Fjölmiðlaumfjöllun um trúboð í skólum dregin saman

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

02/03/2005

2. 3. 2005

Síðustu daga hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum um trúboð og bænahald í opinberum skólum. Kveikjan að þessari umræðu var meðal annars erindi sem undirritaður flutti á málþingi Vinstri grænna um trúfrelsi á Íslandi. Staðfest hefur verið á undanförnum að stórfellt trúboð er stundað í opinberum skólum hér á landi. Ljóst er að námsskrár eru […]

Síðustu daga hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum um trúboð og bænahald í opinberum skólum. Kveikjan að þessari umræðu var meðal annars erindi sem undirritaður flutti á málþingi Vinstri grænna um trúfrelsi á Íslandi. Staðfest hefur verið á undanförnum að stórfellt trúboð er stundað í opinberum skólum hér á landi. Ljóst er að námsskrár eru þverbrotnar og verður því áhugavert að fylgjast með viðbrögðum yfirvalda á næstu dögum.

——-

20. febrúar 2005 – Kvöldfréttir Rúv
Kristnifræði í grunnskólum
[Sjá upptöku]

Tekið er viðtal mig eftir erindi mitt á málþingi VG um trúfrelsi. Í viðtalinu bendi ég á að kristinfræðsla í skólum einkennist oft af trúboði auk þess sem bænahald og áróður sé stundað í opinberum skólum.

Einnig er tekið viðtal við Birnu Sigurjónsdóttur, deildarstjóra hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Birna tekur skýrt fram að það sé ekki hlutverk skólans að boða trú. Það sé verkefni heimila og trúfélaga.

Í fréttinni kemur einnig fram að umboðsmanni barna hafi borist fyrirspurnir um réttindi og stöðu grunnskólabarna. Ingibjörg Rafnar, umboðsmaður barna, segir málið til skoðunar.

——-

21. febrúar 2005 – Kvöldfréttir Rúv
Trúboð í íslenskum skólum
[Sjá upptöku]

Guðlaug Björgvinsdóttir – formaður félags kennara í kristnum fræðum – segir þörf á meiri kennslu í trúarbragðafræðum. Hún segir jafnframt að alltaf séu “einhverjar undantekningar um kennara sem eru að biðja bænir með börnum og kannski fari yfir þá línu sem við viljum að sé í starfinu”.

Í fréttinni kemur fram að félag kennara í kristnum fræðum vilji gera “skýran greinarmun á kennslu og trúboði og mælir til að mynda ekki með því að kennsla hefjist á bænastund eins og sums staðar þekkist”.

Guðlaug:
“Nei alls ekki. En við viljum leggja áherslu á það að börnum séu kenndar bænir og bænastellingar. Ekki bara í kristni heldur í öðrum trúarbrögðum líka.”

——-

21. febrúar 2005 – Kastljósið – Rúv
Kristján Kristjánsson ræðir við undirritaðan og Steinunni Arnþrúði Björnsdóttur, verkefnastjóra Biskupsstofu.
[Sjá upptöku]

Rætt um fréttir undanfarna daga um trúboð í skólum. Steinunn Arnþrúður segir að “samkvæmt aðalnámsskrá grunnskóla eru dregin skýr mörk á milli fræðslu og boðunar.”

Steinunn segir jafnframt að það sé á hreinu að það séu foreldrar sem beri ábyrgð á trúaruppeldi barna, ekki skólarnir. Steinunn tekur skýrt fram að hún sé sammála Siðmennt í því að kristinfræðsla í skólum eigi “ekki að vera kristinboð” og að það beri ekki kennurum “að koma með sínar trúarskoðanir” heldur eigi þeir að fræða um trúarbrögð.

“Bænahald á ekki heima í almennum grunnskóla”, segir Steinunn Arnþrúður. Steinunn segist aðeins kannast við eitt tilfelli þar sem börn eru látin fara með morgunbænir í skólum. Að lokum segir Steinunn “Það er frá okkur [Þjóðkirkjunni] alveg skýrar línur að kristinfræðikennsla er fræðsla. Boðun og trúarleg iðkun fer fram á heimilum og í kirkju.

Kristján Kristjánsson spurði undirritaðan í þættinum hvort þau börn sem eru annarrar trúar gætu einfaldlega ekki “verið frammi á gangi” á meðan bænahald fer fram í opinberum skólum.

——-

22. febrúar 2005 – Kvöldfréttir Rúv
Kennsla í Holtaskóla hefst ávallt á bæn
[Sjá upptöku]

Fjallað um reglulegt bænahald í Holtaskóla. Kennsludagar hefjast alltaf á bæn um Jesú Krist, Guð föður og heilagan anda.

Börnin biðja
“Í nafni föður, sonar og heilags anda. Amen.”
og
“Vertu guð faðir minn í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiðir mig út og inn svo allri synd ég hafni. Amen.”

Fréttamaður Rúv:
“Jónína telur ekki að með þessu sé skólinn að fara út fyrir verksvið sitt og boða trú.”

Jónína:
“Við lítum hér á að við sinnum trúarbragðafræðslu, eftir aðalnámsskrá. En hér eru flest börn skírð og fermd. Og að hugleiða og leiða hugann að almættinu, hinu góða. Ég get ekki séð neitt athugavert við það.“

Fréttamaður Rúv:
“En eru einhver börn hér sem eru annarrar trúar en kristinnar eða utan trúfélaga?“

Jónína:
“Já við höfum auðvitað innflytjendur hér, nýbúa og einhver börn hér eru hugsanlega utan trúfélaga. En hér eru eins og ég sagði áðan flest börn skírð og fermd og ég hef ekki fengið nein mótmæli við þessari aðferð.”

Jónína segir svo ennfremur að hún telji mikilvægt að auka veg “kristinnar siðfræði” í skólum. Enda hlutverk skólans að undirbúa börn undir lífið.

——-

27. febrúar 2005 – Silfur Egils
Egill Helgason ræðir við undirritaðan og Jón Val Jensson, guðfræðing.
[Sjá upptöku]

Jón Valur segir eðlilegt að bænahald fari fram í opinberum skólum, enda njóti Þjóðkirkjan sérstakrar verndar í stjórnarskrá. Hann segir bænahald hlutverk skóla, enda hafi foreldrar ekki tíma til að biðja með börnunum sínum vegna vinnu. Hann telur trúboð eðlilegt í skólum því þjóðin hafi fengið að kjósa um stjórnarskrá Íslands árið 1944.

Ég bendi á að stjórnarskrár séu yfirleitt samdar til að vernda minnihluta fyrir ofríki meirihluta. Hversu mörg prósent Íslendinga telji sig vera kristin á Íslandi sé málinu óviðkomandi. Stjórnvöld eigi að vera hlutlaus þegar kemur að trú fólks. Einnig bendi ég á að í ítarlegri könnun sem Björn Björnsson og Pétur Pétursson, guðfræðingar, framkvæmdu 1990 kemur fram að Íslendingar trúa frekar á tilvist miðla, álfa og huldufólks en á helstu grundvallarkenningar. Því sé spurning, fyrst prósentutölur um trú Íslendinga skiptir svo miklu máli, hvort ekki sé eðlilegt að halda miðilsfundi í opinberum skólum, rétt eins og stunda bænahald.

Egill Helgason og Jón Valur hafa miklar áhyggjur af siðferði þjóðarinnar verði trúboð lagt af í opinberum skólum. Báðir virðast þeir halda að kristin trú sé á einhvern hátt betri í siðferðilegum efnum en önnur trúarbrögð. Gefið er í skyn að þeir sem aðhyllast ekki kristin gildi hneigist að hedonisma, nasisma og öðru ófögru.

Ég bendi á að það hafi verið baráttumál mitt í mörg ár að skólar taki upp kennslu í siðfræði, rökfræði og mannlegum samskiptum. Jón Valur segir börn ekki geta kynnst góðu siðgæði með því að læra siðfræði. Dæmisögur um Jesú Krist dugi aðeins í þeim efnum.

Egill heldur því fram að kristni sé betri en íslam og hindúismi vegna þess að í öðrum trúarbrögðum sé svo mikil kvennakúgun. Hann talar einnig um “íslamska fasista”, en gleymir að minnast á evrópsku fasistana og nasistana sem voru næstum því allir kristnir. “Okkar gildismat er betra en þetta”, segir Egill.

