Lögleiðing fíkniefna

eiturlyf-pillur
Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson

Þegar hinn hvimleiði fíkniefnavandi kemst í hámæli í fjölmiðlum virðist mér sem það ríki aðeins tvö sjónarmið hjá fréttamönnum og viðmælendum þeirra um hvernig beri að taka á þessum vanda. Þau sjónarmið sem ég á hér við eru hert löggæsla og harðari fangelsisdómar fyrir fíkniefnaafbrot annars vegar en lögleiðing fíkniefna hins vegar. Þessar tvær aðferðir til að kljást við fíkniefnavandann, sem við fyrstu sýn virðast gjörólíkar, eiga þó nokkuð sameiginlegt. Hvorug þessara aðferða virkar. Hvorug þeirra leysir fíkniefnavandann.


Skyndilausn 1 – öflugri löggæsla, harðari dómar
Þegar fréttir berast af því að fíkniefnaneytendur séu sífellt að verða fleiri og yngri krefjast flestir þess að meiri peningum sé varið í löggæslu, tollgæslu og að fíkniefnasalar fái harðari fangelsisdóma. Ef við viljum að fíkniefnasala sé bönnuð hér á landi er vissulega skynsamlegt að til séu nógu miklir peningar til að halda uppi öflugri lög- og tollgæslu en einhvers staðar verður að draga mörkin. Fólk verður að átta sig á því að það er ómögulegt að koma í veg fyrir innflutning og sölu á ólöglegum efnum svo lengi sem næg eftirspurn er fyrir hendi. Jafnvel þó að Íslandi yrði breytt í fasískt „stóra-bróðurs“ lögregluríki, þar sem fylgst væri með flestum athöfnum manna, væri það enn ómögulegt að koma í veg fyrir allan innflutning ólöglegra efna.

Hertir fangelsisdómar eru ekki heldur nein töfralausn enda hafa rannsóknir oftsinnis sýnt það að hertir fangelsisdómar skila engu eða hafa í það minnsta afskaplega lítil áhrif á glæpatíðni.

Skyndilausn 2 – lögleiðing fíkniefna
Hann virðist fara sífellt stækkandi sá hópur fólks sem vill að öll fíkniefni verði lögleidd. Þeir sem hafa einna helst haldið þessari skoðun á lofti hér á landi eru frjálshyggjumennirnir á Vefþjóðviljanum og ungir Sjálfstæðismenn. Rök þeirra eru nokkurn veginn eftirfarandi:

Í fyrsta lagi benda þeir á að það sama og ég hef nú þegar gert, það er að núverandi lög- og tollgæslustefna yfirvalda kemur ekki í veg fyrir og getur aldrei komið í veg fyrir fíkniefnainnflutning. Í öðru lagi segja þeir að fíkniefnasala sé það sem kallað er „victimless crime“ eða glæpur án fórnarlamba þar sem að kaupandinn vill kaupa fíkniefnin og seljandinn vill að sjálfsögðu selja þau. Hér líta þeir á fíkniefnasölu sem venjuleg viðskipti þar sem báðir aðilar hagnast. Í þriðja lagi segja þeir að glæpum fækki ef fíkniefni verða lögleidd. Í fjórða og síðasta lagi benda þeir á að betra sé að fylgjast með „gæðum“ fíkniefna ef þau verða lögleidd. Þeir telja sem sagt að með því að lögleiða fíkniefni sé betur hægt að hafa eftirlit með þeim og því séu minni líkur á því að fíkniefnaneytendur taki inn fíkniefni sem hafa verið blönduð með einhverju hættulegu eitri eða að þeir taki efnin í of stórum skömmtum.

Lögleiðing er engin lausn
Það sem frjálshyggjumenn virðast gleyma er að markhópur fíkniefnasala er fyrst og fremst börn og unglingar, og flestir þeir sem ánetjast fíkniefnum eru einmitt fólk undir lögaldri. Þetta mun auðvitað ekkert breytast þó að fíkniefni verði lögleidd. Ef fíkniefnasala verður lögleidd hér á landi mun að líkindum ekkert breytast nema að aðgengi barna og unglinga að fíkniefnum eykst. Flestir sem eitthvað þekkja til, vita til dæmis hvað það virðist vera auðvelt fyrir vímuefnaneytendur að komast í lyfseðilskyld lyf eða áfengi sem er selt í ÁTVR. Frjálshyggjumenn hljóta því að gera sér grein fyrir því að þeir leysa engan vanda með því að lögleiða sölu fíkniefna. Jafnvel þó að hægt væri (sem það er ekki) að tryggja að fólk undir lögaldri kæmist ekki í lögleiddu fíkniefnin, sem væntanlega yrðu seld í apótekum ásamt hóstasafti, þá myndi einfaldlega myndast markaður fyrir ólöglega innflutt fíkniefni fyrir börn og unglinga. Þetta er einmitt lögmálið um framboð og eftirspurn sem frjálshyggjumenn tala svo mikið um. Svo lengi sem eftirspurn er eftir dópinu mun einhver sjá sinn hag í því að útvega það.

Það að selja óhörnuðum unglingum með lélegt sjálfstraust og svarta framtíðarsýn stórhættulegt dóp til þess deyfa sársauka er ekki og getur aldrei talist „glæpur án fórnarlamba“ heldur gróf misnotkun á varnarlausum manneskjum. Það er heldur ekki allt í lagi að selja fullorðnu fólki fíkniefni þar sem að stór hluti þeirra urðu líklegast fíklar löngu áður en lögaldri var náð. Það er því vægast sagt vafasöm fullyrðing að segja að sala fíkniefna sé glæpur á fórnarlamba.

Rök frjálshyggjumanna þess efnis að skynsamlegt sé að lögleiða fíkniefnin vegna þess að þá lækkar verðið á þeim og fíklar þurfa því að stela minna til þess að hafa efni á þeim eru einnig vægast sagt ótraust. Þó að það megi vel vera að auðgunarbrotum muni fækka ef verð á fíkniefnum lækkar töluvert þá hlýtur slík verðlækkun einnig að hafa í för með sér aukna eftirspurn eftir fíkniefnum. Ekki satt? Það er ljóst að fleiri eru tilbúnir að prufa e-töfluna ef hún kostar 500 kall en ekki 5000 kall (verðin eru algjörlega tekin úr lausu lofti). Ég tel persónulega að það sé meira virði að koma í veg fyrir unglingar ánetjist fíkniefnum en að bjarga nokkrum bílgræjum. Ég veit ekki hvað öðrum finnst.

Frjálshyggjumenn benda hins vegar réttilega á að fíkniefni seld úr löggildu apóteki eru líklegast mun hættuminni en það dóp sem er að finna á svörtum markaði. Vandinn er hins vegar sá að fólk undir lögaldri, fólkið sem er í mesta áhættuhópnum, þarf ennþá að reiða sig á svartamarkaðinn til að fá fíkniefnin þannig að engin trygging er fyrir því að þessi hópur fólks sé nokkru bættur með lögleiðingu fíkniefna. Eina leiðin til að þessi rök frjálshyggjumanna skipti nokkru máli er að ríkið lögleiði fíkniefnasölu til barna og unglinga.

Það er ekki til nein skyndilausn
Þrátt fyrir það sem margir vilja telja okkur trú um þá er engin einföld lausn til á fíkniefnavandanum. Mér er það þó ljóst að ef við viljum eygja von um bætt ástand í þessum málum verðum við leggja áherslu á að eyða eftirspurninni fremur en að leggja svo mikla áherslu á að eyða framboðinu eins og nú er gert. Nákvæm útlistun á því sem undirritaður telur að nauðsynlegt sé að gera til að draga úr fíkniefnavandanum er efni í aðra grein og því ætla ég ekki hafa langa tölu um það hér.

Í stuttu máli er það þó mín skoðun að besta leiðin til að koma í veg fyrir það að börn og unglingar ánetjist vímuefnum er í gegnum skólakerfið. Eins og ég hef svo oft áður fjallað um hér á Skoðun þá tel ég að efla eigi markvisst og skipulega sjálfstraust og sjálfsvitund nemenda í grunnskólum landsins með heimspekilegum aðferðum. Með öðrum orðum þá tel ég að það þurfi að kenna börnum að hugsa sjálfstætt og veita þeim þannig tækifæri til að öðlast sterka sjálfsmynd. Hvernig í ósköpunum er annars hægt að ætlast til þess að ungt fólk taki alltaf skynsamlegar ákvarðanir þegar það kemur fíkniefnum?

Mörgum kann að finnast það undarlegt markmið að ætla að kenna ungu fólki að hugsa. En ég fullyrði að sjálfstæða og gagnrýna hugsun er jafn nauðsynlegt að kenna ekki síður en stærðfræði og íslensku. Við fæðumst ekki sjálfstæðir og rökhugsandi einstaklingar ekki fremur en við fæðumst stærðfræðisnillingar. Það að álykta annað er hættuleg mistök.

Deildu þessari grein

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on email
Loka