Davíð Oddsson, öryrkjar og fjármál stjórnmálaflokka

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

10/03/2000

10. 3. 2000

Það var ekki að ástæðulausu sem ritstjórn Skoðunar kaus Davíð Oddson sem stjórnmálamann ársins 1999. Davíð er nefnilega snillingur. Snillingur í því að láta líta út fyrir að hann sé alltaf málsvari réttlætis á meðan talsmenn öryrkja og þeirra sem vilja að til séu reglur um fjármál stjórnmálaflokka séu skúrkar og tækifærissinnar. Nú er ég […]

Það var ekki að ástæðulausu sem ritstjórn Skoðunar kaus Davíð Oddson sem stjórnmálamann ársins 1999. Davíð er nefnilega snillingur. Snillingur í því að láta líta út fyrir að hann sé alltaf málsvari réttlætis á meðan talsmenn öryrkja og þeirra sem vilja að til séu reglur um fjármál stjórnmálaflokka séu skúrkar og tækifærissinnar. Nú er ég ekki sérstakur andstæðingur Davíðs enda hefur hann áorkað ýmsu góðu sem ég ætla ekki að telja upp hér. Hins vegar verð ég að viðurkenna að árásir hans á öryrkja og viðbrögð við fyrrnefnda fjármálaumræðu eru heldur hallærisleg.

Davíð er greinilega hryggur, vonsvikinn og með særða réttlætiskennd yfir því að Öryrkjabandalagið hafi sólundað peningum sínum í að koma á framfæri hagsmunamálum sínum. Allir vita að öryrkjar hafa það skítt og því ættu þeir að eyða peningum sínum í eitthvað ganglegt eins og til dæmis hlutabréf í Íslenskri Erfðagreiningu en ekki kerti og blaðaauglýsingar. Við hljótum að vera sammála um að einungis rík hagsmunasamtök á borð við LÍÚ geta skammlaust varið peningum í hagsmunabaráttu.

Davíð hló að kröfum stjórnarandstæðinga um að settar yrðu reglur um fjármál stjórnmálaflokka og kallaði þá hræsnara. Hann bendir á að þeir sem eru fylgjandi slíkum reglum geti einfaldlega sýnt gott fordæmi og komið á opnu bókhaldi í eiginn flokki. Þó að tillaga Davíðs hljómi ágætlega þá „gleymir“ hann því að sá flokkur sem setur einhliða reglur um opið bókahald, til dæmis fyrir næstu kosningar, kann að missa mikið af framlögum. Enda er eflaust mikið af fyrirtækjum og einstaklingum sem vilja ekki nöfn þeirra séu viðriðin við stjórnmálaflokka. Eðlilegast væri því augljóslega að setja reglur sem allir stjórnmálaflokkar þurfa að fara eftir. Sjá nánar: Pólitískir peningar.

Deildu