðaláhersla þeirra á afnám verðtryggingar gerir mig afhuga flokknum. Afnám verðtryggingar er barbabrella.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð (V)Kannski: Mikið af góðu fólki í VG sem hafnar frjálshyggjuþvaðrinu. Eins og áður stuðar forsjárhyggjan mig.

Píratar (Þ)Gæti vel verið: Birgitta er einlæg og að ég held góð manneskja. Hugmyndafræði píratana er áhugaverð en ruglingsleg. Eru reyndar með langbestu stefnuna þegar kemur að fíkniefnamálum.

LandsbyggðarflokkurinnNei: Bý í 101.

Samantekt
Ég sætti ég mig við þessa flokka í stjórn:  Björt Framtíð, Lýðræðisvaktin, Samfylkingin, Dögun, Vinstri grænir og Píratar.

Bóluhagkerfisflokkarnir: Sjálfstæðisflokkur og Framsókn koma ekki til greina. 

Deildu