Seljum ríkisfjölmiðlana

skodun-2-0_logo_blatt-1200
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

RÚVÞykir hinum almenna skattgreiðanda það virkilega eðlilegt að skattarnir okkar fari í það að greiða fyrir sápuóperur og skemmtiefni á borð við: That 70’s Show, Star Trek: Enterprise, 8 Simple Rules for Dating My Teenage Daughter, Without a Trace, Ali G in USA, Sex and the City, The Sopranos, Þýska fótboltann, Fashion Rocks, Markaregn, Monarch of the Glen, Scrubs, Alias, Gilmore Girls og Spooks? Er einhver virkilega þeirrar skoðunar að það hlutverk ríkisvaldsins að skemmta landsmönnum með þessum hætti?


Eins og staðan er í dag má enginn eiga sjónvarpstæki nema að hann greiði fyrst afnotagjöld sín af Rúv. Ef menn gerast svo grófir að kaupa sér sjónvarp eru þeir beinlínis neyddir til þess að borga fyrir: That 70’s Show, Star Trek: Enterprise, 8 Simple Rules for Dating My Teenage Daughter, Without a Trace, Ali G in USA, Sex and the City, The Sopranos, Þýska fótboltann, Fashion Rocks, Markaregn, Monarch of the Glen, Scrubs, Alias, Gilmore Girls og Spooks.

Ef íslenskur ríkisborgari vill eiga sjónvarp til að geta horft á Stöð 2, Sýn, Skjá einn, vídeó, DVD eða til að getað spilað tölvuleik í nýju PlayStation tölvunni sinni þá má hann það ekki samkvæmt lögum nema að hann borgi fyrst fyrir: That 70’s Show, Star Trek: Enterprise, 8 Simple Rules for Dating My Teenage Daughter, Without a Trace, Ali G in USA, Sex and the City, The Sopranos, Þýska fótboltann, Fashion Rocks, Markaregn, Monarch of the Glen, Scrubs, Alias, Gilmore Girls og Spooks á Rúv. Þykir einhverjum manni þetta eðlilegt?

Það getur ekki verið hlutverk ríkisvaldsins í siðmenntuðu lýðræðisþjóðfélagi að troða ákveðna menningu ofan í almenning. Það kann að vera að ríkið hafi einhverjum skyldum að gegna í því að tryggja opna lýðræðisumræðu og óhlutdrægni innan fjölmiðla en engin eðlileg rök eru fyrir því að ríkið skyldi okkur til að borga fyrir: That 70’s Show, Star Trek: Enterprise, 8 Simple Rules for Dating My Teenage Daughter, Without a Trace, Ali G in USA, Sex and the City, The Sopranos, Þýska fótboltann, Fashion Rocks, Markaregn, Monarch of the Glen, Scrubs, Alias, Gilmore Girls og Spooks.

Það kann að vera að einhverjum finnist að ríkið eigi að styrkja innlenda dagskrágerð og eigi að tryggja ákveðið framboð af menningar- og fræðsluefni á ljósvakamiðlunum. Hverjum finnst hins vegar nauðsynlegt að ríkisvaldið tryggi að: That 70’s Show, Star Trek: Enterprise, 8 Simple Rules for Dating My Teenage Daughter, Without a Trace, Ali G in USA, Sex and the City, The Sopranos, Þýski fótboltinn, Fashion Rocks, Markaregn, Monarch of the Glen, Scrubs, Alias, Gilmore Girls og Spooks séu á dagskrá ljósvakamiðla?

Ríkið á auðvitað ekki að reka sjónvarps- og útvarpsstöðvar. Flestir eru sammála um að ríkið eigi ekki að reka kvikmyndahús og myndbandaleigur eða gefa út bækur eða dagblöð. Hvers vegna á ríkið þá að reka sjónvarpsstöð og útvarpsstöðvar?

Frumvarp þeirra Péturs H. Blöndal, Birgis Ármannsson og Sigurðar Kára Kristjánssonar um breytingu á útvarpslögum, lögum um Ríkisútvarpið og lögum um tekjuskatt og eignarskatt er því mikið fagnaðarefni.

Hér fyrir neðan má lesa rökin fyrir frumvarpinu:

Ríkisrekstur.
Helstu röksemdir fyrir frumvarpinu eru þær að óþarft virðist að ríkið standi í útvarps rekstri, gerð þátta, útsendingu, uppbyggingu dreifikerfis og innheimtu útvarpsgjalds til þess að ná fram þeim markmiðum sem Ríkisútvarpinu eru sett. Þeim er öllum hægt að ná með útboðum þar sem allar útvarpsstöðvar, sem bolmagn hafa, keppa um að bjóða bæði góðar og hagkvæmar lausnir á þessum markmiðum. Enn fremur gætu leikhús og leikhópar, kórar og söngvarar, kvikmyndagerðarfólk og annað listafólk og fjölmiðlafólk blandað sér í leikinn. Þannig yrði samkeppnin virk og einstakir aðilar gætu sérhæft sig á ákveðnum sviðum, t.d. í gerð barnaefnis. Hægt yrði að koma á gæðaeftirliti og eftirliti með framkvæmd sem erfitt er um vik við núverandi aðstæður þegar sami aðilinn hefur alla þessa þætti á einni hendi. Þarf ekki að fara í grafgötur með þvílík lyftistöng útboð í þessum mæli yrði íslenskri menningu um allt land. Þessi breyting mundi skapa jafnræði á milli þeirra aðila, sem keppa á markaði um gerð, framkvæmd og útsendingu útvarpsefnis. Samkeppnin og gæðaeftirlitið mundi stuðla að betra útvarpsefni og styrkja íslenska menningu.

Það er enn fremur umhugsunarefni hvers vegna ríkið á að standa í þessum rekstri fjölmiðl unar. Hvers vegna gefur það ekki út ríkisdagblað, ríkistímarit, ríkisbækur, gerir ríkiskvik myndir og ríkispopptónlist og leggur undir sig netið sem sameinar þetta allt? Það er nýverið búið að hlutafélagavæða ríkissímann og flestir virðast sammála um að selja hann úr ríkiseigu. Þetta frumvarp fylgir þeirri þróun.

Innlend dagskrárgerð.
Þegar útvarpsráð býður út verkefni samkvæmt ákvæðum frumvarps þessa er við því að búast að stærri hluti fjármagnsins fari til innlendrar dagskrárgerðar en nú. Það væri ekki í anda þessa frumvarps að útvarpsráð ráðstafaði fjármunum úr ríkissjóði til kaupa á erlendu barnaefni eða til kaupa á dýrum erlendum íþróttaviðburðum þegar litið er til markmiða frum varpsins. Slíkt yrðu útvarpsstöðvar að fjármagna með auglýsingum eða afnotagjöldum af læstri dagskrá. Þannig má búast við að innlend dagskrárgerð eflist og dafni, sérstaklega þegar hún verður að keppa um verkefnin.

Læst dagskrá.
Rök mæla með því og móti að dagskrá á vegum útvarpsráðs verði í læstri útsendingu. Rökin með því eru að landslýður hefur alla tíð þurft að greiða fyrir dagskrá Ríkisútvarpsins. Einungis þurfi að tryggja að almenningur hafi möguleika til að kaupa sér aðgang að dag skránni. Hins vegar má segja að þegar flestir greiði til útvarpsráðs með lækkun persónu afsláttar eigi þeir rétt á að fá efnið sem þeir eru búnir að „greiða“ fyrir ókeypis. Þetta eru sjónarmið sem útvarpsráð mun þurfa að taka mið af en það er augljóst að tilboð verða mikið lægri í útsendingu og jafnvel gerð dagskrárefnis ef útsendingin er læst.

Starfsmenn.
Í frumvarpinu er gætt sérstaklega að hagsmunum starfsmanna. Þeir halda öllum réttindum sínum á sama hátt og gert var þegar ríkisbankarnir voru hlutafjárvæddir og einkavæddir. Þá njóta starfsmenn forgangskaupréttar að hlutafé í nýju fyrirtæki á lægra verði en aðrir enda taki þeir við starfi hjá því. Þannig er tekið mið af því að starfsmenn eru veigamesta eign Ríkisútvarpsins og án þeirra hefur það enga reynslu eða þekkingu og hefur ekkert virði umfram nýstofnað fyrirtæki. Fyrir starfsmenn hlýtur enn fremur að vega þungt að þeir starfi ekki lengur í skjóli skylduaðildar heldur á grundvelli færni sinnar og mikilla hæfileika.

Margir starfsmenn Ríkisútvarpsins starfa sem verktakar. Enn fremur hafa aðilar utan Ríkisútvarpsins framleitt dagskrárefni fyrir það. Má í því sambandi benda á tengslin við Sinfóníuhljómsveit Íslands og Íslenska dansflokkinn. Þannig er fordæmi fyrir þeirri breytingu sem hér er lögð til nema miðað er við að útboð sé ætíð viðhaft og gefur það fleirum kost á að spreyta sig og eykur fjölbreytni menningarlífsins.

Í útvarpslögum er ákvæði um að útvarpsstöðvum sé skylt að láta lesa endurgjaldslaust tilkynningar frá almannavörnum, löggæslu, slysavarnafélögum eða hjálparsveitum og gera hlé á dagskrá ef brýna nauðsyn ber til og almannaheill krefst. Sú röksemdafærsla að Ríkis útvarpið sé öryggistæki þjóðarinnar er fallin um sjálfa sig þar sem berlega hefur komið í ljós á síðustu árum að hún á ekki við rök að styðjast. Nægir hér að nefna Suðurlandsskjálftana í júní 2000 og atvik þegar utanaðkomandi aðili náði að slökkva á Ríkisútvarpinu án þess að nokkur gerði athugasemdir við ferðir hans.

Útvarpsgjaldið.
Skylduáskrift að Ríkisútvarpinu hefur runnið sitt skeið á enda. Hún skekkir allan mark aðinn og kemur í veg fyrir eðlilega samkeppni. Það er fráleitt að skylda fólk til að greiða áskrift til aðila A þegar það ætlar að kaupa eða jafnvel ná ókeypis í þjónustu hjá aðila B. Vilji unglingur, sem nýfluttur er að heiman og býr einn í herbergi, nýta sér ókeypis dagskrá Skjás 1 verður hann að greiða til Ríkisútvarpsins, sem hann hefur kannski engan áhuga á. Þegar öryggisrökin eru auk þess ekki lengur til staðar er fráleitt að skylda landsmenn til þess að borga af dagskrá sem þeir hafa e.t.v. engan áhuga á að færa sér í nyt. Útvarpsgjaldið er þess vegna trauðla þjónustugjald heldur nokkurs konar nefskattur. Sem skattur stingur þetta gjald mjög í stúf við aðra skatta sem með réttu eða röngu eru sniðnir að greiðslugetu fólks. Þessi skattur er mjög ófélagslegur því að allir verða að greiða hann óháð tekjum eða greiðslu getu. Gjaldið er umtalsverður hluti af launum lágtekjufólks en hátekjufólk munar lítið um að greiða þennan skatt.

Það má svo velta upp þeirri spurningu hvort heimilt sé að framselja skattlagningar- og álagningarvaldið með þessum hætti eftir breytingu á 77. gr. stjórnarskrárinnar 1995.

Útvarpsgjaldið er núna 2.408 kr. á mánuði fyrir hverja fjölskyldu eða 28.896 kr. á ári. Það kemur sérstaklega illa við einstaklinga sem hafa lágar tekjur og búa einir. Það kemur betur við heimili þar sem fyrirvinnur eru tvær en best kemur það við heimili með mörgum fyrirvinnum, t.d. hjón með tvö fullorðin fullvinnandi börn og góðar tekjur. Með frumvarpi þessu er aðstöðumunurinn minnkaður með því að persónufrádráttur einstaklings er lækkaður um 1.000 kr. á mánuði, 12.000 kr. á ári á móti niðurfellingu útvarpsgjalds. Þetta á að gefa ríkissjóði sömu tekjur og veitt yrði til útvarpsráðs en bætir stöðu einstaklingsins um 17 þús. kr. á ári, hjónin græða 5 þús. kr. en fjölskyldur með margar fyrirvinnur þurfa að greiða meira. Þær fjölskyldur sem vegna tekjuleysis greiða enga skatta koma best frá þessari breytingu því að þær spara allt útvarpsgjaldið. Sama gildir um fyrirtæki. Þeir sem hvorki eiga sjónvarp né útvarp þurfa hins vegar að greiða meira nú og einnig þeir sem hafa svikist um að greiða útvarpsgjald. Núverandi fyrirkomulag þar sem einstæð móðir með þrjú börn, ein fyrirvinna, borgar það sama fyrir sjónvarpið og hjón með tvo fullorðin börn, öll fullvinnandi, er í hæsta máta ósanngjarnt.

Innheimta útvarpsgjaldsins er svo kapítuli út af fyrir sig. Smásmugulegt eftirlit með viðskiptum einstaklinga sín á milli og spurningar um hvar hver sefur eru ekki í takt við tímann og minna á lögregluríki eða sovétskipulag. Á heimasíðu RÚV kemur eftirfarandi fram undir liðnum tækjaleit: „Tækjaleitin fer þannig fram að öllum þeim sem ekki eru á skrá með viðtæki, og eru ekki tengdir með fjölskyldunúmeri við annan greiðanda, eru send fyrir spurnarbréf. Berist ekki svar við fyrirspurn afnotadeildarinnar fer tækjaleitarfólk á staðinn og spyr um viðtæki á heimilinu. Í flestum tilvikum er tekið vel á móti tækjaleitarfólkinu en komi sú staða upp að rökstuddur grunur er um að tæki sé á heimilinu en heimilisfólk neitar því og vill þess utan ekki sýna fram á að heimilið sé tækjalaust verður tæki skráð á heimilið og gíróseðlar sendir fyrir afnotagjöldunum.“

Í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1757/1996 segir: „Þá tel ég, að í þeim tilvikum, er maður neitar að vera eigandi eða vörslumaður viðtækis, sem nýta má til móttöku á útsend ingum Ríkisútvarpsins, og neitar jafnframt að sýna starfsmönnum innheimtudeildar Ríkis útvarpsins fram á það, en starfsmennirnir hafa engu að síður rökstuddan grun um, að á heim ilinu sé slíkt tæki að finna, geti innheimtudeildin allt að einu beint kröfu um greiðslu útvarps gjalds að þeim einstaklingi, sem í hlut á, og látið reyna á réttmæti kröfunnar, eftir atvikum fyrir dómi.“

Í Bretlandi og Danmörku sleppa fæstir við greiðslu afnotagjalda eða 5–6%. Framkvæmd tækjaleitar og viðurlög eru önnur og strangari í þessum löndum en á Íslandi, þar sem talið er að um 9% notenda sleppi við að greiða afnotagjald. Bretar með sitt heimsfræga BBC eru til dæmis mjög framarlega í notkun leitartækja og því komast fáir hjá að greiða afnotagjald í Bretlandi. Finnar hafa nýlega tekið upp hertar reglur og beita sektum þannig að þegar þeir finnast sem ekki greiða afnotagjald í Finnlandi þurfa þeir að greiða tvöfalt afnotagjald auk sektar fyrir þann tíma sem þeir hafa vanrækt greiðslu. Þá má nefna að í Danmörku er kerfið þannig að hlaðist upp skuld hjá greiðanda afnotagjalda er hún send til gjaldheimtunnar dönsku sem tekur síðan fyrir skuldinni beint af launum fólks, rétt einsog skatturinn gerir hér á landi.

Hér þarf borgarinn að hleypa ókunnu fólki inn á heimili sitt og sanna þannig að hann eigi ekki tæki. Ella getur hann þurft að sanna það fyrir dómi að hann sé ekki sekur um að eiga tæki. Þetta gengur gegn þeirri reglu að fólk sé saklaust nema sekt þess sé sönnuð.

Samkeppni.
Þar sem Ríkisútvarpið hf. og aðrar útvarpsstöðvar fengju greitt fyrir þau verkefni, sem þau hlytu í útboði, sem nemur nokkurn veginn núverandi útvarpsgjaldi, gæti það þýtt að áskrift að sjónvarpsstöðvum ætti að lækka í verði eða dagskrá stöðvanna að batna. Sam keppni ætti einnig að stuðla að betra og ódýrara efni.

Undanfarið hafa frjálsar útvarpsstöðvar sem verða að lifa á auglýsingatekjum, stundum jafnvel án áskriftargjalda, kvartað undan samkeppninni við „stóra bróður“ sem í krafti skylduaðildar og ríkisábyrgðar er sagður undirbjóða auglýsingar. Þessi „samkeppni“ verður sérstaklega sársaukafull þegar harðnar á dalnum í efnahagslífinu og auglýsingamarkaðurinn dregst saman. Umræðan hefur snúist um þá lausn að Ríkisútvarpinu verði bannað að taka þátt í auglýsingamarkaðnum og fái í staðinn fé á fjárlögum. Þetta óttast auglýsendur af því að samkeppnin minnkar þegar einn aðili hverfur af markaði. Í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að Ríkisútvarpið verði sjálfstæður óháður aðili á markaði sem eftir hæfilega aðlögun, þrjú ár, þarf að standa sig í samkeppninni, m.a. um verkefni frá útvarpsráði.

Netið.
Stórfelldar tæknibreytingar hafa dunið yfir þjóðina á síðustu fimm árum. Netnotkun er orðin mjög almenn og þar getur fólk fylgst með dagskrá sjónvarps og hljóðvarps á mismun andi tímum, sem hentar hverjum og einum. Þar er hægt að kaupa, leigja eða njóta ókeypis bæði tónlistar og kvikmynda og reyndar er einnig hægt að lesa nýjustu fréttir dagblaða og jafnvel heilu bækurnar og njóta nánast allra tegunda fjölmiðlunar alls staðar að úr heiminum. Ekki verður hægt að setja afnotagjald á þennan miðil þar sem hann er í eðli sínu ókeypis. Vandi Ríkisútvarpsins sem og annarra útvarpsstöðva mun vaxa þegar mynd- og tóngæði þessara netmiðla hefur batnað en þróunin er afar ör í þá veru um þessar mundir.

Ríkisrekstur.
Rekstur Ríkisútvarpsins líður fyrir þá annmarka sem há ríkisrekstri almennt. Ekki er hægt að gera vel við afburðastarfsmenn og þeir fara annað eða missa móðinn. Stjórnendur standa ekki og falla með ákvörðunum sínum og bera ekki fjárhagslega ábyrgð. Þegar reksturinn er gagnrýndur er alltaf borið við skorti á fjárveitingum eða of lágu afnotagjaldi; viðbárur sem neytanda koma ekkert við í einkarekstri.

Menningarmótun.
Útvarpsráð og Ríkisútvarpið hafa alla tíð verið í forustu í mótun menningar og lista. Það hefur jafnvel verið ljóst og leynt markmið sumra sem setið hafa í útvarpsráði eða verið forustumenn á Ríkisútvarpinu að ala þjóðina upp í „góðri“ menningu að þeirra mati. Þetta var mjög áberandi um miðbik síðustu aldar. Sumir hafa gagnrýnt að menningu sé stýrt þannig ofan frá og bent á að menning sé í víðasta skilningi allt það sem menn stunda, hvort sem það er „hámenning“ eins og sinfóníur eða „lágmenning“ eins og „popp-hljómleikar“ svo dæmi sé tekið af tónlist. Annað hefur verið stórlega styrkt af ríki og sveitarfélögum, hitt ekki. Þessi stýring lýsir vanmati á getu einstaklingsins til að skapa sér menningu út frá eigin forsendum eða hreinlega stjórnunar-, forsjár- og valdatilburðum ríkisvaldsins, enda eru ríkisfjölmiðlar mikilvæg tæki í einræðisríkjum og frjáls fjölmiðlun eitur í beinum slíkra valdhafa.

Ekki er ætlunin að hverfa alveg frá þessari stýringu á menningu samkvæmt þessu frum varpi en hún er milduð í þeim skilningi að sami aðilinn mundi ekki bæði taka ákvörðun um hvaða menningar og hvernig frétta þjóðin á að njóta og sjá svo um framkvæmdina á því hvernig það er gert. Mikilvægi þessarar stýringar hefur reyndar dvínað verulega eftir að Ríkisútvarpið fékk samkeppni og brást við henni t.d. með Rás 2.

Lausn.
Sú lausn sem hér er stungið upp á leysir öll framangreind vandamál. Aðilum fækkar ekki á útvarpsmarkaði því að Ríkisútvarpið verður verðugur þátttakandi en samkeppnin verður tryggð með útboðum á þeim verkefnum sem Ríkisútvarpið hefur séð um í tímans rás. Út varpsráð mun áfram sjá um að að þessum verkefnum verði sinnt. Samkeppni er sömuleiðis tryggð á auglýsingamarkaði þar sem keppendum fækkar ekki.

Hlutverk útvarpsráðs.
Hlutverk hins nýja útvarpsráðs yrði í meginatriðum þetta: Útvarpsráð skilgreinir afmarkað dagskrárefni, t.d. barnaefni (kvikmyndir, leikrit, tónlist, viðtalsþætti, fræðsluefni, spurninga keppni o.s.frv.). Það setur upp tímaramma og gæðastaðla. Svo eru einstakir þættir boðnir út. Sumir eru boðnir út einu sinni, t.d. ákveðið leikrit. Aðrir þættir, t.d. framhaldsþættir, eru boðnir út til lengst þriggja ára.

Útvarpsráð skilgreini enn fremur hvað felst í útsendingu og dreifingu efnis um allt land. Í það geta aðilar boðið sem sérhæfa sig á því sviði. Ný stafræn tækni mun gera þessa þætti bæði miklu ódýrari og auðveldari til útboðs en nú. Um þessa dreifileið verði dagskrárnar sendar.

Þá þarf útvarpsráð að skilgreina hvað felst í öryggishlutverki þess. Það felst væntanlega í því að einhver útvarpsstöð sendir út allan sólarhringinn um fyrrgreint dreifinet, er í nánum tengslum við almannavarnakerfið, er reiðubúin til að rjúfa dagskrá sína hvenær sem er og kynnir hlutverk sitt ítarlega fyrir almenningi.

Útvarpsráð skilgreini hvaða gæði skuli nást á einstökum útboðsþáttum og hvernig fylgst sé með að þeim gæðum sé náð.

Eðlilegt er að útvarpsráð bjóði einnig út það starf sem nefnt er hér að framan, þ.e. að skil greina ýmsa þætti dagskrár, gerð gæðaeftirlits og eftirfylgni.

 

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka