Annað samtal um fíkniefni

eiturlyf-peningar
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Í síðustu viku bjó ég til ímyndað samtal milli mín og einstaklings sem er fylgjandi lögleiðingu fíkniefna. Síðan sú grein birtist hef ég fengið sendar ýmsar ágætis glósur frá lögleiðingarsinnum. Með hjálp lesenda hef ég því útbúið alvöru samtal um þetta flókna og mikilvæga mál. Ég vona að fleiri skrifi til okkar og taki þátt í umræðunni.


Eftirfarandi samtal er byggt á bréfaskrifum sem áttu sér stað á milli undirritaðs og eins lesanda Skoðunar um grein mína frá því í síðustu viku.

Viðskiptavinir fíkniefnasala eru að stórum hluta fullorðnir einstaklingar
Það er rétt að það yrði stranglega bannað að afhenda börnum og unglingum fíkniefni, ef þau yrðu lögleidd, og líklega yrði einhver svartur markaður í kringum það, en hann yrði ekkert í líkingu við það sem hann er í dag, vegna þess að fíkniefnasalar þrífast að stórum hluta til á viðskiptum við fullorðna einstaklinga. Ef þeir missa þennan markað, þá fækkar þeim töluvert, örugglega það mikið að ekki væri hægt að tala um neina skipulagða glæpastarfsemi.

Hér bendir bréfritari á að fíkniefnasalar þrífist að stórum hluta til á viðskiptum við fullorðna. Þetta kann að vera rétt, en hve margir hina fullorðnu neytenda hófu neyslu sína þegar þeir voru undir lögaldri? Þessi spurning skiptir verulegu máli í þessu samhengi, því þrátt fyrir allt þá tel ég að bann, hátt verðlag og opinber félagsleg andúð á fíkniefnum hafi þau áhrif að færri börn og unglingar leiðist út í fíkniefnaneyslu. Ef fíkniefnin myndu falla í verði (eins og búast má við ef þau verða lögleidd) er líklegt að fleiri unglingar prufi og ánetjist þeim.

Ástandið í Bandaríkjunum
Vissuð þið að sala á hörðum fíkniefnum var óheft í Bandaríkjunum allt til 1918? Engar tölur sýna að neysla þessara efna hafi minnkað síðan þá, en það eru til tölur sem sýna að 50% þeirra sem sitja í bandarískum fangelsum í dag sitja inni fyrir fíkniefnabrot.

Það hefur svo ótal margt breyst frá árinu 1918 að það er í raun ómögulegt að bera saman ástandið í fíknefnamálum á þeim tíma við ástandið í dag. Ég bendi á að árið 1918 var fyrri heimstyrjöldin í gangi. Við getum heldur ekkert vitað um það hvernig ástandið í Bandaríkjunum væri í dag ef öll fíkniefni hefðu verið lögleg fram á daginn í dag. Ég efast persónulega um að ástandið væri betra, en get auðvitað ekki sannað það.

Hvað varðar ástandið í Bandaríkjunum þá lít ég ekki þangað í leit að visku um hvernig á að bregðast við fíkniefnavandanum. Fíkniefnavandinn er fyrst og fremst félagslegt vandamál og við vitum öll að ástandið er víðs vegar ekki svo gott í Bandaríkjunum. Vegna lélegrar menntunar, fátæktar og annara félagslegra vandamála er fíkniefnaneysla og -sala eðlileg afleiðing.

Hertar refsingar í Noregi bera ekki árangur
Hafið þið litið til reynslu Norðmanna í þessum málum? Þeir stórhertu viðurlög við neyslu og sölu fíkniefna fyrir nokkrum árum, og samt dró ekki úr neyslu þeirra. Þvert á móti fjölgaði dauðsföllum af völdum neyslu heróíns og glæpum tengdum fíkniefnaneyslu.

Ég tek það skýrt fram að ég er ekki hlynntur harðari dómum og endalaust öflugri löggæslu til að stemma stigum við fíknefnainnflutningi. Harðari refsingar gera lítið til að draga úr fíkniefnaafbrotum. Ég er því ekki og hef aldrei verið trúaður á gildi þungra dóma.

