Eru Múrverjar frjálshyggjumenn?

mur-veggur
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Múrverjar voru fljótir að bregðast við pistli mínum um ríkisfjölmiðla sem birtist hér á Skoðun á fimmtudaginn. Kolbeinn Óttarsson Proppé hefur ýmislegt að athuga við þá skoðun mína að það sé ekki hlutverk ríkisvaldsins að sjá almenningi fyrir afþreyingu en lætur þó vera að rökstyðja málstað sinn með málefnalegum rökum. Í stað þess að ræða málið af yfirvegun og út frá hugmyndafræði grípur Kolbeinn til uppnefninga. Þannig hefur hann grein sína á því að kalla mig frjálshyggjumann og gefur í skyn að þess vegna þurfi varla að taka mark á mér. Ég er hins vegar ekki frjálshyggjumaður ekki frekar en Kolbeinn er kommúnisti. Uppnefni sýna ekki fram á neitt, nema í besta falli málefnafátækt. Skoðum grein Kolbeins aðeins betur.


Í fyrstu málsgrein segir Kolbeinn:

„Það er kunnara en frá þurfi að segja að margir helstu frjálshyggjumenn landsins áttu hlýjan sess í ranni Alþýðuflokksins sáluga (eða er hann enn til sem skúffa hjá Guðmundi Árna?) Einn þeirra er Sigurður Hólm Gunnarsson sem heldur úti því ágæta vefriti Skoðun.“

Kolbeinn, ég er ekki frjálshyggjumaður heldur frjálslyndur jafnaðarmaður. Þetta veistu kommúnistinn þinn 🙂

Um rök mín segir Kolbeinn:

„Helstu rök Sigurðar fyrir þeirri skoðun sinni eru þau að fráleitt sé að ríkisvaldið standi í því að senda út afþreyingarefni. Sigurður viðurkennir möguleikann á því að ríkið kunni að hafa einhverjum skyldum að gegna við að tryggja opna lýðræðisumræðu og óhlutdrægni innan fjölmiðla. Það sem það má hins vegar alls ekki gera, að mati Sigurðar, er að sýna þættina: That 70’s Show, Star Trek: Enterprise, 8 Simple Rules for Dating My Teenage Daughter, Without a Trace, Ali G in USA, Sex and the City, The Sopranos, Þýska fótboltann, Fashion Rocks, Markaregn, Monarch of the Glen, Scrubs, Alias, Gilmore Girls og Spooks.“

Þetta er rétt. Mér þykir undarlegt að skattgreiðendur séu látnir greiða fyrir sápuóperur. Er sú skoðun eitthvað undarleg? Ef við föllumst á það að það sé hlutverk ríkisvaldsins að sýna ofangreinda þætti hvar eigum við þá að draga línuna? Er það þá ekki hlutverk ríkisvaldsins að reka kvikmyndahús, tívolí, dagblöð, bókaútgáfur… ad infinitum? Ef ekki, hvar á þá að draga mörkin og hvers vegna? Þessu verður að svara. Er við hæfi að kalla alla þá sem telja að ríkið eigi ekki að skipta sér af því hvort fólk horfir á og borgar fyrir Sex and the City frjálshyggjumenn?

„Nú horfi ég ekki það mikið á sjónvarp að ég þekki alla þá þætti sem Sigurður telur hér upp. Raunar finnst mér nokkuð til um þekkingu Sigurðar á efni sjónvarpsins og sé ég ekki betur á upptalningunni en að hér sé um nokkuð fjölbreytta dagskrá að ræða.“

Ég verð að viðurkenna að ég horfi á lítið annað en fréttatengt efni í Sjónvarpinu. Hin yfirgripsmikla þekking mín á dagskrá Sjónvarpsins fólst í rúmlega tveggja mínútna langri rannsóknarvinnu á vefsetrinu www.sjonvarp.is (sem af einhverjum ástæðum er ekki í boði skattgreiðenda). Dagskráin er fjölbreitt, satt er það. Ég hef aldrei sagt að Sjónvarpið sé slæm stöð enda kemur það málflutningi mínum ekkert við.

