Framboðsyfirlýsing

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/10/2010

15. 10. 2010

Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt: Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til setu á stjórnlagaþingi. Ég er iðjuþjálfi að mennt og starfa sem forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Ég er áhugamaður um þjóðfélagsmál og tel afar mikilvægt að sem fjölbreyttastur hópur vinni að því að endurskoða […]

Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt:

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til setu á stjórnlagaþingi. Ég er iðjuþjálfi að mennt og starfa sem forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga á vegum Barnaverndar Reykjavíkur. Ég er áhugamaður um þjóðfélagsmál og tel afar mikilvægt að sem fjölbreyttastur hópur vinni að því að endurskoða Stjórnarskrá Íslands. Stjórnarskráin hefur að geyma æðstu lög landsins og í henni á að  vera skýrt hver stjórnskipan landsins er. Stjórnarskráin á að tryggja grundvallarréttindi almennings og setja valdhöfum hvers tíma skýr mörk. Uppbygging og efni stjórnarskrárinnar kemur öllum við og því á almenningur að taka þátt í að endurskoða hana.

Helstu baráttumál
Verði ég kosinn mun ég kappkosta að kynna mér afstöðu sem flestra til stjórnarskrárinnar. Þetta mun ég gera bæði með því að fylgjast með umræðunni á komandi vikum og hlusta á niðurstöður Þjóðfundar. Ég mun opna vefsíðu þar sem samborgurum mínum gefst kostur á að senda inn hugmyndir sínar og væntingar um breytta stjórnarskrá.

Nú þegar eru nokkur atriði sem ég tel að þurfi að tryggja í stjórnarskrá:

  • Stjórnarskráin á að vera einföld og skýr. Almenningur á að geta lesið stjórnarskránna og skilið hana án þess að þurfa að fá aðstoð lögspekinga. Stjórnarskráin á að vera skrifuð af almenningi, fyrir almenning.
  • Aukið lýðræði. Kveðið verði á um aukinn rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Velta má fyrir sér hvort slík krafa gæti ekki farið fram rafrænt. Krafan um þjóðaratkvæðagreiðslu á að koma frá fólkinu, ekki forsetanum.
  • Jafnt vægi atkvæða. Stjórnarskráin á að tryggja jafnan rétt borgaranna. Því tel ég eðlilegt að kveðið sé á um jafnt vægi atkvæða í stjórnarskrá, óháð búsetu eða stöðu að öðru leyti.
  • Skýrar takmarkanir eiga að vera á valdi framkvæmdavaldsins til að styðja stríðsátök í nafni íslensku þjóðarinnar. Í það minnsta ætti að þurfa samþykki aukins meirihluta þingsins og helst samþykki þjóðarinnar í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu. Núverandi ástand, þar sem örfáir valdhafar geta gert alla Íslendinga að óbeinum þátttakendum í stríðsátökum, er óásættanlegt.
  • Fjalla þarf um stjórnskipan Íslands og þrískiptingu valds í stjórnarskrá með skýrum hætti og í samræmi við raunveruleikann.
  • Þjóðareign á náttúruauðlindum skal tryggð í stjórnarskrá.
  • Afnema þarf ákvæði um sérstaka vernd Þjóðkirkjunnar. Stjórnarskrá Íslands á að tryggja fullt trúfrelsi og jafnræði borgaranna óháð lífsskoðun þeirra. Því þarf að fella niður 62. grein stjórnarskrárinnar.

Virðingarfyllst,
Sigurður Hólm Gunnarsson, iðjuþjálfi

Tenglar:
Framboðið á Facebook
http://www.facebook.com/sigurd.holm.a.stjornlagathing

Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt:

Deildu