Andstæðingar frelsisins

skodun-2-0_logo_blatt-1200
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Það vantar ekki dramatíkina hjá sumum frjálshyggjumönnum þegar þeir setjast niður við skrif. Í ágætri grein sem er birt á frelsi.is í dag er kvartað yfir afskiptum ríkisins af menningu. Nú er sá sem þetta skrifar í meginatriðum sammála frelsispennanum. Ríkið á ekki að skipta sér af menningu með beinum hætti. Enda óskiljanlegt að ríkisvaldið þurfi að vera með puttana í afþreyingu almennings. Þó er nú örlítið djúpt í árina tekið þegar ríkismenningarsinnar eru stimplaðir „[a]ndstæðingar frelsisins“. Ef sú er raunin er Sjálfstæðisflokkurinn hatramur andstæðingur frelsisins og reyndar margir frjálshyggjumenn einnig.

Lítum á nokkrar samþykktir Sjálfstæðisflokksins:

,,Hlúa þarf að þeim menningarstofnunum sem sátt er um að ríki og sveitarfélög standi að. Sérstaklega ber að styðja þær stofnanir sem varðveita og rækta þjóðararfinn.“

,,Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðastliðinn áratug haft pólitíska forystu um að móta þessa umgjörð í menntamálaráðuneytinu. Telur landsfundur að afar vel hafi til tekist og miklum árangri verið náð við endurbætur og uppbyggingu hins opinbera menningarstarfs. Um íslenskt menningarlíf leika nú straumar og stefnur víðs vegar að; það er í senn þjóðlegt og alþjóðlegt, eins og æskilegt er.“

,,Íslenska kvikmyndagerð og innlenda dagskrárgerð fyrir hljóðvarp og sjónvarp þarf að efla.“

,,Huga þarf að því hvort sú árangursríka stefna, sem mörkuð hefur verið um stuðning stjórnvalda við íslenska kvikmyndagerð, geti orðið fyrirmynd að stuðningi við aðrar listgreinar, svo sem myndlist.“

,,Stjórnvöld og samtök listamanna ættu að beita sér fyrir því að þróa [listahátíðir] frekar, til dæmis með alþjóðlegri íslenskri myndlistarhátíð á tveggja ára fresti.“

Frjálslyndir jafnaðarmenn sem hafa gagnrýnt menningastefnu yfirvalda fá ekki einu sinni stuðning frá helstu talsmönnum frjálshyggjunnar, sem margir hverjir virðast miklir stuðningsmen ríkismenningu. Má þar nefna forsætisráðherra og frjálshyggjumann nr. 1 á Íslandi, Hannes Hólmstein Gissurarson. Ef marka má orð frelsispenna eru þessir tveir herramenn einnig andstæðingar frelsisins og hlynntir menningarneyslu undir „beitingu lögregluvalds“.

Segið svo að það rúmist ekki ólíkar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins.

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka