Hver skrökvar?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

03/12/2003

3. 12. 2003

Öryrkjabandalag Íslands taldi sig hafa samið við heilbrigðisráðherra og þar með ríkisstjórnina fyrir kosningar um hækkun á grunnlífeyri öryrkja og breytingar á kerfi örorkulífeyris. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, fullyrðir að einungis hafi verið samið um að verja 1000 milljónum til verkefnisins á meðan talsmenn Öryrkjabandalagsins fullyrða að samningurinn hafi gengið út á að […]

Öryrkjabandalag Íslands taldi sig hafa samið við heilbrigðisráðherra og þar með ríkisstjórnina fyrir kosningar um hækkun á grunnlífeyri öryrkja og breytingar á kerfi örorkulífeyris. Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, fullyrðir að einungis hafi verið samið um að verja 1000 milljónum til verkefnisins á meðan talsmenn Öryrkjabandalagsins fullyrða að samningurinn hafi gengið út á að tvöfalda grunnlífeyri öryrkja. Ef marka má ummæli Jóns Kristjánssonar, heilbrigðisráðherra, er þessi skilningur Öryrkjabandalagsins réttur. Í Kastljósi Sjónvarpsins í gær segir Einar Oddur að heilbrigðisráðherra hafi fullyrt við sig að slíkur samningur hafi aldrei verið gerður.

Í rökræðum við Helga Hjörvar, þingmann Samfylkingarinnar, um þetta umdeilda mál segir Einar Oddur meðal annars: „Spurningin er þessi. Gerði heilbrigðisráðherrann eitthvað annað samkomulag við Öryrkjabandalagið heldur enn að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hljóðaði upp á? Ég hef ítrekað spurt heilbrigðisráðherra að því hvort það geti verið að eitthvað fari þarna á milli mála. Ítrekað hefur hann fullyrt við mig að svo sé ekki.“

Áfram segir Einar: „Hafi ráðherrann, sem ég á bágt með að trúa en ætla ekkert að þræta um það ef menn vita eitthvað betur en ég, farið ofan í bæ og samið um eitthvað meira en samþykkt ríkisstjórnarinnar var þá er það út af fyrir sig alvarlegt fyrir þá ríkisstjórn.“

Ef marka má ummæli Einars Odds í Kastljósinu í gær virðist nokkuð ljóst að einhver er beinlínis að segja ósatt. Einar Oddur fullyrðir aftur og aftur að Jón Kristjánsson hafi sagt sér og ríkisstjórninni að samningurinn við öryrkja hafi hljóðað upp á 1000 milljónir en ekki upp á tvöföldun grunnlífeyris sem kostar 1500 milljónir. Ef Einar Oddur er að segja satt er heilbrigðisráðherra að ljúga að öryrkjum. Af orðum heilbrigðisráðherra, á Alþingi og í fjölmiðlum, að dæma kemur hins vegar í ljós að samningurinn við öryrkja hljóðaði upp á tvöföldun grunnlífeyris en ekki upp á ákveðna krónutölu.

Annað hvort er því Einar Oddur að skrökva eða Jón Kristjánsson. Eitt er ljóst, að ekki geta þeir báðir verið að segja satt.

Hér fyrir neðan má lesa hluta af þeirri umræðu sem fram fór í Kastlósinu í gær:

Einar Oddur:
„Við höfum alltaf gengið út frá því að þetta væru 1000 milljónir og það væri talan sem ætti að verja til þessara hluta og ég fullyrði að svo er í okkar huga… Í fyrsta skipti sem ég heyrði um einhver svik, það var við aðra umræðu fjárlaga er Helgi Hjörvar, sem hér situr, fór að ræða við Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, um það að þarna væri svik. Ég hafði aldrei heyrt um það fyrr, fór reyndar í andsvar við Helga og skildi ekkert í þessu hvað hann var að ásaka menn um.“

Rúv – Kristján:
„Í hverju felast svikin?“

Helgi Hjörvar:
„Eins og Jón sagði einmitt í andsvarinu þá kemur skýrt fram að í samkomulagið sem að gert var reynist vera dýrara en menn ætluðu. Menn segja á vordögum að þetta sé rúmur milljarður, menn voru þá með tölur á borðinu sem hljóðuðu upp á 12-14 hundruð milljónir. Áður en menn koma saman til þings í haust þá liggur fyrir að kostnaðurinn er um 15 hundruð milljónir.

Ég get útaf fyrir sig deilt áhyggjum með Einari Oddi að því hvernig menn standa að áætlunargerð í ríkissjóði og hvernig kostnaðarmat og þess háttar er skipti eftir skipti ekki að standast. „

[…]

„Samkomulagið var tiltölulega einfalt. Það gekk út á það að tvöfalda grunnlífeyri þeirra sem verða öryrkjar fyrir 18 ára aldur og síðan lækkaði það bara um tvö prósent á ári þangað til að 67 ára aldri er náð þannig að sá sem verður öryrki á miðjum aldri hann fær ekki 100% hækkun heldur 50% hækkun á grunnlífeyrinum.