Ég bendi Agli á að Jesú á að hafa fæðst fyrir rúmum 2000 árum síðan en eigi að síður bólaði ekki á kristilegri umhyggju fyrir réttindum kvenna fyrir en um 1950 árum seinna. Að halda því fram að réttindi kvenna eða annarra hópa sé kristinni trú að þakka er út í hött og ekki í samræmi við það sem sagnfræðiheimildir segja okkur. Einnig tek ég fram að skoðanir okkar á gildum ólíkra trúarbragða komi málinu alls ekki við. Trúfrelsi og aðskilnaður ríkis og skóla eru mannréttindamál, algerlega óháð því hvað okkur finnst um ólík trúarbrögð.

Jón Valur líkur svo þættinum með því að segja að börn sem vilji ekki taka þátt í kristilegum samverustundum í klukkutíma á dag í almennum leikskólum geti einfaldlega fært sig um set eða verið í öðrum herbergjum á meðan kristileg boðun á sér stað.

——-

Samantekt
Ljóst er að flestir sem hafa rætt um trúboð og bænahald í skólum á opinberum vettvangi eru sammála því að skólinn sé fræðslustofnun en ekki trúboðsstofnun. Skólastjóri Holtaskóla og Jón Valur Jensson, guðfræðingur, eru þar undantekningar.

Talsmenn Þjóðkirkjunnar og talsmenn menntamálayfirvalda hafa lýst því skýrt yfir að trúboð og bænahald eigi alls ekki heima í skólum. Sjónarmið Siðmenntar fá því víðtækan stuðning.

Umræðan hefur verið góð en jafnframt oft verið á villigötum. Persónulegar skoðanir manna á einstaka trúarbrögum og prósentutölur um Þjóðkirkjuaðild koma málinu alls ekkert við. Trúfrelsi er mannréttindamál og barátta fyrir umburðarlyndi og réttlæti. Trúfrelsi er stuðningur við friðhelgi einkalífsins á kostnað valds meirihlutans til að stjórna lífi þeirra sem eru í minnihluta.

Í ljósi þess að Þjóðkirkjan og menntamálayfirvöld eru sammála um að bænahald og trúboð eigi ekki heima í skólum verður forvitnilegt að vita hvernig stjórnvöld bregðast við staðfestum fregnum af trúboði í opinberum skólum.

Vonandi heldur umræðan um þessi mál áfram, enda er gagnrýnin umræða um mikilvæg mál alltaf af hinu góða.

Að lokum vil ég nefna að fjölmargir einstaklingar hafa haft samband við mig á undanförnum dögum og þakkað fyrir góða umræða. Þar á meðal hefur fólk frá Þjóðkirkjunni og frjálsum kristnum söfnuðum haft samband og sagt mér að því þyki óþolandi og óviðeigandi hvernig yfirvöld reyna að skipta sér af trúaruppeldi barna sinna. Nánast enginn hefur kvartað undan umræðum síðustu daga.

Ítarefni:
Er trúfrelsi á Íslandi? Hvers vegna er trúfrelsi mikilvægt?
Erindi flutt á opnu málþingi um trúfrelsi í tengslum við flokksráðsfund Vinstri Grænna á Grand Hótel Reykjavík laugardaginn 19. febrúar 2005.

Siðmennt ályktar um trúboð í skólum

Trúfrelsisstefna Siðmenntar

Stefnuskrá Samtaka um aðskilnað ríkis og kirkju (SARK)

Greinar um siðferði og trú
Trúarbrögð og siðmenning
Siðferði, trú og trúleysi
Fordómar og fáviska ógna mannlegu samfélagi
Erindi á málþingi KSS
Erindi flutt á málþingi Kristilegra skólasamtaka í húsi KFUM & K þann 21. febrúar 2004 um hvort kristin trú sé úrelt. Í erindinu er meðal annars fjallað um tengsl siðferðis og trúar og rannsókn á trúarlífi Íslendinga.

Marteinn Lúter – siðbótamaður eða siðleysingi?

Greinasafn um tengsl ríkis og trúar

Greinasafn um heimspeki og trú

Deildu