Orsök eineltis

Menn hafa eðlilega mjög misjafnar skoðanir á orsökum eineltis, og þar með hvað hægt er að gera til að koma í veg að það eigi sér stað. Algeng skoðun er sú að einelti sé foreldrum að kenna: ,,Foreldrar kunna ekki að aga börnin sín,” ,,Börn læra ekki lengur góða siði heima hjá sér,” o.s.frv.


Um leið og ég lýsi mig sammála því að það er til fullt af óhæfum foreldrum þá hefur mér þótt tilgangslítið að vera sífellt að tönglast á þessari augljósu staðreynd. Einfaldlega vegna þess að í fyrsta lagi er lítið sem við sem samfélag getum gert við vanhæfum foreldrum og í öðru lagi dregur sú umræða athyglina frá samfélagslegum orsökum eineltis. Orsökum sem við sem samfélag getum brugðist við. Það er auðvitað þægilegt að kenna einstökum foreldrum um allt og ekkert. Það léttir ábyrgðinni af okkur hinum. Okkur líður betur ef við trúum því að ekkert sé að samfélagi okkar, heldur megi kenna einstökum ,,gölluðum eintökum” um vandann.

Sagan, reynslan og rannsóknir kenna okkur hins vegar að einstaklingurinn er afsprengi þess samfélags sem hann elst upp við. Því er nauðsynlegt að tekist sé á við alvarlega vanda, eins og einelti, með samfélagslegum aðgerðum. Því hlýtur spurningin að vera: ,,Hvað er það í umhverfi og samfélagi barna sem veldur því að einelti á sér stað?”

Skólinn – samfélag barna
Það er staðreynd að í skólum landsins, þessu stærsta samfélagi barna, er nánast ekkert lagt upp úr því að kenna börnum mannlega samskiptahæfileika. Hvernig þau eiga að umgangast annað fólk, hvernig þau eiga að tjá sig, hvernig þau eiga að hlusta á aðra og bera virðingu fyrir öðrum. Þetta hlýtur að teljast meira en lítið undarlegt. Sérstaklega í ljósi þess að það er yfirlýst stefna grunnskólans, samkvæmt grunnskólalögum, að undirbúa börn ,,undir líf og starf í lýðræðisþjóðfélagi.”

Hvað getur hugsanlega undirbúið börn undir líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi betur en vönduð kennsla í mannlegum samskiptum? Þar sem nánast engin slík kennsla fyrirfinnst í skólakerfinu virðist vera sem menntamálayfirvöldum þyki kennsla í algebru, dönsku, kristinfræðslu og utanbókar ljóðalærdómur mikilvægari en kennsla í samskiptahæfileikum þegar kemur að því að undirbúa ungt fólk undir að takast á við lífið.

Ég ætla að kasta fram þeirri kenningu að orsök eineltis sé fyrst og fremst feimni, skortur á samskiptahæfileikum og almennt agaleysi. Ég ætla í framhaldi af því að kasta fram annarri kenningu. Þeirri að þar sem nánast ekkert sé skipulega gert til að kenna börnum samskiptahæfileika og viðhalda aga í skólum sé einelti eðlileg og sjálfsögð afleiðing skólakerfisins.

En er þetta ekki mál foreldra og uppalenda?
Nú veit ég að margir spyrja: ,,Já en eiga ekki foreldrar að sjá um að kenna börnum sínum aga og mannleg samskipti?”

Svarið við þeirri spurningu er auðvitað jú. Það væri óskandi ef foreldrar gætu séð um að kenna börnum sínum allt sem þau þurfa á að halda til að takast á við lífið. Flestir þeirra geta það hins vegar ekki.

Ástæðurnar eru margar, þó einkum tvær. Í fyrsta lagi hafa ekki allir foreldrar tíma til að kenna börnum þessa hluti, til dæmis vegna mikils vinnuálags. Í öðru lagi skortir þá oft þekkingu til að miðla þessum hæfileikum til barna sinna. Kennsla í mannlegum samskiptum krefst mikillar þekkingar og tíma, ekki síður en kennsla í stærðfræði eða tungumálum. Þetta gleymist oft, eða fólk álítur að allt sem tengist mannlegum samskiptum séu meðfæddir eiginleikar. Það er hins vegar ekki rétt. Ef eitthvað er, þá er flóknara að kenna samskiptahæfileika en t.d. stærðfræði og það tekur líklegast einnig meiri tíma.

Menntastofnanir eru því kjörinn vettvangur fyrir slíka þjálfun og fræðslu. Það er þó að sjálfsögðu ekki við kennara að sakast. Einfaldlega vegna þess að kennarar fá ekki úthlutaðan tíma, né kennslugögn til að takast á við þetta mikilvæga viðfangsefni. Þar að auki er þjálfun kennara í samskiptahæfileikum, í því hvernig á að halda uppi aga í skólastofu og hvernig á að koma fram við börn vægast sagt af skornum skammti.

Gallað skólakerfi
Skólakerfið er beinlínis gallað, jafnvel stórgallað. Ef það á að berjast gegn einelti, og ekki bara einelti, heldur ofbeldi almennt, agaleysi, áhugaleysi nemenda og áfengis- og fíkniefnavanda barna og unglinga verður að gera stórtækar breytingar. Hvorki átök, heimildarmyndir eða einstakir fyrirlestrar eru raunhæfar langtímalausnir.

Ég hef aldrei verið fyrir að finna einstaka blóraböggla til að varpa skuldinni á. Einelti er ekki kennurum, gerendum, skólastjórnendum eða skólastjórum að kenna. Ekki persónulega (nema í slæmum undantekningatilvikum). Einelti er eðlileg afleiðing þess umhverfis sem við setjum börnin okkar í. Ef við setjum tugi og jafnvel hundruð barna á sama stað, stóran hluta úr degi þeirra, án þess að kenna þeim samskiptahæfileika og aga er einelti ekki aðeins eðlileg, heldur jafnvel nauðsynleg afleiðing þess. Þetta er rót vandans.

*Þessi grein var einnig birt í Morgunblaðinu þann 23. maí 2003. (Aðeins fjórum dögum eftir að hún var send á blaðið)

Hver er þín skoðun?

athugasemdir

6 Responses to Orsök eineltis

 1. María 27. 6. 2003 at 4:03 am #

  Góðan dag!
  Ég er ekki viss um að rétt lausnin sé að hefja kennslu um mannleg samskipti í grunnskólum. Ég er í vafa um að aðalorsakir eineltis sé skortur á færni í samskiptahæfileikum. Ég held frekar að gerendurnir vita ósköp vel um afleiðingar eineltis og að það sé rangt að láta öðrum líða illa en þeir kjósa að gleyma þessum “upplýsingum” sér til framdráttar t.d. í þeirri vona að virka “cool” í augum annarra.
  Þetta er nákvæmlega sama dæmið og með forvarnir: Í mínum bekk (frá því í byrjun 8. bekkjar) hafa verið allavega fimm fyrirlestrar um forvarnir og við vorum í þemaviku um skaðsemi reykinga í 10. bekk. SAMT er stór hluti bekkjarins sem reykir og drekkur, það fer enginn að segja mér að krakkarnir viti ekki um skaðsemi reykinga! Eftir allan þennan forvarnar “pakka” sem við erum búin að fara í er krökkunum ekki viðbjargandi ef þau reykja enn og drekka. Því miður held ég að það sama verði upp á teningnum í sambandi við forvarnir gegn einelti.
  Hins vegar fyndist mér betri lausn að hefja átak í að virkja bekkina sem heild. Með það markmið að ef einhver nemandanna byrjar með einhverja stríðni þá láti hinir það skýrt í ljós að þetta sé ekki liðið og standi með fórnarlambinu. Af því einelti þrífst ekki þar sem meirihlutinn er andvígur.
  Baráttukveðja!!!
  María Gunnarsdóttir

 2. Sigurður Hólm Gunnarsson 27. 6. 2003 at 8:13 am #

  Sæl María.

  Þú segir m.a.:
  ,,Ég er ekki viss um að rétt lausnin sé að hefja kennslu um mannleg samskipti í grunnskólum. Ég er í vafa um að aðalorsakir eineltis sé skortur á færni í samskiptahæfileikum… Þetta er nákvæmlega sama dæmið og með forvarnir: Í mínum bekk (frá því í byrjun 8. bekkjar) hafa verið allavega fimm fyrirlestrar um forvarnir og við vorum í þemaviku um skaðsemi reykinga í 10. bekk. SAMT er stór hluti bekkjarins sem reykir og drekkur, það fer enginn að segja mér að krakkarnir viti ekki um skaðsemi reykinga! Eftir allan þennan forvarnar “pakka” sem við erum búin að fara í er krökkunum ekki viðbjargandi ef þau reykja enn og drekka. Því miður held ég að það sama verði upp á teningnum í sambandi við forvarnir gegn einelti.”

  Hér held ég að þú hljótir að hafa misskilið megininntak greinar minnar þar sem að ég á alls ekki við hefðbundnar forvarnir, þemavikur, fyrirlestra o.s.frv. þegar ég fjalla um kennslu í mannlegum samskiptahæfileikum. Ég veit fullvel að slíkur áróður hefur takmörkuð áhrif. Rannsóknir hafa einfaldlega sýnt að svo er.

  Skipuleg kennsla í mannlegum samskiptahæfileikum hefur aldrei verið reynd að neinu marki í ríkisreknum grunnskólum svo ég viti til. Það sé ég á við með mannlegum samskiptahæfileikum er þetta:

  Það þarf að kenna börnum að bera umhyggju hvert fyrir öðru (siðfræði), að hvetja þau til þess að leita sannleikans með því að hugsa sjálfstætt og um leið að vera gagnrýnið á eigin skoðanir (rökhugsun) og að hjálpa þeim til þess að geta tjáð skoðanir sínar og hugsanir á fimlegan og röklegan hátt jafnt sem hlustað á skoðanir annarra (tjáning).

  Þetta verður ekki gert með þemavikum heldur ítarlegri og skipulagðri kennslu alla skólagönguna.

  Þegar börn eru óörugg, óframfærin, feimin og eiga erfitt með að tjá sig er besta leiðin til að komast inn í hópinn eða öðlast ,,virðingu” jafnaldra oft sú að beita aðra líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi. Það er mjög mikilvægt að vera ,,cool” eða vera viðurkenndur af jafningjum. Þegar börn fá nánast enga þjálfun í því að tjá sig og koma fram við hvort annað er einelti oft eðlileg afleiðing.

  Það nákvæmlega sama hrjáir stefnu yfirvalda og skólayfirvalda í áfengis og fíkniefnamálum ungs fólks. Peningum er eytt í fyrirlestra, plaggöt, penna og barmmerki þar sem krakkar eru hvattir til að segja ,,nei við fíkniefnadjöfulinn” o.s.frv. Þetta er gert þrátt fyrir að vitað sé að krakkar eru fæstir heimskir. Þeir vita fullvel að áfengs- og vímuefnaneysla geti reynst stórhættuleg.

  Það er ekki fáfræði barna og unglinga um vímuefni eða hrikalegar afleiðingar eineltis sem er vandamálið. Vandinn felst í vanhæfni þeirra til að takast á við lífið og umhverfi sitt. Skort á getu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og í mörgum tilfellum eru börn hreinlega vonlítil um lífið og framtíðina.

  ,,Hins vegar fyndist mér betri lausn að hefja átak í að virkja bekkina sem heild. Með það markmið að ef einhver nemandanna byrjar með einhverja stríðni þá láti hinir það skýrt í ljós að þetta sé ekki liðið og standi með fórnarlambinu. Af því einelti þrífst ekki þar sem meirihlutinn er andvígur.

  Þetta er einmitt það sem ég berst fyrir! Að samkennd, rökhugsun og tjáningarhæfni barna og unglinga sé efld í skólastarfi. Þannig næst árangur. Ekki með slagorðum, barmmerkjum og plagggötum.

  ______

  Að lokum langar mig til að deila með þér kafla úr menntastefnu sem ég skrifaði í maí-júní 1998. Stefnan er nokkrir tugir blaðsíðna á lengd og því birti ég hana ekki alla hér. Neðangreindur kafli um vímuefnaneyslu, einelti og reykingar á þó vel við og útskýrir afstöðu mína nokkuð vel:

  Þrálát vandamál leyst með nýju skólakerfi
  Áfengis og vímuefnanotkun, reykingar, einelti (andlegt og líkamlegt ofbeldi) og áhrifagirni eru meðal annars hættur sem steðja að ungu fólki í dag og orsök margvíslegs vanlíðan. Þessu gera sífellt fleiri sér grein fyrir þar sem umræður um þessi vandamál hafa verið algengar í okkar þjóðfélagi, enda ekki vanþörf á. Þessi vandamál hafa reynst þrálát og þrátt fyrir háleit markmið góðra manna um að útrýma þeim hefur það ekki tekist og mun ekki takast nema rótækari aðferðum verði beitt.

  Allt á sér sína orsök og afleiðingu og ef við höldum áfram að bregðast rangt við þessu einfalda náttúrulögmáli þá munum við litlu sem engu áorka í baráttu okkar við fyrrnefnd vandamál.

  Baráttan við vímuefnin
  Hvers vegna gengur okkur svona illa að berjast við vímuefnavandann? Er það vegna þess að hann er ósigrandi andstæðingur? Nei, það er fyrst og fremst vegna þess að við erum ekki að nota þær aðferðir sem eru líklegar til þess að sigrast á honum!

  Í dag beitum við fyrst og fremst tveim úrræðum: löggæslu og forvörnum. Með hertri löggæslu og þar með tollgæslu er reynt að hindra dreifingu fíkniefna annars vegar og innflutning þeirra hins vegar. Þessar aðgerðir gera því miður lítið gagn þar sem gróðavonin á vímuefnasölu og innflutningi á vímuefnum er það mikil að alltaf eru einhverjir einstaklingar til í að taka þá áhættu að verða handsamaðir. Það skiptir litlu máli hve margir eiturlyfjasalar eru handteknir og hve harða dóma þeir fá, alltaf koma nýir menn og halda áfram starfseminni. Þar komum við að hinu úrræðinu sem er forvarnir. Menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að ef það á að koma í veg fyrir innflutning og sölu á vímuefnum að þá verður að eyða markaðinum, það er að koma í veg fyrir að fólk vilji kaupa eiturlyfin til að byrja með. Það er ef við komum í veg fyrir orsökina þá verður engin afleiðing.

  Markmið forvarna er því að eyða eftirspurninni eftir vímuefnunum! Þetta markmið hefur greinilega ekki náðst og mun ekki náðst ef forvarnir halda áfram í þeirri mynd sem þær eru í nú. Hræðsluáróður virkar mjög takmarkað vegna þess að flestir vita nú þegar að vímuefni eru hættuleg bæði andlegri og líkamlegri heilsu en samt heldur fólk áfram að neyta þeirra. Áróður sem beinist að skynsemi manna er eðli sínu samkvæmt mun skynsamlegri leið til þess að halda ungu fólki frá fíkniefnum.

  Áróður og fræðsla um fíkniefnin og afleiðingar þeirra er hins vegar engan veginn nóg til þess að koma í veg fyrir neyslu þeirra. Það er, í flestum tilvikum, ekki vegna vanþekkingar á eiturlyfjunum sem fólk neytir þeirra heldur er það öllu frekar vegna félagslegs vanþroska þeirra. Með félagslegum vanþroska meinum við óöryggi, lítið sjálfstraust, feimni og/eða aðrar vanlíðunartilfinningar sem eru gríðarlega algengar hjá ungu fólki. Þegar svona er komið fyrir fólki þá brýst eðlilega út þörf hjá því til þess að losna við þessar vanmáttartilfinningar og verða þá oft, því miður, áfengi og önnur vímuefni fyrir valinu sem lausn á vandamálinu eða sem einhverskonar veruleikaflótti.

  Vandamálið er því í raun ekki að finna í vímuefnunum sjálfum né, að neinum stórum hluta, í vanþekkingu á þeim, heldur í félagslegum vanþroska þeirra sem freistast til þess að neyta þeirra. Því hlýtur það að vera skylda okkar (samfélagsins) að byggja upp mannúðlegt skólakerfi, eins og hér hefur verið skrifað um, sem kennir og hjálpar börnum okkar að takast á við lífið á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.

  Við fullyrðum hér með að Ísland verður ekki vímuefnalaust árið 2002, ekki frekar en það verður friður á Jörðu árið 2000, og í raun fullyrðum við að Ísland verður aldrei laust við vímuefnin með þeim aðferðum sem notaðar eru í dag. Ef við leggjum ekki áherslu á að kenna einstaklingnum að takast á við lífið með því að kenna honum siðfræði, rökhugsun og tjáningu eða mannleg samskipti, þá getum við alveg eins verið að moka sandi í botnlausa fötu.

  Einelti, ofbeldi, fordómar
  Einelti er andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi sem margir verða því miður fyrir í gegnum skólagöngu sína. Að lenda í einelti getur verið allt frá því að vera smávægileg en óþægileg reynsla til þess að vera hræðileg lífsreynsla sem hefur áhrif á þolandann það sem eftir er ævi hans.

  Ástæðu eineltis í grunnskólum má rekja til þeirra félagslegu vandamála sem nefnd voru í kaflanum hér fyrir ofan. Svo lengi sem börn eru óörugg og feimin og fá litla sem enga skipulagða kennslu í því hvernig þau eiga að koma fram við hvort annað, þá er einelti því miður aðeins rökrétt afleiðing. Í skóla þar sem stór hluti hvers einasta dags fer í skipulagðar umræður þar sem börn læra að hugsa rökrétt og hvernig á að koma fram við hvort annað þrífst ekki einelti, fordómar eða annað ofbeldi.

  Varast ber að vanmeta það andlega tjón sem margir verða fyrir vegna eineltis. Það er löngu komin tími til þess að bregðast við af hörku gegn því böli sem einelti er. Auglýsingar, slagorð, örfáir þemadagar og endalaus nefndaseta gera lítið til þess að útrýma einelti. Skipulögð og samfelld kennsla um mannleg samskipti er okkar eini raunhæfi möguleiki gegn einelti!!!

  Reykingar
  Helsta ástæða þess að ungt fólk á grunnskólaaldri byrjar að reykja er ekki vegna þess að þau vita ekki hvað reykingar geta verið hættulegar og ekki er það heldur vegna þess að þau halda að það sé svo gott að reykja heldur er ástæðan enn og aftur félagslegum vanþroska þeirra að kenna. Ungt fólk veit fullvel að reykingar og önnur fíkniefni eru hættuleg, samt reykir stór hluti þeirra og margir a.m.k. prufa vímuefni. Hvað segir þetta okkur annað en það að við þurfum að leggja áherslu á að hjálpa börnum okkar að verða að sjálfstæðum og bjartsýnum einstaklingum en ekki hluta af ráðvilltum og stefnulausum hópi.

  Vörn gegn áhrifagirni
  Áhrifagirni er þegar einstaklingur lætur annan einstakling eða hóp manna hafa, gagnrýnislaust, áhrif á skoðanir sínar og aðgerðir. Því er oft talað um að einhver hafi leiðst út í „vitleysu” vegna hópþrýstings eða slæms félagsskapar. Stundum er einnig talað um það að börn og unglingar verði fyrir slæmum áhrifum frá fjölmiðlum (aðallega sjónvarpi og tölvuleikjum) þannig er t.d. talið að ofbeldishneigð þeirra aukist vegna þess hve ofbeldi (sem oft er gert réttlætanlegt) er ríkur þáttur í fjölmiðlum. Einnig er talið að reykingar meðal ungmenna aukist vegna þess hve þær eru gerðar „cool” í mörgum kvikmyndum, og svo mætti lengi telja.

  Eina raunhæfa leiðin til þess að draga úr slíkri áhrifagirni einstaklingsins er að styrkja hann. Ef við þjálfum einstaklingin til að hugsa allt út frá siðferðilegum og röklegum forsendum og skoða allt sem fyrir hann kemur með opnu en gagnrýnu hugarfari, þá verður hann sjálfkrafa ónæmur fyrir óskynsamlegum áreitum.

  Það að kenna börnum að bregðast af skynsemi við þeim fjölmörgu umhverfisáreitum sem þau verða fyrir á degi hverjum er án efa einn sá besti undirbúningur sem við getum gefið þeim undir það að lifa og starfa í, sífellt fjölbreyttara og flóknara, upplýsingasamfélagi.

  Tekið úr ,,Menntun með markmið” 1998, Sigurður Hólm Gunnarsson.

 3. Sigurður Hólm Gunnarsson 16. 7. 2003 at 1:55 am #

  Til Maríu
  „EN það eru örugglega nokkur ár þangað til sá draumur verður að veruleika. Það þarf því miður mikið til þess að sannfæra æðri yfirvöld um að það sé besti kosturinn.“

  Þessu er ég sammála. Þess vegna er mikilvægt að sem flestir þrýsti á yfirvöld til að breyta um áherslur í menntun. Það ætti að vera hverjum þeim, sem á annað borð nennir að hugsa um það, ljóst að menntun í mannlegum samskiptum, rökhugsun og sjálfstæðum vinnubrögðum er einhver sú besta og gagnlegasta menntun sem hver maður getur fengið.

  Slík menntun hefði ekki aðeins þau áhrif að draga úr einelti, ótímabærri vímuefnaneyslu og öðrum þeim vandamálum sem plaga ungt fólk, heldur hefði hún einnig mun víðtækari áhrif. Einstaklingur sem kann að tjá sig, hlusta á aðra, er umburðarlyndur og veit hvernig hann á að vega og mata allan þann fjölda af upplýsingum sem hann verður fyrir á hverjum degi, yrði einfaldlega betri þjóðfélagsþegn í víðum skilningi.

  Það þarf ekki að hugsa lengi um það til að átta sig á því að slík menntun hlýtur að vera mikilvægari en til dæmis menntun í flókinni algebru, dönsku eða utanaðbókar ljóðalestri svo eitthvað sé nefnt.

  Stjórnmálamenn, og þar með yfirvöld, eru hins vegar, því miður, ginkeypt fyrir skynilausnum. Áróðri, auglýsingum, barmmerkjum og hvers kyns „átökum”.

  Það er því okkar hlutverk að hvetja stjórnmálamenn og yfirvöld til að hugsa sinn gang og byggja upp skólakerfi sem skilar árangri. Ekki satt?

  Kær kveðja
  Siggi

 4. María 16. 7. 2003 at 12:07 pm #

  Já, ég misskildi þetta. Ég er alveg sammála þér að það ætti að byrja skipulega kennslu um mannlega samskiptahæfileika um leið og krakkar fara í 1. bekk EN það eru örugglega nokkur ár þanngað til sá draumur verður að veruleika. Það þarf því miður mikið til þess að sannfæra æðri yfirvöld um að það sé besti kosturinn. En ég meina; þegar krakkar eru að baktala aðra krakka út af því þeir ganga í gömlum fötum þá er nú bara eitthvað meira en lítið að (ég veit um eitt svoleiðis dæmi). Meira að segja krakkarnir eru að fara í 10. bekk en þeir eru samt að tala um að ákveðin stelpan gangi í fötum af mömmu sinni, sé alltaf í sömu fötunum og fötin hennar séu aldrei þvegin og þar fram eftir götunum. Mér finnst þetta er virkilega sorglegt.
  En persónulega finnst mér að allar þær greinar sem samræmd próf taka ekki tillit til, verði útundan í skólastarfinu. T.d. í 10. bekk hjá mér þá þurfti að breyta einum íþróttatíma í stærðfræðitíma út af þessum hel****s prófum. En aðeins einn 40 mínútna tími á viku í 10 ár í mannlegum samskiptum gæti samt bjargað miklu. Meira að segja svo miklu að grunnskólanemendur sem annars hefðu minna sjálfstraust myndi segja “nei” við fíkniefnum og myndu þar af leiðandi standa sig betur í lífinu. Þá væri það algjörlega þess virði að fórna einum stærðfræðitíma á viku.

 5. Katla 28. 9. 2003 at 8:18 am #

  Mig langar að segja nokkur orð. Ég er kennari og mér finnst það mjög sárt þegar sífellt er verið að tönglast á því að við gerum ekkert til að koma í veg fyrir einelti. Við sýnum nemendum enga virðingu o.s.frv. Í mínum skóla erum við sífellt að áminna börn að ekki vera að slást og gera hitt og minnum þau á að tala fallega til hvors annars. Svörin sem fáum frá þeim eru öll þau sömu: „Við erum bara að djóka, ég meina ekkert með þessu. Við erum bara að leika okkur“ En viðhöldum samt áfram. Ef alvarlegar barsmíðar eiga sér stað á skólalóðinni, er viðkomandi sendur heim og foreldrar mæti með nemanda daginn eftir og í framhaldi af því sendur ýmist til sálfræðings eða námsráðgjafa (sem sinnir mörgum hliðum námsins öðrum en það sem nafnir gefur til kynna). Sturtuklefar eru vaktaðir, leikfimisklefar, frímínútur, gangar, matsalur o.fl. Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að einelti eigi sér stað. Í flestum tilfellum þegar foreldrar ræða um einelti á það sér stað utan skólatíma, um helgar og á kvöldin, í fríum þar sem skólans hefur ekkert með þetta að gera. Við getum ekki tekið á þeim málum.
  Mig langar að vitna í þín eigin orð:„Það þarf að kenna börnum að bera umhyggju hvert fyrir öðru (siðfræði), að hvetja þau til þess að leita sannleikans með því að hugsa sjálfstætt og um leið að vera gagnrýnið á eigin skoðanir (rökhugsun) og að hjálpa þeim til þess að geta tjáð skoðanir sínar og hugsanir á fimlegan og röklegan hátt jafnt sem hlustað á skoðanir annarra (tjáning).“ Í framhaldi af þessu langar mig að spurja þig, hvað er langt síðan að þú hefur komið inn í skólastofu? Ég get ekki svarað fyrir alla kennara en flesta veit ég að þetta er það sem fer fram í kennslustofunni. Nemendur eiga að vera gagnrýnir á námsefnið, koma með sínar skoðanir og hugsanir. Þau eiga að hlusta á samnemendur sína og þar fram eftir götunum. Hvað varðar umhyggju get ég ekki séð að það sé í okkar verkahring, það verður að koma að heiman. Þó svo að ekkert fag heitir Mannleg samskipti, en þá er skólinn staður sem þetta er kennt. Samfélagið er einnig staður sem þetta er kennt, og síðast en ekki síst heimilið.
  Líttu í kringum þig og sjáðu hvað fólk er gjörsamlega alveg sama um það sem gerist í kringum sig, afskiptaleysi. Þegar krakkar eru að rífast út á götu, kasta grjótum ofl. gengur hinn almenni vegfarandi framhjá, kannski lætur þá vita að passa sig á bílunum, þeir gætu rispast, og lítur svo á að þeir séu að leika sér. Á göngum skólans ef nemandi kastar tösku upp að vegg og annar situr rétt hjá, er viðkomandi nemandi tekinn og minntur á að svona gerir maður ekki, hann verði að líta í kringum sig og taka tillit til þess að það séu aðrir á staðnum og hann geti ekki hagað sér eins og honum sýnist.
  Við kennum okkar nemendur mannlega samskipti og í sumum tilfellum foreldrum þeirra, við heilsum þeim stundum með handabandi, við gleðjust með þeim, tökum þátt í sorgum þeirra, ræðum við þau um unglingsárin, líðan og nemendur taka virkan þátt í þessu með okkur.
  Því miður náum við ekki til allra og ég veit að sumir nemendur eru lagðir í einelti, gerendurnir passa sig á því að gera það ekki í skólanum, því þeir komast ekki upp með það þar.
  Elsku Sigurður, ég var sjálf lögð í einelti og ber þess enn bætur, ég mun eflaust aldrei komast yfir það, en ég er ekki sammála að það sé endilega skólinn sem er valdurinn af einelti, ég sætti mig ekki við að hafa þann stimpil á mér, að ég taki ekki á einelti af því ég er kennari. Ég veit ekki hver orsökin eru, en mér hefur fundist þetta vera snjóbolti, keðjuverkandi, skólinn, heimilið, samfélagið, þjóðfélagið, þú og ég. Það er ódýr lausn að benda á einn ekki nema á sjálfan sig og spurja hvað ætla ég að gera til að koma í veg fyrir þetta. Um þetta ræði ég mikið við nemendur mína og fleiri kennara, að nemendur taki ákvörðun og hugsi meira hvað get ég gert til að…
  P.S
  Við sáum þáttinn Einelti-helvíti á jörð. Það sem stuðaði þau mest var stelpan sem hljóp á eftir þér og sagði að þu værir aumingi. Þau áttu ekki til orð yfir ósvífninni í „bitchinni“ eins og þau orða það. En myndabandið vakti mikla umræðu, takk fyrir.
  kveðja
  Kennarinn sem var sjálfur lagður í einelti!

 6. Sigurður Hólm Gunnarsson 28. 9. 2003 at 9:45 am #

  Sæl Katla,

  Það er enginn að kenna kennurum um einelti í skólum. Það sem ég hef bent á er að kennslu í mannlegum samskiptum er ábótavant í skólum. Börnum er ekki skipulega kennt að tjá sig. Í greininni segi ég:

  “Ég hef aldrei verið fyrir að finna einstaka blóraböggla til að varpa skuldinni á. Einelti er ekki kennurum, gerendum, skólastjórnendum eða skólastjórum að kenna. Ekki persónulega (nema í slæmum undantekningatilvikum). Einelti er eðlileg afleiðing þess umhverfis sem við setjum börnin okkar í. Ef við setjum tugi og jafnvel hundruð barna á sama stað, stóran hluta úr degi þeirra, án þess að kenna þeim samskiptahæfileika og aga er einelti ekki aðeins eðlileg, heldur jafnvel nauðsynleg afleiðing þess. Þetta er rót vandans.”

  Hvenær ég var sjálfur í skóla skiptir ekki miklu máli. Ég hef fylgst með þróun skólamála frá því ég hætti sjálfur í grunnskóla. Hef verið í miklu sambandi við kennara, kynnt mér námsefni grunnskóla og fyrir tæpu ári starfaði ég sem stuðningsfulltrúi og kynntist þar vel skólastarfi að eigin raun. Auk þess hef ég ekki tölu á því hve margir krakkar sem eru í grunnskóla (eða eru nýútskrifaðir) hafa haft samband við mig til að taka undir það með mér hve lítil áhersla er lögð á samskiptahæfileika í skólum.

  Þegar ég tala um að kenna samskiptahæfileika er ég alls ekki að tala um “að áminna börn að ekki vera að slást og gera hitt og minnum þau á að tala fallega til hvors annars.” Samskiptahæfileika þarf að kenna og þjálfa börn í að nota þá. Stærðfræði og íslenskukennsla felst ekki í því fyrst og fremst að “áminna” börn að bera góð í íslensku og stærðfræði. Ég vil að samskipti verði litin jafn alvarlegum augum og stærðfræði og íslenska.

  Annað sem þú nefnir eru viðbrögð við einelti og öðru ofbeldi en ekki forvarnir. Ég veit fullvel að kennarar skamma börn, senda þau til sálfræðings/námsráðgjafa o.s.frv. ef þau eru staðin að því að stunda ofbeldi. Ef þú lest greinar mínar um skólamál sérðu að ég á alls ekki við þetta. Ég er ekki að ræða um viðbrögðin við einelti í skólum, heldur grundvallar uppbyggingu skólakerfisins sem ég tel að ósjálfrátt skapi umhverfi sem einelti þrífst í.

  “Ef við setjum tugi og jafnvel hundruð barna á sama stað, stóran hluta úr degi þeirra, án þess að kenna þeim samskiptahæfileika og aga er einelti ekki aðeins eðlileg, heldur jafnvel nauðsynleg afleiðing þess.”

  “Ég get ekki svarað fyrir alla kennara en flesta veit ég að þetta er það sem fer fram í kennslustofunni. Nemendur eiga að vera gagnrýnir á námsefnið, koma með sínar skoðanir og hugsanir. Þau eiga að hlusta á samnemendur sína og þar fram eftir götunum.”

  Nemendur læra ekki skipulega gagnrýna hugsun. Ef einhverjir kennarar kenna nemendum sínum gagnrýna hugsun er það aðdáunarvert. Þegar gagnrýnin hugsun verður orðið skyldunámsfag með vönduðu kennsluefni verð ég ánægður.

  “Hvað varðar umhyggju get ég ekki séð að það sé í okkar verkahring, það verður að koma að heiman. Þó svo að ekkert fag heitir Mannleg samskipti, en þá er skólinn staður sem þetta er kennt.”

  Þar er ég ósammála þér. Mannleg samskipti og umhyggja á að mínu mati einmitt heima í skólum. Skólinn er ekki bara fræðslumiðstöð þar sem börn eru látin læra upplýsingar utanað, heldur er skólinn samfélag barna. Kjörinn staður til að kenna börnum mannleg samskipti.

  “Líttu í kringum þig og sjáðu hvað fólk er gjörsamlega alveg sama um það sem gerist í kringum sig, afskiptaleysi.”

  Sammála, notum þá skólakerfið til að ala upp nýja kynslóð einstaklinga, sem kann að hugsa rökrétt, tjá sig og bera virðingu fyrir náunganum.

  “Við kennum okkar nemendur mannlega samskipti og í sumum tilfellum foreldrum þeirra, við heilsum þeim stundum með handabandi, við gleðjust með þeim, tökum þátt í sorgum þeirra, ræðum við þau um unglingsárin, líðan og nemendur taka virkan þátt í þessu með okkur.”

  Þetta er almenn kurteisi sem ég styð heilshugar, en ekki sú skipulega þjálfun í mannlegum samskiptum sem ég legg til.

  “…ég sætti mig ekki við að hafa þann stimpil á mér, að ég taki ekki á einelti af því ég er kennari. Ég veit ekki hver orsökin eru, en mér hefur fundist þetta vera snjóbolti, keðjuverkandi, skólinn, heimilið, samfélagið, þjóðfélagið, þú og ég. Það er ódýr lausn að benda á einn ekki nema á sjálfan sig og spurja hvað ætla ég að gera til að koma í veg fyrir þetta.”

  Nei, það skil ég. Enda hef ég aldrei kennt kennurum persónulega um einelti. “Einelti er ekki kennurum, gerendum, skólastjórnendum eða skólastjórum að kenna.” Ég hef hins vegar gagnrýnt skólakerfið og mun gera það áfram. ” Einelti er eðlileg afleiðing þess umhverfis sem við setjum börnin okkar í.” Ef við kennum ekki mannlega samskiptahæfileika er einelti eðlileg afleiðing. Þar til skólakerfinu verður breytt, mun ég halda áfram að gagnrýna það. Því það er sannfæring mín að hægt sé að koma í veg fyrir mikla eymd með réttum breytingum.

  “P.S
  Við sáum þáttinn Einelti-helvíti á jörð. Það sem stuðaði þau mest var stelpan sem hljóp á eftir þér og sagði að þu værir aumingi. Þau áttu ekki til orð yfir ósvífninni í „bitchinni“ eins og þau orða það. En myndabandið vakti mikla umræðu, takk fyrir.”

  Gott að heyra að myndbandið hafi vakið umræðu. Þú mátt láta börnin vita að ég ber ekki neinn kala til umræddrar stelpu, enda verður henni persónulega ekki einni kennt um hvernig fór. Við erum öll háð umhverfi okkar og aðstæðum og því þarf að leggja áherslu á að breyta þessum utanaðkomandi þáttum, en ekki finna einstaka blóraböggla.

  Kærar þakkir fyrir umræðuna,
  Sigurður Hólm Gunnarsson

Rita athugasemd

Um höfund

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar er fæddur 1976 í Reykjavík. Sigurður er iðjuþjálfi, starfar sem forstöðumaður á skammtímaheimili fyrir unglinga í Reykjavík og situr í stjórn Siðmenntar – félags siðrænna húmanista á Íslandi.

Netfang: siggi@skodun.is

Sigurður stofnaði vefritið Skoðun þann 23. júní 1999.

, ,