Heiðurslaun listamanna

skodun-2-0_logo_blatt-1200
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Það eru engin takmörk fyrir því hvað stjórnvöld hafa gaman að því eyða peningum landsmanna í gæluverkefni. Heiðurslaun listamanna eru þar gott dæmi. Á næsta ári munu 25 listamenn verða fastir áskrifendur að peningum landsmanna og fær hver þeirra 1,6 milljónir á ári fyrir það eitt að vinna vinnuna sína. Af hverju eru ekki til heiðurslaun vefpenna sem eru á móti heiðurslaunum listamanna? Það væri gaman að hafna þeim. Hvað með heiðurslaun bókasafnsfræðinga, kennara, hjúkrunarfólks, nuddara, sálfræðinga, afgreiðslufólks, vélvirkja og grafískra hönnuða? Hvers vegna hefur fólk í þessum starfsstéttum ekki rétt á heiðurslaunum?

Nei, ofangreint fólk hefur ekkert að gera með heiðurslaun. Meirihluti menntamálanefndar Alþingis er hins vegar þeirrar skoðunar að: Jóhann Hjálmarsson, skáld, Kristinn Hallsson, söngvari, Megas, tónlistarmaður og skáld, Rögnvaldur Sigurjónsson, píanóleikari, Vigdís Grímsdóttir, skáld og Vilborg Dagbjartsdóttir, skáld, þurfi nú á þessum peningum landsmanna að halda fyrir það eitt að standa sig vel í vinnunni.

Þeir listamenn sem eru nú þegar áskrifandi að peningum eru: Atli Heimir Sveinsson, Ásgerður Búadóttir, Erró, Fríða Á. Sigurðardóttir, Guðbergur Bergsson, Gunnar Eyjólfsson, Hannes Pétursson, Herdís Þorvaldsdóttir, Jón Nordal, Jón Þórarinsson, Jórunn Viðar, Kristján Davíðsson, Matthías Johannessen, Róbert Arnfinnsson, Svava Jakobsdóttir, Thor Vilhjálmsson, Þorsteinn frá Hamri, Þráinn Bertelsson og Þuríður Pálsdóttir.

Greinilega allt fólk sem þarf á peningum skattgreiðenda að halda. Ekki satt?

Kolbrún Halldórsdóttir, Vinstri grænum, gagnrýnir úthlutun listamannalauna á vefsíðu sinni. Ekki vegna þess að hún er á móti veitingu listamannalauna heldur vegna þess að hún er ekki sátt við hverjir fá launin. Segir hún meðal annars í grein sinni:

„Nú með þessari nýju tillögu, sem enginn veit hvaðan kemur eru hlutföllin milli listgreinanna á listanum orðin mjög ójöfn: 10 rithöfundar, 8 tónlistarmenn, 3 myndlistamenn, 3 leikhúslistamenn og 1 kvikmyndagerðarmaður. Þetta stríðir gegn þeirri viðleitni sem var við lýði á síðasta kjörtímabili, þá var reynt að gæta einhvers jafnræðis í skiptingunni milli listgreinanna en því var ekki því að heilsa nú.“

Já þvílík ósanngirni. Verst þykir mér þó að meðal þessara listamanna eru engir uppistandarar, trúðar, súludansarar (nei bíddu þeir eru víst ekki lengur listamenn) eða töframenn. Hvað á það að þýða?

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka