Fóstureyðingar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/04/2002

16. 4. 2002

Frjálshyggjumenn á vefnum standa nú í áhugaverðum rökræðum um hvort leyfa eigi fóstureyðingar eða ekki. Eins og oft virðist eiga við um frjálshyggjumenn ráða öfgasjónarmið ferðum. Björgvin Guðmundsson, formaður Heimdallar, telur fóstureyðingar alltaf réttlætanlegar enda getur fóstur ómögulega lifað sjálfstæðu lífi án móður. Því telur Björgvin að fóstrið eigi ekki sjálfstæðan rétt til lífs. Lýður […]

Frjálshyggjumenn á vefnum standa nú í áhugaverðum rökræðum um hvort leyfa eigi fóstureyðingar eða ekki. Eins og oft virðist eiga við um frjálshyggjumenn ráða öfgasjónarmið ferðum.

Björgvin Guðmundsson, formaður Heimdallar, telur fóstureyðingar alltaf réttlætanlegar enda getur fóstur ómögulega lifað sjálfstæðu lífi án móður. Því telur Björgvin að fóstrið eigi ekki sjálfstæðan rétt til lífs.

Lýður Þór er ósammála foringja sínum og bendir réttilega á að ,,sama mætti segja um 3 ára barn sem mundi deyja ef móðirin sæi ekki um það.“ Við þetta má bæta að fjölfatlað fólk og alvarlega þroskaheftar manneskjur geta ómögulega lifað án aðstoðar fjölskyldu og/eða samfélags. Hefur þetta fólk þá engan rétt til lífs?

Ég get þó ómögulega verið samála Lýð þegar hann segir að ,,barn verði til við getnað“. Hann telur því að fóstureyðingar séu aldrei réttlætanlegar, þó hann vilji sem betur fer ekki banna þær.

Ef barn verður til við getnað þá er alveg eins hægt að rökstyðja að í öllum sáðfrumum og öllum eggjum séu ,,verðandi einstaklingar“ og því sé það siðlaust að ,,drepa“ sáðfrumur og egg. Þá væri, eins og sumir trúarleiðtogar halda fram, siðlaust að nota getnaðarvarnir eða fróa sér.

Mannlegt líf felst í hugsun, skynjun og meðvitund
Hafa ber í huga að manneskja er ekki manneskja nema að hún hafi heila. Menn hljóta að vera almennt sammála að heildauð manneskja eða jafnvel heilalaus manneskja (í orðsins fyllstu merkingu) er ekki manneskja. Án virks heilavefjar er hugsun ekki til staðar og ef hugsun eða möguleikinn til að geta hugsað er ekki til staðar þá getum við ekki talað um mannlegt líf í neinum hefðbundnum skilningi.

Staðreyndin er sú að virkur heilavefur myndast ekki í fóstrum fyrr en á sjötta mánuði meðgöngu. Satt er að fóstrið hefur tekið á sig mannsmynd og lítur mjög ,,manneskjulega“ út en þar sem getan til að hugsa, finna til eða til meðvitundar er ekki til staðar þá getum við ekki sagt að fóstureyðing sem á sér stað fyrir þennan tíma sé morð. Ekki nema það sé morð að slökkva á öndunarvél sem heldur ,,lífi“ í heiladauðri manneskju.

Í nóvember árið 1999 átti ég í ritdeilum við ofangreindan Björgvin um sama mál. Þið getið lesið grein mína hér…

Deildu