Við skulum muna það að þetta eru 20.600 krónur fyrir ungan öryrkja í heild á mánuði eða 12.500 krónur eftir skatta, fyrir þá sem hafa engin lífeyrisréttindi. Þegar að samningar að þessu tagi reynast vera dýrari en áætlanir gera ráð fyrir, eins og við höfum svo sem dæmi um nú síðast af Landspítalanum, samningarnir við hjúkrunarfræðinga, samningarnir við lækna og ýmsir kjarasamningar sem hafa verið gerðir, þá eru samningarnir engu að síður efndir þó þeir reynist vera dýrari.

Það virðist bara eitthvað allt annað gilda um Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra Framsóknarflokksins, þegar hann gerir svona kjarasamning við okkur í Öryrkjabandalaginu heldur en gildir þegar Geir Haarde er að gera kjarasamning við ákveðna starfsmannahópa hjá ríkinu og þeir fara framúr áætlun. Þá er ekki sagt „nei þetta átti bara að kosta 1000 milljónir, þið verðið að taka af kjarahækkuninni.““

Einar Oddur:
„Þetta er nú ekki alveg rétt hjá þér vegna þess að í bókun ríkisstjórnarinnar segir að það skuli vera allt að helming hækkun og í frásögn í tímariti Öryrkjabandalagsins er nákvæmlega sama orðalag.“

Helgi Hjörvar:
„Jón er búinn að segja það skýrt að samkomulagið hafi verið dýrara en áætlað var og hann eigi fyrir meira en 65% af því og hann fái ekki heimild hjá ykkur fyrir meiru. Af hverju látið þið hann ekki hafa 500 milljónir.“

Einar Oddur:
„Við skulum fara yfir þetta. Að gefnu tilefni höfum við spurt Jón vegna þess að í leiðara í Morgunblaðinu var fullyrt í seinustu viku að það hefði verið gert eitthvað annað samkomulag, að það væri til undirritað samkomulag, þar sem þetta lægi fyrir að það ætti að borga þetta. Þess vegna höfum við ítrekað spurt heilbrigðisráðherra eftir því hvort það geti mögulega verið að hann hafi gert eitthvað annað samkomulag við öryrkja en samþykkt ríkisstjórnarinnar var um. Hann hefur afdráttarlaust neitað því. Síðast ræddum við þetta í morgun. Þar segir hann að þetta samkomulag sé ekki til. Hins vegar stendur málið þannig að Jón hefur sagt frá því að þeir hafi handsalað á milli sín einhverju samkomulagi, Garðar og Jón, þar stendur bara orð á móti orði hvert það samkomulag var. Það sem við vitum um þetta er að það var meining ríkisstjórnarinnar var klippt og skorið að láta 1000 milljónir [í þennan samning].“

[…]
„Ég hef enga stöðu til að deila um þetta mál. Þetta eru auðvitað orð á móti orði milli tveggja manna og ég tek auðvitað þá afstöðu miðað við það að ég hef þekkt Jón Kristjánsson mjög lengi og trúi honum og hef enga aðra afstöðu í því. Ég skil Helga mjög vel, Garðar er vinur hans og hann trúir honum og ég hef ekkert út á það að setja.“

[…]

Helgi Hjörvar:
„Er ekki erfitt að vera með svona ríkisstjórn að störfum þar sem heilbrigðisráðherrann segir skýrt að hann vanti 500 milljónir í fjárlög næsta árs til að geta efnt samkomulagið sem þeir gerðu, samkomulag sem sérstaklega Framsóknarflokkurinn vísaði mjög sterkt í þegar hann var að róa lífróður síðustu sex, sjö vikurnar [fyrir kosningar]?“

[…]

„Sérstaðan sem samkomulagið við Öryrkjabandalagið hefur er að það er samningur um kjör okkar sem erum öryrkjar og við hljótum að líta svo á að við séum alveg jafn merkilegt fólk og vinnandi fólk. Þannig að samningar við okkur eigi að efna með sama hætti og kjarasamningar við vinnandi fólk í landinu. Þó að mönnum hafði í einhverri áætlunardeild í heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu láðst að áætla fyrir öllum kostnaðinum þá þurfa menn að uppfylla kjarasamning við öryrkjar sem er handsalaður og margyfirlýstur í gegnum alla kosningabaráttuna. Þessar bætur eru okkar kjör, launin okkar. Þegar ungir öryrkjar eru annars vegar erum við að tala um laun þeirra næstu 50 árin. Þetta eru okkar laun og okkar kjarasamningar.“

[…]

Einar Oddur:
„Förum aftur yfir þetta. Samþykkt ríkisstjórnarinnar er alveg skýr. Hún var upp á 1000 milljónir. Ríkisstjórnin fór fram á það við sína flokka, stjórnarflokkana, að styðja 1000 milljóna framlag til öryrkja og þá sérstaklega, eins og ég sagði áðan, til hinna ungu öryrkja.“

[…]

„Þetta voru bara 1000 milljónir, ekki 900 og ekki 1100. Það hefur aldrei í öllum undirbúningi fjárlaganna, í öllum umræðum um fjárlögin, verið um þetta deilt.“

Rúv – Kristján:
„Gerir þú ekkert um það sem stendur í samkomulaginu, að tvöfalda hækkun grunnlífeyris til þeirra sem lýstir hafa verið öryrkjar, hvort það kostar 980 milljónir, 1020 eða 1130?…“

Einar Oddur:
„Geri ég ekkert með það?“

Rúv – Kristján:
Um það snýst samkomulagið, það snýst ekki um krónutöluna er það?

Einar Oddur:
„Bíddu við. Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var þessi og það var það sem við vorum beðnir um, [það er] 1000 milljónir. Það hefur aldrei verið rætt um neitt annað við okkur.“

[…]

Rúv – Svanhildur Hólm:
„En eru menn ekki að tala saman í þessari ríkisstjórn? Svo virðist sem heilbrigðisráðherra og fjármálaráðherra hafi alls ekki sama skilning á þessu samkomulagi.“

Einar Oddur:
„Ég hef nákvæmlega sama skilninginn á þessu eins og fjármálaráðherrann og ég ætla að heilbrigðisráðherrann hafi það líka. Við ræddum um 1000 milljónir, við tókum ákvörðun um 1000 milljónir, við höfum staðið saman að því allan tímann og það hefur aldrei flökrað að okkur að vera með neina aðra upphæð, það hefur enginn talað um það, þannig að við getum ekki fallist á það að við höfum svikið eitt né neitt. Spurningin er þessi. Gerði heilbrigðisráðherrann eitthvað annað samkomulag við Öryrkjabandalagið heldur enn að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hljóðaði upp á? Ég hef ítrekað spurt heilbrigðisráðherra að því hvort það geti verið að eitthvað fari þarna á milli mála. Ítrekað hefur hann fullyrt við mig að svo sé ekki. Menn geta bara rétt ímyndað sér hvaða stöðu ég hef. Auðvitað trúi ég Jóni Kristjánssyni en þegar tveir menn standa andspænis hvor öðrum og deila um hvað handsal þeirra var þá á ég náttúrulega ekki aðra stöðu en að trúa öðrum hvorum og ég trúi og Jóni. Menn geta svo láð mér það.“

Helgi Hjörvar:
„Þeir deila einfaldlega ekki um það um hvað handsalið var…“

Einar Oddur:
„Nú?“

Helgi Hjörvar:
„Nei, vegna þess að Jón hefur sagt það alveg skýrt að hann vanti 500 milljónir til að geta staðið við samkomulagið. Hann hefur sagt það opinberlega […] Jón hefur sagt það í þinginu, hann hefur sagt það í Morgunblaðinu og svo framvegis, að samkomulagið sem hann gerði að það kosti 1500 milljónir og að hann fái ekki þessar 500 milljónir sem hann þarf. Það er alvarlegt ef það er ekki hægt að treysta samningi við heilbrigðisráðherra ríkisstjórnarinnar.“

Einar Oddur:
Ef svo er, ég hef nú ekki áttað mig á því að svo væri, þá hefur Jón Kristjánsson samið við öryrkja um eitthvað meira en samþykkt ríkisstjórnarinnar var.“

[…]

„Þetta var pólitísk ákvörðun sem að ríkisstjórnin ákvað að taka. Að gera þetta stórátak til að bæta stöðu öryrkja og það var upp á þessa upphæð. Hafi ráðherrann, sem ég á bágt með að trúa en ætla ekkert að þræta um það ef menn vita eitthvað betur en ég, farið ofan í bæ og samið um eitthvað meira en samþykkt ríkisstjórnarinnar var þá er það út af fyrir sig alvarlegt fyrir þá ríkisstjórn.

Hægt er að taka undir með Einari Oddi að þetta mál er alvarlegt fyrir sitjandi ríkisstjórn. Heiðarlegast væri fyrir ríkisstjórnina að efna það samkomulag sem heilbrigðisráðherra virðist hafa gert við öryrkja og hætta þessu þrasi við þá sem minnst mega sín. Ef heilbrigðisráðherra hefur lofað einhverju gegn vilja og vitundar ríkisstjórnarinnar er það vissulega alvarlegt mál. Það er hins vegar mál sem á að bitna á ríkisstjórninni sjálfri, en ekki öryrkjum.

Deildu