Hvernig tryggja ber opna lýðræðisumræðu og óhlutdrægni fjölmiðla

„Það væri hins vegar athyglisvert að fá að heyra frá Sigurði hvernig hann[s] sér það fyrir sér að ríkið reki það hlutverk sitt sem hann viðurkennir þó að gæti verið skylda þess, þ.e. að tryggja opna lýðræðisumræðu og óhlutdrægni innan fjölmiðla. Sigurði finnst nefnilega að engin eðlileg rök [séu] fyrir því að ríkið skyldi okkur til að borga fyrir. Nú er undirritaður fráleitt sérfræðingur um markað eða fjölmiðla, en nokkuð víst mun þó vera að eigi ríkið á einhvern hátt að gegna þessu hlutverki muni besta leiðin vera að gera það í gegnum eigin fjölmiðil.“

Kannski er það nauðsynlegt að ríkið reki fjölmiðla svo að hægt sé að tryggja opna lýðræðisumræðu og óhlutdrægni. Ég er hins vegar ekki viss. Til að byrja með er ekkert sem bendir til þess að það sé tryggara að ríkisfjölmiðill sé óhlutdrægari en aðrir fjölmiðlar hér á landi. Að minnsta kosti ekki ef marka má þá umræðu sem er nánast stanslaust um RÚV. Ef vinstrimenn eru ekki að kvarta yfir því að hægrimenn ráði öllu á RÚV (Er Bláskjá ekki ritstýrt frá Valhöll?) þá eru hægrimenn að kvarta yfir vinstrislagsíðu (samanber nýlegt bréf Markúsar og óteljandi athugasemdir frá Birni Bjarnasyni svo eitthvað sé nefnt). Væri því ekki nær að spyrja fyrst hvernig ber að tryggja opna lýðræðisumræðu og óhlutdrægni innan ríkisfjölmiðla?

Eitt er þó víst, óhlutdrægni verður ekki tryggð með því að sýna: That 70’s Show, Star Trek: Enterprise, 8 Simple Rules for Dating My Teenage Daughter, Without a Trace, Ali G in USA, Sex and the City, The Sopranos, Þýska fótboltann, Fashion Rocks, Markaregn, Monarch of the Glen, Scrubs, Alias, Gilmore Girls og Spooks.

Skylda ríkisins að sýna afþreyingarefni?

„Ríkisútvarpið hefur líka mikilvægum skyldum að gegna við að sýna öllum landsmönnum afþreyingarefni. Menn eiga ekki að þurfa að búa á því svæði sem dreifikerfi Skjás eins nær yfir til að geta hlegið að feitum amerískum heimilisfeðrum. Þvert á móti á dagskrá Ríkisútvarpið að vera fjölbreytt, vegna þess að menningin er fjölbreytt.“

Nei þvílík ósanngirni. Hvar væri íslenska þjóðin ef hún gæti ekki horft á þætti um feita ameríska heimilisfeður hvar sem er og hvenær sem er? Í raun er spurning hvort það sé nægt framboð af slíkum þáttum? En Kolbeinn, Íslendingar hafa heldur ekki aðgang að góðu tívolíi (nema með því að fljúga til Kaupmannahafnar), það eru ekki bíóhús í öllum sveitarfélögum landsins og hvað þá keiluhallir (ég var á Selfossi um daginn og þar var bókstaflega ekkert að gera! Ríkið er greinilega ekki að standa sig. Ekkert bíó, engin keila, EKKERT… nema jú bjór sem þó var ekki í boði skattgreiðenda. Ég er ekki frá því að sinnuleysi stjórnvalda hafi valdið því að ég varð drukkinn þetta kvöld.). Er þetta ekki álíka ósanngjarnt Kolbeinn? Ef ekki, þá spyr ég hvers vegna?

Eiga menn ekki að geta séð nýjustu mynd Arnolds Schwarzeneggers (California Dreams?) án þess að þurfa að búa á svæði þar sem einkarekin kvikmyndahús eru starfrækt? Viltu ekki að ríkið reki tívolí, kvikmyndahús og keilusali í öllum sveitarfélögum landsins? Ef ekki, ertu þá ekki frjálshyggjumaður og átt heima í Frjálshyggjuflokknum (eða í skúffu hjá Guðmundi Árna?)? Spyr sá sem ekki veit.

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka