Ríkishljómsveit Íslands

skodun-2-0_logo_blatt-1200
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Þröstur Ólafsson, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fór mikinn í Íslandi í bítið á Stöð 2 í morgun. Þegar Eiríkur Hjálmarsson, annar stjórnandi þáttarins, vakti athygli á því að það væru ekki endilega allir þeirrar skoðunar að ríkið ætti að reka sinfóníuhljómsveit var eins og einhver æð hefði sprungið í hausnum á Þresti. ,,Einhverjir vilja líka fá Hitler til baka,“ sagði hann kokhraustur og benti á það væru alltaf til einhverjir ,,vitleysingar“. Eins og svo oft áður verða svívirðingar vopn hins rökþrota manns.


Það er alls ekki eitthvað náttúrulögmál að skattgreiðendur séu látnir borga fyrir óarðbæra menningu. Í raun draga slík ríkisafskipti mikið úr valfrelsi einstaklinga og takmarka getu fólks til að verja sínu sjálfsaflafé í þá menningu sem það kýs. Fólkið á að stjórna menningunni, ekki öfugt.

Stefán Jón Hafstein, sem einnig var í Íslandi í bítið, var aðeins yfirvegaðari í málflutningi sínum en sagði þó: ,,Við viljum hafa sinfóníuhljómsveit“. Við hver? Kannski er Stefán Jón einungis að tala fyrir hönd borgarfulltrúa en að mér leynist sá grunur að hann sé að tala fyrir hönd almennings eins og svo margir menningarvitar gera.

Ef ,,við“ almenningur vildum hafa sinfóníuhljómsveit þá myndum við einfaldlega borga uppsett verð, laust við ríkisstyrki, fyrir þá þjónustu sem sinfónían býður upp á. Ef ekki, þá þráum ,,við“ greinilega ekki jafn sterkt að hafa sinfóníuhljómsveit starfandi á Íslandi eins og margir stjórnmálamenn telja.

Að lokum. Var Hitler ekki annars duglegur við að láta ríkisvaldið standa fyrir allskonar menningarviðburðum á kostnað almennings? Það er eins og mig minni það…

Sjá nánar:
Greinar um ríkisumsvif

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka