Góð ræða á Hinsegin dögum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/08/2003

12. 8. 2003

Margrét Pála Ólafsdóttir hélt frábært ávarp á Hinsegin dögum síðastliðinn laugardag. Í ræðu sinni fjallar hún m.a. um fordóma gagnvart samkynhneigðum og hvetur þá sem hafa slíka fordóma til sýna það hugrekki að koma út úr skápnum. ,,Ég hvet íslenska fordóma til að koma úr felum – Það er ekki amalegt að feta út úr […]

Margrét Pála Ólafsdóttir hélt frábært ávarp á Hinsegin dögum síðastliðinn laugardag. Í ræðu sinni fjallar hún m.a. um fordóma gagnvart samkynhneigðum og hvetur þá sem hafa slíka fordóma til sýna það hugrekki að koma út úr skápnum. ,,Ég hvet íslenska fordóma til að koma úr felum – Það er ekki amalegt að feta út úr skápnum með þeim húsbændunum í Vatíkaninu og Washington!“ Ræða Margrétar Pálu er í heild sinni hér fyrir neðan:

—–

Kæru vinir,

Til hamingju með hinsegin daga; lesbíur, hommar, tvíkynhneigðir og kynskiptingar. Til hamingju, fjölskyldur okkar og vinir og allt baráttufólk fyrir betri heimi sem hér er statt! Í dag er hátíð í bæ – þjóðhátíð sem er kennd við kjark og þor, stolt og virðingu. Þetta er þjóðhátíð fjölbreytileikans í öllum sínum myndum (og við stýrum okkar brekkusöng sjálf). Og á slíkri hátíð fögnum við öll, hvort sem við erum svona eða hinsegin eða bara einhvern veginn allt öðruvísi! Það er stolt fyrir alla sem gildir!

Ég þakka fyrir að vera boðið að flytja ávarp á þessari stundu. Þetta er mikill heiður og sómi sem ég þigg fyrir hönd okkar allra, gömlu félaganna úr baráttunni sem höfum staðið vaktina á síðustu árum og áratugum. Ég er aðeins fulltrúi allra þeirra sem ruddu brautina fyrir þá byltingu sem dagurinn í dag vottar; lesbíur og hommar sem þorðu að leita opinskátt að hamingju sinni og vera þau sjálf þó það reyndist oft dýrkeypt, þau sem umbyltu heimsmyndinni þannig að hún varð aldrei söm eftir! Þetta byltingarfólk ruddi brautina með tilveru sinni, kjarki og þori – með gleði sinni og sorgum, með sigrum sínum jafnt og ósigrum, svo sannarlega öll með lífi sínu og sum jafnvel með dauða. Þau eiga heiðurinn í dag!

Kraftaverk hafa unnist og eitt þeirra á sér stað á þessari stundu. Það kraftaverk erum við öll sem stöndum hér undir regnbogafánunum og staðfestum þessa nýju heimsmynd sem rúmar og leyfir allt litróf mennskra tilfinninga. Það er ótrúlegra en orð fá lýst að hugsa 10 ár aftur í tímann. Þá var fyrsta opinbera ganga samkynhneigðra farin um götur Reykjavíkurborgar. Fyrsta gangan okkar – og hún taldi aðeins 69 manns sem þá þorðu að standa með lífi sínu og vera sýnileg í íslenskri dagsbirtu. Ef ég man rétt vorum við þó 68 því til að hækka töluna töldum við meira að segja hundinn sem fylgdi göngunni. Ekkert okkar hefði trúað á þeirri stundu að við ættum eftir að sjá slíkt kraftaverk sem við öll hér erum að vinna núna.

En það hefur löngum þurft kraftaverk og byltingar til að hreyfa gömul vígi og margar byltingarnar hafa átt sér stað. Ég nefni málfrelsi, trúfrelsi og skoðanafrelsi sem eru löngu þekkt og viðurkennd réttindi á Vesturlöndum. Það þurfti síðan líf og sýnileika okkar lesbía og homma til að færa tuttugustu öldinni eina sjálfsögðustu mannréttindakröfu allra tíma. Það er krafan um tilfinningafrelsi ! – sjálfan réttinn til að njóta tilfinninga okkar og ástarhneigða. Það er rétturinn til að kynnast tilfinningum okkar, til að setja orð á kenndir okkar, til að sjá fyrirmyndir að líðan okkar. Tilfinningafrelsi er einfaldlega sjálfur rétturinn til að vera við sjálf! Þetta hljómar ef til vill sem sjálfsögð réttindi sem ekki þarf að hafa orð á; að eiga, þekkja, njóta og virða tilfinningar sínar – en þetta hefur ekki verið sjálfsagt fyrir okkur, sem höfum hinsegin reynslu af tilfinningum okkar.

En okkar barátta fyrir tilfinningafrelsi byggir ekki á blóðugum fallöxum frönsku byltingarinnar; í dag kjósum við okkur að vopnum gleðina og stoltið, ástina, lífið og litaskrúðið – og hvað getur hamlað slíkum kvintett frá sigri. Þeir sem það reyna, munu ekki hafa erindi sem erfiði og þau skilaboð getum við sent skýr og skorinorð héðan – hvort sem í hlut eiga einhverjir pótintátar uppi á Íslandi eða Páfinn í Róm!

Með stuðningi ykkar allra sem hér eruð í dag, hafa óendanlega stórir áfangar náðst, bæði í viðhorfum fólks til samkynhneigðra og eins í lagalegum réttindum. Vinnunni er þó ekki lokið og enn gjalda samkynhneigðir fyrir tilfinningar sínar, enn neitar þjóðkirkjan að veita okkur þá þjónustu sem öðrum býðst og enn hefur löggjafinn ekki tryggt möguleika okkar til ættleiðinga og tæknifrjóvgana. Einhvers staðar leynast nefnilega þau viðhorf að lesbíur og hommar séu hvorki guði þóknanleg né börnum bjóðanleg – en slík viðhorf segja ekkert til um okkur lesbíur og homma en meira til um andlega fátækt þeirra sem slík viðhorf hafa!

En þótt formlega misréttið hafi verið áberandi í umræðu okkar, þurfum við ekki síður að halda vöku okkar hvað varðar aðrar hliðar; það er félagslegt og menningarbundið misrétti sem hefur verið mun dulbúnara og minna áberandi en hin beina lagamismunun. Hér er af nógu að taka en mér er efst í huga skuggahliðar á tveimur lykilsviðum samfélagsins; það er annars vegar ósýnileiki og fyrirmyndaleysi samkynhneigðra í skólakerfinu og hins vegar þöggun og dulbúið einelti á atvinnumarkaði og þá sérstaklega í kynhneigðarviðkvæmum störfum. Þarna eru verk að vinna fyrir baráttufúsar hendur; þarna læðast þessi ósýnilegu viðhorf, þarna leynast fordómarnir sem fara með veggjum þar sem það er ekki lengur í tísku að fordæma lesbíur eða dyggð að lemja homma. Tímarnir eru breyttir og nú þegar við komum fagnandi og stolt fram í dagsljósið, eru fordómarnir að skríða í felur. Í fljótu bragði virðist það jákvætt en til lengri tíma litið er það mjög varasöm lausn. Við lesbíur og hommar vitum nefnilega öllum betur að í skápnum magnast allt sem neikvætt er – þar þrífst ekkert af viti; það er óttinn, skömmin og hatrið sem ræður ríkjum í skápnum. Hið nýja verkefni okkar er þess vegna að koma fordómunum úr felum – það er eina leiðin til að takast á við þá og við sem hér stöndum, eru reiðubúin að mæta þeim. Ég hvet íslenska fordóma til að koma úr felum – Það er ekki amalegt að feta út úr skápnum með þeim húsbændunum í Vatíkaninu og Washington!

Enn og aftur – til hamingju með hinsegin daga!

Margrét Pála Ólafsdóttir

—–

Deildu