Frelsarinn skrifar grein fyrir Skoðun

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/07/2001

9. 7. 2001

Í dag birtist áhugaverður pistill á Frelsi.is ,,Foreldrar, börn og samskipti þeirra“. Pistillinn er byggður á persónulegum bréfaskrifum sem Frelsarinn (JHH) átti við ónefndan mann um hvort leyfa eigi foreldrum að kaupa áfengi fyrir börnin sín. Svo skemmtilega vill til að ég, undirritaður, er þessi ónefndi maður. Það sem meira er þá fannst mér ég […]

Í dag birtist áhugaverður pistill á Frelsi.is ,,Foreldrar, börn og samskipti þeirra“. Pistillinn er byggður á persónulegum bréfaskrifum sem Frelsarinn (JHH) átti við ónefndan mann um hvort leyfa eigi foreldrum að kaupa áfengi fyrir börnin sín. Svo skemmtilega vill til að ég, undirritaður, er þessi ónefndi maður. Það sem meira er þá fannst mér ég hafa, nokkuð augljóslega, unnið þessa ritdeilu. Ég fagna því ákaflega ákvörðun Frelsarans að birta athugasemdir mínar opinberlega á Frelsi, þó þær hafi verið ritaðar í perónulegu bréfi og ekki ætlaðar til birtingar. Bréf mitt var skrifað á u.þ.b. 5. mínútum og því leyfi ég mér að gera nokkrar athugasemdir við þennan pistil hér á Skoðun. Ég vona að Frelsaranum sé ekki á móti skapi að ég birti samtal okkar opinberlega.


ATH:
Allt það sem stendur hér fyrir neðan eru orð Frelsarans (JHH) nema það sem er skrifað með bláu letri en það er úrdráttur úr því sem ég ritaði í persónulegu bréfi mínu til Frelsarans. Athugasemdir mínar eru svo (innan sviga).
…Grein Frelsarans ásamt athugasemdum mínum hefst hér…
Foreldrar, börn og samskipti þeirra

Fyrir nokkru birtist pistill hér á Frelsi.is sem bar heitið Heimabrugg og ÁTVR. Eðlilega vakti þessi pistill upp misjöfn viðbrögð enda eru sjónarmið fólks ólík. Sumir virtust halda að verið væri að mæla með því að ungmenni notuðu áfengi, en svo er ekki (ég hélt því aldrei fram að Frelsarinn væri að mæla með drykkju ungmenna). Eftirfarandi eru nokkur rök sem Frelsarinn hefur heyrt gegn því að foreldrar fái heimild til að veita börnum sínum áfengi. Frelsarinn reynir að svara þessum rökum í kjölfarið.

Rökin um skaðleg áhrif áfengisneyslu ungmenna
„Foreldrar eiga ekki að kaupa áfengi fyrir börn (Ég skilgreini fólk undir 18 ára sem börn og því er ég þeirrar skoðunar að áfengiskaupaaldur ætti að vera 18 ár). Rökin eru þau að það er almennt viðurkennt í samfélaginu að vímuefnaneysla barna sé ekki ásættanleg, hvort sem sú neysla er á lögleyfðum vímuefnum eða bönnuðum. Það eru ekki bara einhverjar taugaveiklaðar húsmæður og leiðinlegir bindindismenn (orðalag sem notað er í góðlátlegu gríni í persónulegum bréfum sem ekki voru ætluð til birtinga) sem eru á móti vímuefnaneyslu barna, heldur eru allir virtir sérfræðingar í heilbrigðis- og félagsmálakerfinu einnig á móti slíkri neyslu. Áfengisdrykkja er bara alls ekki góð fyrir börn og getur oft reynst þeim stórhættuleg. Ungar óþroskaðar sálir sem oft eiga, kannski eðlilega, í miklum tilfinningalegum erfiðleikum hafa ekkert að gera með að neyta vímuefna og það er skylda foreldra að sjá til þess að þau geri það ekki. Rétt eins og það er skylda foreldra að sjá til þess að börn mæti í skólann, að þau fái fæði, húsnæði o.s.frv.“

Frelsarinn gerir sér fyllilega grein fyrir því að það eru fleiri en taugaveiklaðar mæður og leiðinlegir bindindismenn sem að telja að áfengisneysla barna sé óásættanleg. Frelsarinn er t.d. einn þeirra. Þess vegna var tekið skýrt fram í fyrrnefndri grein að börn og unglingar yngri en 18 ára ættu ekki að fá leyfi til að versla í áfengisverslunum. Málið snýst ekki um það hvort einhverjir telji að áfengisneysla unglinga og barna sé óæskileg – það eru allir sammála því. Foreldrar geta hinsvegar ekki tryggt að börnin þeirra noti ekki áfengi, nema að loka þau inni eða hafi þau í bandi og slíkt gerir fólk auðvitað ekki. Foreldrar geta hinsvegar séð til þess að börnin þeirra hafi aðgang að fæði, húsnæði og slíku. Ef foreldrar neita börnum sínum um aðgang að fæði, húsnæði og öðrum nauðsynjum er um stórfellda vanrækslu að ræða. Frelsarinn telur að ef foreldrar gefa börnum sínum áfengi, í því skyni að forða þeim frá því að þurfa að nota landa eða annan óþverra, þá sé ekki um að ræða stórfellda vanrækslu. Því er verið að bera saman ólíka hluti.

(Nei hér var ekki verið að bera saman eitt né neitt. Verið er að taka dæmi af nokkrum hlutverkum foreldra til þess að útskýra nánar það hlutverk foreldra að forða börnum sínum frá vímuefnaneyslu. Það er t.d. ekki hægt að „tryggja“ það að börn mæti í skólann nema með því að bera þau þangað og hafa þau þar síðan „í bandi“. „Slíkt gerir fólki auðvitað ekki“ Þýðir það að við eigum að leyfa foreldrum barna, sem leiðist skólinn, að sleppa börnum sínum við skólagöngu? Tilgangurinn með þessum samanburði var auðvitað og augljóslega sá að benda á að maður leyfir ekki eitthvað bara af því það getur verið svo erfitt að framfylgja banninu.)

Ríkið ætti að hjálpa foreldrum sem eiga börn í vímuefnavanda, en aldrei ætti að samþykkja neyslu þeirra.
„Þótt það geti verið erfitt að veita börnum aðhald og börnin neiti að læra heima og fikti við vímuefnaneyslu þá á ríkisvaldið ekki gefa foreldrum leyfi til þess að láta börnin sleppa því að mæta í skólann og kaupa þess í stað áfengi handa þeim svo þau séu nú ekki að drekka landa með vinunum. Þvert á móti ætti ríkisvaldið að refsa foreldrum sem fara svoleiðis með börnin sín af ásettu ráði en veita hins vegar foreldrum hjálp ef barnið leiðist út í vímuefnaneyslu eða líður illa í skólanum af einhverjum ástæðum.“
Frelsarinn telur að ef foreldrar hafi leyfi til að veita börnum sínum áfengi geti þeir fylgst með því hvenær þau eru að nota áfengi, hvaða áfengistegundir þau nota og hversu mikið magn þau nota. Þar af leiðandi vita foreldrar betur hvað börn þeirra eru að gera. Ekki ætti að refsa foreldrum fyrir slíkt.

(Bull og vitleysa. Hvað ef blessað barnið biður nú um meira áfengi en foreldrarnir eru tilbúnir til að veita því? Hvað ef barnið vill nú taka vodkapelann sem mamma gamla gaf því og fara með hann eitthvert annað og drekka þar sem mamma og pabbi sjá ekki til? Hvað gera foreldrarnir þá? Banna barninu sínu það??? Nei fjandakornið það er náttúrulega bara bull, því þá græða landasalarnir og barnið lætur eitthvert landabrugg í sig í staðinn. Eina lausnin er, og getið nú, auðvitað að kaupa bara meira áfengi handa barninu og leyfa því að drekka það í friði, hvar og hvenær sem því sýnist. Já svona er lausn frjálshyggjunnar alltaf einföld og þægileg.)

Foreldrar eiga að hafa frjálsar hendur í uppeldi barna sinna svo framarlega sem ekki er um stórfellda vanrækslu að ræða. Ef foreldrar vanrækja uppeldi barna sinna á dómsvaldið að sjálfsögðu að grípa í taumana.

(Að mínu mati er það að gefa börnum vímuefni vanræksla á nokkuð háu stigi, en dæmi nú hver fyrir sig. Þetta veltir líka upp einni spurningu. Ef einn eða tveir bjórar handa barni eru ekki vanræksla, hvenær hefst vanrækslan þá? Eftir eina kippu? Tvær? Vodkapela? Nei, ég bara spyr.)

Foreldrar ættu að reyna að beina börnum sínum frá villu vegar
„Vímuefnalaust umhverfi barna er hluti af uppeldis- og umsjónarhlutverki foreldra rétt eins og fæði, klæði, menntun og eftirlit. Unglingar streitast oft gegn foreldrum, eins og við vitum (maður var nú ekki sjálfur alltaf barnanna bestur :)), og neita að læra heima og drekka sig fulla. Foreldrar ættu þó aldrei að samþykkja slíkt atferli, heldur gera sitt besta (stundum með hjálp ríkisvaldsins) til þess breyta slíkri hegðun.“Frelsarinn telur að fæstir foreldrar samþykki slík atferli. Foreldrar sem veita 14-15 ára gömlum börnum sínum áfengi hljóta að benda börnum sínum á óæskilegar afleiðingar sem áfengisneysla getur haft í för með sér og fæstir foreldrar samþykkja áfengisneyslu barna sinna. Á hinn bóginn eru þau þó hlynntari því að börn þeirra drekki löglegt áfengi en landasull sem er bruggað og selt ólöglega.

(Ég nenni varla að svara þessu aftur en ég hlýt þó að spyrja. Hvað eigum við að gera, kæri frelsari, þegar öll (eða flest) vímuefni verða orðin lögleg eins og frjálshyggjumenn vilja? Eigum við þá ekki líka að leyfa dópistum að kaupa slík vímuefni handa börnunum sínum? Við vitum jú að börn komst nú því miður hvort eð er frekar auðveldlega í ólögleg fíkniefni, sem jafnvel geta verið hættulega blönduð. Verður þá ekki leyfilegt fyrir foreldra að kaupa e-töflu handa Gutta litla í Hagkaupsapóteki svo hann fari nú ekki að bryðja ólölegt e? Fyrirgefðu að ég skuli spyrja svona, en þetta er nú samt augljós spurning ef maður hugsar tillögu þína til enda)

Framkoma foreldra við börn sín er takmörkum sett
„Leyfi handa foreldrum til að kaupa vímuefni handa börnum sínum kemur ekki til greina. Ekki frekar en leyfi til foreldra til þess að leyfa börnum sínum að sleppa því að hljóta menntun. Foreldrar hafa ekki leyfi til að fara svoleiðis með börnin sín, því börn eru ekki eign foreldra sinna. Þau eru bara í umsjón þeirra á meðan þau eru of ung til að sjá um sig sjálf. “Frelsarinn getur að nokkru leyti fallist á þann punkt að foreldrar ættu ekki að hafa heimild til þess að leyfa börnum sínum að sleppa við menntun, jafnvel þó að uppeldishlutverkið eigi sem mest að vera í höndum foreldranna og þeir eigi þá að taka sem flestar ákvarðanir fyrir börnin, en ekki stjórnvöld. Í vestrænum ríkjum er lestrarkunnátta og önnur færni, sem fengin er í grunnskóla, forsenda eðlilegs þroska og samlögunar að þjóðfélaginu og Frelsarinn telur að börn sem ekki geta áunnið sér slíka færni, geti í raun aldrei orðið frjáls. (Þarna hljómar Frelsarinn eins og sannur jafnaðarmaður. Vertu ávallt velkominn. Sjá ályktun Ungra Jafnaðarmanna um velferðarmál: „Ungir jafnaðarmenn álíta að án aðgangs að öflugu og virku velferðarkerfi fæðist einstaklingar ekki frjálsir heldur í fjötrum stéttaskiptingar.“)

En hvernig tengist þessi punktur um menntun umræðunni um áfengislög? Með slíkri samlíkingu er líkt og verið sé að bera saman epli og appelsínur. Tilgangurinn með því að foreldrar fái að kaupa áfengi fyrir börn sín er að þau eiga rétt á að leita raunhæfra leiða til að koma í veg fyrir að börnin þeirra neyti ólöglegra efna þ.e. landa eða fíkniefna t.d. kannabis. (Ég vísa til fyrri athugasemda)

Bent á aðrar leiðir
„Maður gefur barninu sínu ekki byssu svo það séu minni líkur á því að það fái sér haglabyssu. Það eru til aðrar leiðir til að dragar úr og/eða gera óæskilega hegðun ólíklegri. Agi, ást, umhyggja, skilningur, tími eru þar nokkur einföld en skiljanleg stikkorð.“Mat Frelsarans er að með þessu byssudæmi sé enn og aftur verið að bera saman epli og appelsínur.

(Æi, byssudæmið er augljóslega ýkt og ég hefði nú líklegast ekki notað það ef ég hefði vitað að það ætti eftir að enda á heimasíðu frjálshyggjumanna. Dæmið þjónar engu að síður tilgangi sínum. Ég er einfaldlega að spyrja hvort það sé sniðugt að foreldrar leyfi börnum sínum að gera eitthvað hættulegt (neyta löglegs áfengis) til þess að reyna að koma í veg fyrir að þau geri eitthvað sem er jafnvel hættulegra (neyta ólöglegs áfengis). Svar mitt er NEI, það er ekki sniðugt. Bara heimskulegt.)

Foreldrar kaupa áfengi fyrir börn sín svo það séu minni líkur á að þau fari sér að voða. Öllum ætti að vera ljóst hvaða munur er á vörum sem framleiddar eru undir eftirliti t.d. opinberra aðila og undir gæðastöðlum annarsvegar og svo hinsvegar á vörum sem eru framleiddar í heimahúsum og seldar á svörtum markaði. Enginn formlegar gæðakröfur eru gerðar um slíkar vörur. Frelsarinn telur ekki að foreldrar sem kaupi áfengi handa börnum sínum veiti þeim neitt minni ást, aga, umhyggju, skilning eða tíma heldur en foreldrar sem veita börnum sínum ekki áfengi. Í þessu tilfelli útilokar eitt ekki annað. (Þessu verð ég að vera ósammála) Frelsarinn telur einfaldlega að foreldrar sem að veita börnum sínum áfengi, ef þau eru á annað borð farin að neyta áfengis, skilji hegðun barna sinna betur. Þeir vita að ef bönr þeirra hafa ákveðið að neyta áfengis, þá þýðir ekkert að banna þeim það.

(Á sama við ef börnin eru byrjuð að reykja hass eða bryðja e-töflur? Ég spyr bara í sakleysi mínu)

Að lokum
Það er ekki erfitt að banna nokkurn skapaðan hlut. Það er hinsvegar ógerningur að framfylgja banni við ýmsu athæfi. Allt of oft vilja menn banna of margt og telja að bann sé svar við öllum þrautum. (Ég ætla rétt að vona að Frelsarinn sé ekki að gefa það í skyn að ég sé þeirrar skoðunar að bann sé svar við öllum hlutum) Foreldrar mega alveg banna börnum sínum að nota áfengi ef þeir vilja, ríkið má líka (og raunar á að) banna börnum að kaupa áfengi. Frelsarinn er hinsvegar þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að banna foreldrum að veita börnum sínum áfengi. Málið snýst um það að foreldrar eiga rétt á að reyna að koma í veg fyrir það að börn þeirra noti ólögleg efni. Raunhæfasta leiðin er sú sem hér hefur verið bent á. Hafa ber í huga að það kerfi sem nú er við lýði er einmitt þannig að foreldrum er meinað að versla áfengi fyrir börn sín. Enda vill einmitt svo til að landaframleiðsla virðist vera allmikil hér á landi, af fréttum fjölmiðla að dæma. Margoft hafa lögreglumenn lokað bruggverksmiðjum og lagt hald á áhöld til bruggunar. Það bendir til þess að heilmikið af bruggverksmiðjum hafi verið og séu enn starfandi. Hver skyldi helsti markhópur landasala vera?

(Hver heldur þú að verði helsti markhópur eiturlyfjasala þegar eiturlyf verða gerð lögleg fyrir fullorðna fólkið? Þýðir það þá að foreldrar eigi að fá leyfi til að gefa börnum sínum eiturlyf því það er ómögulegt að stöðva ólöglegan innfluttning og sölu eiturlyfja???)

…Grein Frelsarans ásamt athugasemdum mínum lýkur hér…

Nú er máli mínu lokið í bili. Ég býst ekki við að Frelsarinn svari mér aftur opinberlega. Hann hefur aldrei þorað að gera það áður þegar ég hef lent í ritdeilum við hann. Ætli Frelsarinn viti ekki innst inni að rök ein og sér nægja ekki til að sannfæra fólk um að ganga í frjálshyggjusöfnuðinn.

Deildu