D – flokkur ríkisafskipta?

skodun-2-0_logo_blatt-1200
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Ríkið skiptir sér af allt of mörgum málum. Trú og menningarneysla kemur t.a.m. ríkisvaldinu ekki við að mínu mati. Íhaldsmennirnir í Sjálfstæðisflokknum eru mér ósammála ef marka má þær ályktanir sem hafa verið lagðar fram til samþykktar á þingi flokksins sem hefst næstkomandi fimmtudag.


Ríkismenning
Einu sinni var ég nokkuð ánægður með Sjálfstæðismenn þegar þeir ályktuðu að selja ætti Rás 2 (Þó ég telji reyndar að sú ályktun hafi ekki gengið nógu langt). Nú virðast sjálfstæðismenn hafa breytt um skoðun. Í drögum að ályktun um menningarmál sem hefur verið lögð fram á landsfundi flokksins segir:

,,Hlúa þarf að þeim menningarstofnunum sem sátt er um að ríki og sveitarfélög standi að. Sérstaklega ber að styðja þær stofnanir sem varðveita og rækta þjóðararfinn.“

Enn fremur hreykja sjálfstæðismenn sér yfir þeim áhrifum sem flokkur þeirra hefur haft á menningarneyslu fólks. Því þeir telja að þeir viti betur hverskonar menning er Íslendingum æskileg:

,,Sjálfstæðisflokkurinn hefur síðastliðinn áratug haft pólitíska forystu um að móta þessa umgjörð í menntamálaráðuneytinu. Telur landsfundur að afar vel hafi til tekist og miklum árangri verið náð við endurbætur og uppbyggingu hins opinbera menningarstarfs. Um íslenskt menningarlíf leika nú straumar og stefnur víðs vegar að; það er í senn þjóðlegt og alþjóðlegt, eins og æskilegt er.“

Þeir sjálfstæðismenn sem sömdu þessa ályktun bera ekki meiri virðingu fyrir peningum hins vinnandi manns frekar en margir svokallaðir vinstri menn. Menningarelíta allra flokka virðist alltaf tilbúin að eyða peningum náunga síns í gæluverkefni:

,,Íslenska kvikmyndagerð og innlenda dagskrárgerð fyrir hljóðvarp og sjónvarp þarf að efla.“

Þetta fólk virðist hafa óþrjótandi löngun í að eyða meira af peningum mínum í uppáhalds listgreinar sínar:

,,Huga þarf að því hvort sú árangursríka stefna, sem mörkuð hefur verið um stuðning stjórnvalda við íslenska kvikmyndagerð, geti orðið fyrirmynd að stuðningi við aðrar listgreinar, svo sem myndlist.“

Þeir vilja meira og meira:

,,Stjórnvöld og samtök listamanna ættu að beita sér fyrir því að þróa [listahátíðir] frekar, til dæmis með alþjóðlegri íslenskri myndlistarhátíð á tveggja ára fresti.“

Þessar ályktanir frá sjálfstæðismönnum þurfa reyndar ekki að koma mikið á óvart. Því eins og almenningur veit þá er Björn Bjarnason menningarmálaráðherra ólmur í að eyða milljörðum af peningum okkar í tónlistarhús og aðra menningarstarfsemi um allt land.

Ríkistrú
Eins og fram kom í grein sem ég birti á þessum síðum síðastliðinn mánudag þá telja ýmsir sjálfstæðismenn einnig að þeir eigi að hafa áhrif á og jafnvel stjórna trúarlífi fólks. Þetta viðhorf endurspeglast í ályktun sjálfstæðismanna um réttarfars- og stjórnskipunarmál:

,,Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi kristinnar trúar fyrir íslenskt samfélag og vill að trúarleg og siðfræðileg gildi hennar verði kjölfestan í andlegu lífi þjóðarinnar.“

Síðan undirstrika þeir ánægju sína með núverandi tengsl ríkis og kirkju hér á landi:

,,Landsfundur Sjálfstæðisflokksins fagnar því sem gert hefur verið til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði þjóðkirkjunnar.“

Að stjórnmálamenn skuli sumir hverjir halda að þeir, eða ríkisvaldið, eigi að hafa vald til þess að hafa áhrif á eða jafnvel stjórna trúarlegum og siðfræðilegum gildum fólks er ótrúlegt á þessum tiltölulega upplýstu og frjálslyndu tímum. Í þessum málum, ólíkt menningarmálum, eru íhaldsmenn líklegast lang verstir.

Flokkur sem berst fyrir frelsi óskast
Hvenær mun einhver flokkur bjóða fram á Íslandi sem hefur skynsamlega skoðun á því hvert hlutverk ríkisvaldsins á að vera? Hvenær ætla stjórnmálamenn að átta sig á því að hlutverk ríkisvaldsins er að tryggja frelsi einstaklingsins, til skoðana og athafna, en ekki skerða það?

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka