Að kunna að bera ábyrgð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

24/04/2012

24. 4. 2012

Ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög áhugasamur um Landsdómsmálið. Lögin um Landsdóm eru klúðursleg svo ekki sé meira sagt. Það er eitthvað rangt við að láta alþingismenn taka ákvörðun um að ákæra ráðherra, samstarfsmenn sína, vini og flokksbræður. Slíkt fyrirkomulag mun alltaf lykta af pólitík. Sama hvað hver segir. Ráðherrar verða þó, […]

Ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög áhugasamur um Landsdómsmálið. Lögin um Landsdóm eru klúðursleg svo ekki sé meira sagt. Það er eitthvað rangt við að láta alþingismenn taka ákvörðun um að ákæra ráðherra, samstarfsmenn sína, vini og flokksbræður. Slíkt fyrirkomulag mun alltaf lykta af pólitík. Sama hvað hver segir. Ráðherrar verða þó, rétt eins og aðrir, að bera ábyrgð á eigin gjörðum hafi þeir brotið lög í starfi. Sú ábyrgð getur ekki einungis falist í dómi kjósenda í alþingiskosningum. Kosningar snúast um vinsældir flokka hverju sinni og ástandinu í samfélaginu en ekki um hvort einstaka þingmenn eða ráðherrar hafa brotið lög. Það er því að mínu mati fullkomlega eðlilegt að hægt sé að kæra bæði þingmenn og ráðherra ef grunur leikur á að þeir hafi brotið lög.

Viðbrögð Geirs við niðurstöðu Landsdóms
Áður en lengra er haldið vil ég halda því til haga að ég hef alltaf borið töluverða virðingu fyrir Geir H. Haarde þó ég hafi ekki verið sammála honum í pólitík. Geir virkar á mig sem góður og sanngjarn maður sem hefur tekið þátt í stjórnmálum af hugsjón og góðum hug. Ég er handviss um að Geir hefur gert margt gott fyrir íslenska þjóð á þingi og rétt eins og flestir stjórnmálamenn hefur hann vilja til að bæta samfélagið. Með öðrum orðum efast ég ekki um að heilindi Geirs.

Viðbrögð Geirs, þessa ágæta manns, við niðurstöðu Landsdóms eru honum þó til minnkunar og hvet ég hann til að draga djúpt andann og ræða niðurstöðuna af yfirvegun og virðingu fyrir fólkinu í landinu. Líklegast hefur Geir verið í töluverðri geðshræringu þegar hann tjáði sig fyrst um niðurstöðu Landsdóms og er það bæði skiljanlegt og fyrirgefanlegt. Nú bið ég hann um að draga í land og jafnvel biðjast afsökunar á viðbrögðum sínum.

Þótt Geir sé ósáttur við málsmeðferðina, Landsdóm og niðurstöðuna eru eftirfarandi ummæli ekki í lagi:

1) Vísað til samtryggingar
„Það var þegar umræddur Steingrímur J. Sigfússon seldi jarðir sem að ríkið átti án þess að hafa til þess heimildir Alþingis. Kirkjuferja, Kirkjuferjuháleiga í Ölfusi, að mig minnir á árinu 1990. Þarna var alveg rakið Landsdómsmál vegna þess að maðurinn ráðstafaði eignum ríkisins án þess að hafa til þess heimildir. Hvað gerðist? Sjálfstæðisflokkurinn kom til skjalanna og bjargaði honum ofan af króknum, útvegaði honum þær heimildir sem þurfti svo að hann þyrfti ekki að sitja uppi með…“

Hér gefur Geir að minnsta kosti tvennt í skyn:

Í fyrsta lagi að þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hafi eitt sinn bjargað Steingrími J. Sigfússyni frá ákæru fyrir meint brot hefðu aðrir flokkar (og þá væntanlega sérstaklega VG) átt að koma honum sjálfum til bjargar þegar hann var ákærður. Þessi ummæli sem hvetja til samtryggingar á þingi eru vítaverð og ég trúi því varla að Geir sé virkilega þessarar skoðunar.

Í öðru lagi má túlka þessi orð Geirs þannig að þar sem aðrir hafi hugsanlega gerst brotlegir við lög og ekki verið ákærðir þá sé á einhvern hátt ósanngjarnt að hann hafi nú verið sóttur til saka og sakfelldur. Séu þetta viðhorf Geirs þá eru þau fráleit. Þingmenn og ráðherrar eiga ekki að vera hafnir yfir lög. Hafi þeir verið það áður þýðir það ekki að þeir eigi heimtingu á því að vera lausir við að bera lagalega ábyrgð um ókomna framtíð.

2) Gert lítið úr dómnum
Geir gerir lítið úr dómnum með því að vísa til þess að brot hans hafi verið smávægilegt og í raun einungis „formsbrot“. Þetta er ekki rétt. Þótt Landsdómur segi vissulega að hann hafi verið „sýknaður af alvarlegustu brotunum“ þá er hann engu að síður sakfelldur fyrir að hafa af stórfelldu gáleysi látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni eins og fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrárinnar, þrátt fyrir að honum hlaut að vera ljós sá háski, sem vofði yfir bankakerfinu og þar með heill ríkisins, eins og nánar greinir hér að framan, með þeim afleiðingum að ekki var um þau málefni fjallað á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Við ákvörðun  viðurlaga verður  að líta til þess að  þetta brot telst hafa verið framið af stórfelldu gáleysi.“  Í dómsorði kemur einnig fram að Geir hafi með þessu „ekki eingöngu brotið gegn formreglu.“

Um þessa niðurstöðu segir Geir í sérstakri yfirlýsingu:

„Dómurinn varðandi þetta atriði er fáránlegur og í raun og veru sprenghlægilegur. Hafi ég verið sekur um stjórnarskrárbrot að þessu leyti, þá jafngildir það því að allir forsætisráðherrar landsins frá því landið fékk fullveldi hafa verið sekir um sama brot. Því má segja að ég hafi verið sakfelldur fyrir hönd þeirra allra.“

Þessi viðbrögð eru Geir ekki sæmandi. Aftur vísar hann til þess að það sé á einhvern hátt ósanngjarnt að hann sé dæmdur fyrir brot af því fyrri forsætisráðherrar hafi komist upp með sambærilega hegðun. Auðvitað er það leiðinlegt fyrir hann en ekki ósanngjarnt. Samkvæmt dómnum braut Geir lög sem forsætisráðherra. Þó aðrir forsætisráðherrar hafi hugsanlega og líklega einnig gerst brotlegir réttlæta þau brot ekki hans verk. Þetta veit hver sæmilega siðferðilega þenkjandi einstaklingur.

3) Pólitískir dómarar
Mér þykir óviðeigandi hvernig Geir, í skrifaðri yfirlýsingu, fullyrðir að dómarar hafi látið pólitík ráða niðurstöðu sinni:

„Nú er ljóst að meirihluti hans reis ekki undir því trausti heldur hafa pólitísk sjónarmið laumað sér inn í réttinn og meirihluti dómara ákveðið að láta þau ráða för frekar heldur en hreint lögfræðileg mat. Það er ömurlegt og mun að minni hyggju gera það að verkum að réttarkerfið á Íslandi verður framvegis ekki talið eiga samleið með vestrænum réttarríkjum. En ég fagna hugrekki þeirra sem skiluðu sératkvæði um þetta atriði.“

Dómarar eru ekki alvitrir frekar en aðrir og gætu hafa komist að rangri niðurstöðu. En Geir hefði mátt staldra við og skoða þessa yfirlýsingu sína betur áður en hann flutti hana fyrir framan alþjóð. Það sem Geir er í raun að segja hér er að þeir sem voru sammála honum, og töldu hann saklausan, séu hugrakkir og hafi rétt fyrir sér á meðan aðrir hafi látið „pólitísk sjónarmið“ stjórna för. Með yfirlýsingunni er Geir sjálfur að lita niðurstöðu Landsdóms pólitískum litum og það án nokkurs rökstuðnings.

Að lokum
Eins og áður ber ég engan illan hug til Geirs. Held að hann sé góður náungi sem meinar vel. Ég finn til með honum að mörgu leyti. Ég hefði ekki viljað vera í hans sporum. Viðbrögð hans við dómi Landsdóms eru honum til minnkunar og vona ég að hann sjái sér fært að ræða málið af meiri yfirvegun, taka ábyrgð á eigin gjörðum (jafnvel þó hann hafi ekki brotið af sér af illum hug eða ásetningi) og biðji þjóð sína afsökunar. Að sama skapi mega aðrir, þar á meðal stjórnmálamenn, núverandi og fyrrverandi, slaka á dómhörkunni. Öll gerum við mistök. Galdurinn er að kunna að bera ábyrgð, kunna að biðjast afsökunar og kunna að læra af mistökum fortíðarinnar.

Deildu