Hver eru rökin fyrir banni?
Þakka annars eitt af fáum málefnalegum innleggjum í þessa umræðu, sem mér finnst þó að ætti frekar að snúast um rök FYRIR því að banna fíkniefni, sem ég hef ekki enn heyrt, nema þá frá einhverju tilfinningalegu sjónarhorni („við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur…“), eða í formi útúrsnúninga og háðs.

Menn tala oft út frá tilfinningum en ekki rökum. Um þetta hafa bæði þeir sem eru fylgjandi og þeir sem eru andvígir lögleiðingu fíkniefna gert sig seka um. Einna mest fer þó í taugarnar á mér sú afstaða sumra sem eru á móti lögleiðingu að þetta mál þurfi ekkert að ræða og það eigi „auðvitað ekki að lögleiða fíkniefni“.

Ég hef oft bent á rökin fyrir því að banna eigi fíkniefni. Hér skal ég ítreka nokkur þeirra:

1) Bann sýnir að fíkniefnaneysla er ekki félagslega viðurkenndur verknaður. Rétt eins og við getum ekki komið í veg fyrir til dæmis ofbeldi gegn börnum með því að banna það þá segir bannið okkur að þjóðfélagið líður ekki slíkan verknað. Bannið leysir auðvitað ekki vandann í þessu tilviki frekar en bann við fíkniefnum leysir fíkniefnavandann en bannið setur viðmið og hefur óumdeilanlega áhrif á hugsunarhátt og háttarlag fólks.

2) Leggja má rök fyrir því að bannið haldi verðlagi á fíkniefnum háu. Það tel ég að sé gott því það dregur auðvitað úr líkunum á því að fólk kaupi þessi efni. Sérstaklega þegar um félitla unglinga er að ræða.

3) Bannið dregur úr aðgengi barna og unglinga að fíkniefnum.

Rökin fyrir því að banna fíkniefnin eru sem sagt fyrst og fremst þau að bannið dregur úr líkum þess að ungt fólk neyti fíkniefna. Ef fylgjendur lögleiðingar eru sammála mér um það að lögleiðing leysi ekki fíkniefnavandann hvers vegna eigum við þá að lögleiða fíkniefnin ef sú lögleiðing getur skaðað börnin í landinu? Ég bara spyr.

Ég ítreka það að mér þykir það vissulega vafasamt að hefta frelsi fullorðinna einstaklinga til dæmis með því að banna viss fíkniefni. En ef bannið dregur mögulega úr neyslu ungmenna þá er ég fylgjandi áframhaldandi banni. Hér eru það hagsmunir tveggja hópa sem stangast á. Í fyrsta lagi eru það fullorðnir fíkniefnaneytendur en í öðru lagi ungt fólk í áhættuhóp. Ég vel að vernda ungt fólk fremur en fullorðna fíkla.

Takmörkuð lögleiðing
Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hef minnst á áður, að stjórnvöld (eða aðrir) ættu einfaldlega að gefa fullorðnum fíklum lyfin sín undir eftirliti. Enda er það augljóslega betra að fíklar taki inn óblönduð og hættuminni eiturlyf undir umsjón lækna en að láta siðlausa glæpamenn græða á óförum annara. Þessa aðferð tel ég að menn eigi að skoða fyrir alvöru og án fordóma.

Það má heldur ekki setja öll ólögleg fíkniefni undir sama hatt því þau eru jú mjög mismunandi hættuleg. Kannski er heillavænlegt að lögleiða hættuminni eiturlyf eins og marijúana? Kannski, ég er ósannfærður en þetta þarf að ræða. Þeir sem eru eins og ég á móti því að öll fíkniefni verði gerð jafn lögleg og áfengi eru ekki að gera málstaðnum neinn greiða með því að þegja málið í hel og með því að væna andstæðinga sína um geðröskun.

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka