Meira um Islam

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

07/09/2001

7. 9. 2001

„Not one of you is a believer until he loves for his brother what he loves for himself.“ Fourth Hadith of an-Nawawi 13 Íslendingar hafa mjög miklar ranghugmyndir um múslima og trúna á Islam. Ég held að mjög margir haldi að múslimar séu allir ofsatrúaðir brjálæðingar sem dundi sér helst við að framkvæma hryðjuverk, fara […]

„Not one of you is a believer until he loves for his brother what he loves for himself.“ Fourth Hadith of an-Nawawi 13

Íslendingar hafa mjög miklar ranghugmyndir um múslima og trúna á Islam. Ég held að mjög margir haldi að múslimar séu allir ofsatrúaðir brjálæðingar sem dundi sér helst við að framkvæma hryðjuverk, fara illa með konur og banna fólki að hugsa.


Ástæðan fyrir þessu er frekar einföld. Það er varla minnst á þennan trúarhóp í fjölmiðlum nema í tengslum við einhverskonar ofbeldi og kúgun. Þetta er sorglegt því trúin á Islam (sem táknar auðmýkt eða hlýðni) er mjög áhugaverð og nauðalík bæði kristni og trú gyðinga. Raunar eru öll þessi trúabrögð náskyld því þau eru byggð á því sama.

Nokkrar staðreyndir um Islam
1. Ólíkt kristnum þá trúa múslimar (múslimi þýðir nokkurn veginn „sá sem fer eftir vilja Guðs“) aðeins á einn guð, Allah (=hinn eini sanni Guð) en ekki þrjá eða þrjá í einum (faðirinn, sonurinn og heilagur andi). Allah er einn, hann á engin börn, maka eða jafningja.

2. Þeirra helga bók er Kóraninn (Qur’an) sem þeir telja að Múhameð (Muhammad) spámaður hafir skrifað niður beint eftir englinum Gabríel. Þeir telja að Múhameð sé síðasti spámaður Guðs hér á jörðu. Múslimar telja að í Kóraninum sé hið endanlega orð Guð. Kóraninn er algerlega laus við allar villur og breytingar af völdum manna eins og múslimar telja t.d. bækur Biblíunar vera fullar af. Múslimar segja að ólíkt Biblíunni séu engar þversagnir (sjá nokkrar þversagnir í Biblíunni) í Kóraninum. Önnur mikilvæg bók er The Hadith sem er einhvers konar samansafn af ummælum Múhameðs. Aðrar helgar bækur eru Torah, Psalms og Gospel.

3. Múslimar trúa, rétt eins og hinir kristnu á spámenn.
Þeirra helsti spámaður er Múhameð en í Kóraninum er minnst á alls 25 mismunandi spámenn og er þá flesta einnig að finna í Biblíunni. Þar á meðal eru Abraham, Nói, Móses og Jesú.

4. Samkvæmt trú múslima var Jesú alls ekki sonur Guðs eða guðlegur.
Múslimar trúa því hins vegar að Jesú hafi verið mjög mikilvægur spámaður og þeir trúa rétt eins og hinir kristnu að móðir hans, María, hafi verið hrein mey. Þeir trúa einnig að Jesú hafi lækna sjúka, framið mörg önnur kraftaverk og að hann sé enn á lífi. Múslimar telja þó ekki að Jesú hafi verið krossfestur heldur trúa þeir því að Guð hafi bjargað Jesú og lift honum upp til himna áður en óvinir hans náðu honum. Samkvæmt trú múslima mun Jesú stíga aftur niður til jarðar áður en það kemur að dómsdegi.

5. Rétt eins og kristnir þá trúa múslimar:
a) á tilvist djöfulsins
b) á sköpunina, Adam og Evu
c) himnaríki og helvíti
d) að þeir komist til himna ef þeir trúa á Guð og framkvæmi góðverk

6. Allt kynþáttahatur er bannað samkvæmt islamskri trú.

Það er bókstafstrúin sem er hættuleg
Auðvitað eru bókstafstrúaðir múslimar stórhættulegir. En sama má segja um bókstafstrúað kristið fólk eða bókstafstrúaða gyðinga. Ef þeir sem kalla sig kristna hér á landi færu nákvæmlega eftir bókstaf Biblíunnar rétt eins og Talíbanar í Afganistan fara eftir bókstaf Kóransins væri hér Helvíti á Jörðu. Svo einfalt er það nú.

Það fer alveg ákaflega í taugarnar á mér þegar kristið fólk (eða fólk sem telur sig vera kristið) er að hneykslast yfir því hvað Islam sé villimannleg trú. Staðreyndin er sú að í fyrsta lagi eru trúarbrögð múslima mjög lík trúarbrögðum kristinna og í öðru lagi er hægt að fullyrða að grimmdin og viðbjóðurinn er síður en svo minni trú kristinna. Málið er bara að mjög fáir þeirra sem telja sig kristna hafa nokkurn tíman lesið Biblíuna sína, flestir hafa líklegast ekki kíkt í hana síðan þeir voru fermdir. Þeir sem nenna að lesa Biblíuna með gagnrýnu hugafari (sjá hér) verða fljótt trúleysingjar, rétt eins og ég.

Deildu