Fíkniefnamál

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/04/2000

21. 4. 2000

Grein Brynjólfs Þórs um fíkniefnavandann (Röng greining vandans) sem birtist síðastliðinn miðvikudag hefur vakið upp nokkur viðbrögð hjá lesendum Skoðunar. Brynjólfur benti á að fíkniefnavandinn fælist að miklu leyti í þeirri eftirspurn sem er eftir fíkniefnunum á meðan stór hluti hins svokallaða forvarnarstarfs gengi út á það að draga úr framboði fíkniefna. Sumir lesendur virðast […]

Grein Brynjólfs Þórs um fíkniefnavandann (Röng greining vandans) sem birtist síðastliðinn miðvikudag hefur vakið upp nokkur viðbrögð hjá lesendum Skoðunar. Brynjólfur benti á að fíkniefnavandinn fælist að miklu leyti í þeirri eftirspurn sem er eftir fíkniefnunum á meðan stór hluti hins svokallaða forvarnarstarfs gengi út á það að draga úr framboði fíkniefna.


Sumir lesendur virðast misskilja málflutning okkar hér á Skoðun á þann veg að við teljum að framboð fíkniefna skipti engu máli. Það er vitaskuld ekki rétt. Við höfum hins vegar talið mikilvægara að draga úr eftirspurn eftir vímugjöfum. Mikil eftirspurn ungs fólks eftir vímugjöfum gefur nefnilega í skyn vanlíðan og óöruggi sem við teljum að sé alvarlegt mál. En lítum nú á þrjár leiðir til að draga úr vímuefnaneyslu ungs fólks og vegum kosti þeirra og galla.

1. Komum í veg fyrir framboð

Kostir:
Með því að gera fíkniefni ólögleg drögum við úr framboði þeirra og verðið helst hátt. Hátt verð veldur því hugsanlega að færri tíma því að kaupa fíkniefnin auk þess sem sú staðreynd að fíkniefni eru ólögleg dregur að öllum líkindum úr því að fólk freistist til að neyta þeirra.
Ókostir:
Þó að fíkniefni séu ólögleg og verð á þeim sé tiltölulega hátt þá neytir fjöldinn allur af fólki fíkniefna engu að síður. Menn hafa fyrir löngu komist að því að það er ómögulegt að koma algjörlega í veg fyrir neyslu fíkniefna með því að uppræta tilvist þeirra nema með því breyta samfélaginu í einhverskonar fasista-lögregluríki.

2. Upplýsum fólk um skaðsemi fíkniefna

Kostir:
Almenn og heiðarleg fræðsla um skaðsemi fíkniefna í skólum og fjölmiðlum er nauðsynlegt mótvægi við allar þær ranghugmyndir sem börn og unglingar geta hafa myndað sér í gegnum jafningja og fjölmiðla um áhrif fíkniefna.
Gallar:
Þekking um skaðsemi fíkniefna er ekki nægjanleg ein og sér til að koma í veg fyrir að börn og unglingar prófi og ánetjist fíkniefnum. Fullyrða má að ástæður vímuefnaneyslu og annarra andfélagslegra athafna séu aðrar og meiri en vanþekking ein á skaðsemi þeirra.

3. Styrkjum einstaklinginn

Það þarf ekki mikillar íhugunar við til að átta sig á því að fíkniefnaneysla er ekki orsök félagslegra vandamála barna og unglinga. Fíkniefnaneysla og aðrar andfélagslegar athafnir eru öllu frekar afleiðingar félagslegra vandamála. Þessi félagslegu vandamál eru bæði fjölmörg og flókin og því er oftast betra að benda á fíkniefnin sem upphaf og endi alls ills. Óöruggi, áhugaleysi, námsvandræði, vonleysi, heimilisvandræði, ástarsorg, feimni og margt margt fleira hefur áhrif á líf og lifnaðarhætti fólks, þar á meðal vímuefnaneyslu.

Það liggur því beinast við að leggja áherslu á að hjálpa ungu fólki að berjast við þau félaglegu vandamál sem kunna að hrjá þau. Menntakerfið er kjörinn vígvöllur fyrir þá baráttu. Öll grunnskólaárin á að nota til að kenna nemendum að tjá sig, leggja rök fyrir máli sínu og að hlusta á skoðanir annarra. Efla þarf sjálfsvitund barna með heimspekilegum aðferðum og kenna þeim að vega og meta öll þau áreiti sem þau verða fyrir á skynsamlegan hátt.

Helsti kosturinn við að styrkja einstaklinginn með þessum hætti í gegnum menntakerfið er sá að ef rétt er að farið dregur slík heimspekileg kennsla úr óöryggi ungmenna og eflir sjálfsvitund þeirra. Rannsóknir benda einmitt til þess að hátt sjálfsmat barna og unglinga dragi úr óreglu auk þess sem skynsemi okkar segir okkur að tengsl séu þarna á milli.

Helsti ókosturinn er hins vegar sá að langan tíma tekur að undirbúa menntakerfið undir nýja kennsluhætti og enn lengri tíma tekur það að sjá einhvern árangur.

Fíkniefnavandinn verður ekki leystur með slagorðum

Það er full ljóst að fíkniefnavandinn er flókið vandamál sem verður ekki leystur með slagorðum.
Það eru augljós siðferðileg takmörk fyrir því hve mikið er hægt að herða refsingar fyrir fíkniefnaafbrot.
Það eru augljós siðferðisleg takmörk fyrir því hve mikið er hægt að auka toll- og löggæslu til að koma í veg fyrir fíkniefnainnflutning.
Það er augljóst að vanþekking á skaðsemi fíkniefna er ekki ein og sér ástæðan fyrir neyslu þeirra.
Það er augljóst að fíkniefnaneysla er í flestum tilvikum afleiðing en ekki orsök félagslegra vandamála.
Það er augljóst að það kostar mikla peninga og það tekur langan tíma að bregðast við þessum félagslegu vandamálum.
Það er augljóst að kjörtímabil eru bara fjögur ár…

…og það er því augljóst að vandinn verður áfram ,,leystur“ með slagorðum og skyndilausnum.

Deildu