Hugsjónalausir herkænskutilburðir

reykjavik-hus3
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Það hefur verið sorglegt að fylgjast með borgarpólitíkinni síðustu daga. Borgarstjórnarfulltrúar hegða sér frekar eins og menntaskólanördar að spila diplomacy en ekki eins og fullorðið fólk í stjórnmálum. Eins og nördarnir sem lesa þetta vita er diplomacy gamall herkænskuleikur sem gengur meðal annars út á það að semja bandalög í bakherbergjum og stinga mótherja sína svo í bakið. Ég var einu sinni nörd og spilaði þennan leik með vinum (og þótti ekki sérlega góður í honum ef ég man rétt).

Því miður er pólitíkin uppfull af fólki sem lítur á stjórnmálin sem leik. Markmiðið, eins og í öðrum leikjum, er að vinna og þá skiptir aðferðin ekki alltaf máli. Í pólitík verður maður að vera duglegur að stinga aðra í bakið en komast um leið hjá því að finna sjálfur of mikið til á milli herðablaðanna. Hugsjónir láta oftast í minni pokann fyrir herkænsku í þessum leik og virðast margir leikmenn í raun alls ekki hafa áhuga á hugmyndafræði. Það er af þessum ástæðum sem mikið af hugmyndaríku og heiðarlegu hugsjónafólki nennir ekki að starfa í pólitík.

Hugsjónalausir herkænskutilburðir sjálfstæðismanna og læknisins undanfarna daga eru ekki til þess fallnir að kveikja áhuga hugsjónafólks á stjórnmálum. Borgarstjórnarfarsinn sýnir enn og aftur að pólitík snýst fyrst og fremst um völd og metnað en ekki um einlægan áhuga um að bæta samfélagið.

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka