Að spila með liðinu

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/12/2003

11. 12. 2003

Hvers vegna í ósköpunum tekur fólk þátt í stjórnmálum? Sumir gera það eflaust af hugsjón en mér virðist sem flestir, eða í það minnsta of margir, taki þátti í stjórnmálum vegna áhuga á sjálfu stjórnmálastarfinu. Ekki það að ég sé á móti því að fólk eigi sér áhugamál. Hins vegar tel ég rangt af fólki […]

Hvers vegna í ósköpunum tekur fólk þátt í stjórnmálum? Sumir gera það eflaust af hugsjón en mér virðist sem flestir, eða í það minnsta of margir, taki þátti í stjórnmálum vegna áhuga á sjálfu stjórnmálastarfinu. Ekki það að ég sé á móti því að fólk eigi sér áhugamál. Hins vegar tel ég rangt af fólki að bjóða sig fram til Alþingis eða til annarra ábyrgðastarfa sem hafa áhrif á annað fólk bara til þess eins að svala eigin áhuga. Stjórnmálamenn sem hafa meiri áhuga á að „spila með liðinu“ en að berjast fyrir því sem þeir trúa á (ef þeir trúa þá á eitthvað) eiga ekki heima í slíkum ábyrgðarstöðum.

Ótrúlega algengt er að fólk sem áður hafði hugsjónir og sterkar skoðanir á ákveðnum málum umbreytist um leið og það er kosið til ábyrgðastarfa. Hver man ekki eftir öllum þeim ungu sjálfstæðismönnunum sem sögðu eitt sinn „báknið burt“ en eru duglegastir við að þenja út ríkisvaldið nú þegar þeir eru komnir til valda. Nýverið sendu ungir sjálfstæðismenn í Reykjavík frá sér ályktun sem sýnir að þetta gerist enn:

„Í ljósi niðurskurðartillagna Heimdallar er það óásættanlegt að þingmenn flokksins auki útgjöldin og búi til nýja útgjaldaliði sem felast í þremur nýjum heiðurslistamönnum (í raun sex nýjum, þar sem þremur hafði þegar verið bætt við í fjárlagafrumvarpinu). Ritstjórn Frelsi.is telur ákvörðun þingmanna Sjálfstæðisflokksins að fjölga heiðurslistamönnum og auka þannig útgjöld ríkisins mikil vonbrigði.

Olli það ritstjórn sérstökum vonbrigðum að háttvirtur þingmaður og fyrrverandi formaður SUS, Sigurður Kári Kristjánsson, skuli standa að slíkri tillögu. Hefur það lengi verið baráttumál ungra sjálfstæðismanna að draga úr ríkisútgjöldum og ennfremur afskiptum á sviði menningar.“

Er þetta nokkuð áhugavert þar sem Sigurður Kári hefur lengi verið talinn frjálshyggjumaður sem er algerlega á móti afskiptum ríkisins til menningarmála. Ekki lengur, nú virðist hann ekki hafa efni á því að hafa hugsjónir og spilar því bara með liðinu.

Annar nýr og ungur þingmaður, Dagný Jónsdóttir – Framsóknarflokki, hefur einnig verið sökuð um að skipta um skoðun eftir að hún komst á þing og það með réttu. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingar, benti nýlega í Morgunblaðsgrein á þessi umskipti Dagnýjar:

„Þessi fyrrverandi framkvæmdastjóri stúdentaráðs Háskóla Íslands fékk á dögunum einstakt tækifæri til að sýna stuðning sinn í verki að því er varðar Háskólann. Við aðra umræðu fjárlaganna kom Samfylkingin með breytingartillögu sem fólst verulegri hækkun fjárframlaga til Háskóla Íslands, alls um 740 milljón krónur. Óneitanlega myndu slíkar fjárhæðir bæta bágborna stöðu skólans mjög, þótt enn myndi vanta talsvert upp á. Það ætti Dagný að vita sem gekk vasklega fram fyrir hönd stúdenta og skrifaði greinar þar sem viðkvæðið var iðulega fjársvelti, fjársvelti. Og krafðist hún úrbóta hið fyrsta.

En aldeilis ekki. Dagný Jónsdóttir greiddi við fyrsta tækifæri atkvæði gegn viðbótarfjárveitingu til Háskóla Íslands. Hún hvorki studdi tillöguna eins og stúdentar hefðu fyrirfram búist við, né sat hún hjá. Hún kaus gegn tillögunni.“

Dagný hefur ekki einu sinni fyrir því að neita þessu heldur virðist hún þvert á móti vera stolt af því að kjósa gegn hugsjón sinni á Alþingi.

„Það sem mér þótti skrítið var að stjórnarandstöðuþingmaðurinn sem hana ritaði virðist ekki gera sér grein fyrir að á þingi eru tvö lið og eins og staðan er núna er ég í stjórnarliðinu. Í þessu felst enginn hroki, bara staðreynd og maður fylgir sínu liði. Meirihlutinn hefur lagt fram tillögur til fjárlaga og fjáraukalaga og þar eru t.d. aukin útgjöld til menntamála.“

Hugsjónir framar flokkshollustu
Það er sorglegt sjá hve margir hafa meiri áhuga á að sýna flokkshollustu, að spila með liðinu, fremur en að berjast fyrir hugsjónum sínum. Afar sorglegt.

Deildu