Aumingja- og hálfvitadýrkun á Íslandi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/03/2011

9. 3. 2011

Ég er orðinn dauðþreyttur á hetjufréttum og töffaramyndum af aumingjum, hálfvitum og siðleysingjum á Íslandi. Sumir íslenskir fréttamiðlar virðast hafa pervetíska ánægju af því að upphefja sorann.

Ég er orðinn dauðþreyttur á hetjufréttum og töffaramyndum af aumingjum, hálfvitum og siðleysingjum á Íslandi.  Sumir íslenskir fréttamiðlar virðast hafa pervetíska ánægju af því að upphefja sorann.

Englar Helvítis
Viðhafnarviðtöl eru tekin við forsvarsmenn íslensk mótorhjólaklúbbs sem nú hefur fengið fulla aðild að glæpasamtökunum Hells Angels. Háttsettir félagsmenn í Hells Angels hafa fengið dóma fyrir morð, manndrápstilraunir, ofbeldi, fíkniefnaviðskipti og aðra siðleysu. Góður félagsskapur það.

Ég er á því að einstaklingar sem eru félagar í samtökum eins og Hells Angels hljóti að vera siðlausir með öllu. Mér er algjörlega sama hvort einstaka félagar í „Hells Angels“ á Íslandi hafi gerst sekir um lögbrot eða ekki.  Félagið er þekkt glæpafélag í heiminum og það er nóg. Hvaða einstaklingur með siðferðisvitund vill kenna sig við slíkt félag?

Glæpamenn í sveitasælu
Glaðlegar töffaramyndir fylgja frétt um kynferðisafbrotamanninn Guðmund Jónsson (í Byrginu) og handrukkarann Annþór Karlsson. Þeir eru nú báðir vistaðir í lágmarksöryggis- og sveitasælufangelsinu Bitru. Enda hafa þeir báðir verið svo góðir og samviskusamir fangar.  Lýsingin á Bitru minnir fremur á lúxus sumarbústað en fangelsi. En þar er setustofa, eldhús, borðstofa og aðstaða til líkamsræktar. Fangarnir hafa nánast óheftan aðgang að síma. Þeir stunda nám, iðka tómstundir, líkamsrækt og íþróttir. Þar að auki hafa þeir rétt á útiveru. Aumingja þeir.

Í frétt um þá félaga segir:
„Guðmundur hefur komið sér vel fyrir í fangelsinu og sér meðal annars um að elda ofan í bæði fanga og fangaverði.“

Það eina sem vantar er krafa um að maðurinn sé boðaður í heimsókn á Bessastaði til að taka á móti Fálkaorðu.

Stjörnufréttir um ofbeldismenn með töff viðurnefni
Af einhverjum ástæðum keppast sumir fréttamiðlar um að segja í stjörnufréttastíl frá „afrekum“ ofbeldismanna. Við fáum að vita að Jón „stóri“, sem er  þekktur fyrir ofbeldi, misnotkun á stúlkum, vímuefnamisferli og eignaspjöll,  sé kominn með nýja kærustu og að ástin blómstri. Auðvitað fylgir mynd af gleðinni með. Vinur „stóra“ kallaður Dabbi „Grensás“ var svo víst að opna nýjan skemmtistað sem verður örugglega  vinsæll.  Gott hjá honum. Umræddur Dabbi hefur hlotið dóma fyrir mjög alvarlegar líkamsárásir. Það alvarlegar að mér er sagt að lögreglumenn og dyraverðir á skemmtistöðum séu skíthræddir við hann.

Hvers vegna er verið að segja svona fréttir af þessum vitleysingum? Hvers vegna birta fjölmiðlar myndir af þessum aumingjum brosandi með sætar stelpur sér við hlið? Af hverju eru „töff“ viðurnefni þessara manna notuð? Jón þessi er ekkert sérstaklega „stór“ og Dabbi er ekki gata í Reykjavík. Þetta eru ofbeldismenn og hrottar.

Glæpamenn gerðir að fyrirmyndum
Ég er á því að fréttaflutningur af þessu tagi þjóni engum öðrum tilgangi en að sveipa ofbeldi og soraskap hetjuljóma. Ég hvet blaðamenn að hætta að segja hetjufréttir af vitleysingum.

Deildu