Stéttaskipting í aðsigi?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/09/1999

23. 9. 1999

Brottfall nýbúa úr framhaldsskólum er allt of hátt eða um 80%. Þetta þýðir að átta af hverjum tíu nýbúum sem hefja nám í framhaldsskólum ljúka því ekki. Þessu ástandi þarf umsvifalaust að breyta ef koma á í veg fyrir að stéttaskipting og kynþáttahatur myndist hér á landi. Íslendingar eru gjarnir á að lýsa því yfir […]

Brottfall nýbúa úr framhaldsskólum er allt of hátt eða um 80%. Þetta þýðir að átta af hverjum tíu nýbúum sem hefja nám í framhaldsskólum ljúka því ekki. Þessu ástandi þarf umsvifalaust að breyta ef koma á í veg fyrir að stéttaskipting og kynþáttahatur myndist hér á landi.

Íslendingar eru gjarnir á að lýsa því yfir að kynþáttahatur sé lítið sem ekkert á Íslandi. Engu að síður hefur undirritaður margoft orðið vitni að ummælum og athöfnum sem benda sterklega til annars. Kynþáttahatur hefur vissulega ekki verið eins áberandi hér og það er í mörgum nágrannalöndunum, en þetta kann og mun breytast ef ekki verður brugðist rétt við þeim aðlögunarvanda sem nú steðjar að nýbúum.

Það er afar miklvægt að nýir Íslendingar fái góða aðstoð við að aðlagast íslensku þjóðfélagi. Ef brottfall nýbúa úr skólum heldur áfram að vera eins hátt og það er nú, er það deginum ljósara að hér mun myndast stéttaskipting þar sem nýbúar eru að jafnaði verr menntaðir og verr launaðari en innfæddir Íslendingar.

Þegar illa árar í þjóðfélaginu verða þeir sem hafa minnsta menntun oft hvað verst úti. Illa menntað fólk er líklegara til þess að vera atvinnulaust og lifa undir fátæktarmörkunum. Ef fólk af erlendu bergi brotið verður hlutfallslega fleira í þessum hóp en innfæddir, eins og ýmislegt bendir til í dag, megum við eiga von á stigmagnandi kynþáttahatri. Sumir munu, því miður, halda því fram að útlendingar séu latir, lifi á kerfinu eða taki vinnuna af innfæddum sem frekar eiga hana skilið og svo framvegis.

Ég vona að yfirvöld geri sér grein fyrir því hve nauðsynlegt það er að bregðast skjótt við fyrrnefndum aðlögunarvanda nýbúa. Það að tryggja góða menntun fyrir alla er ávísun á bjarta framtíð í fjölbreytilegu og skemmtilegu þjóðfélagi þar sem fjölbreytt menningaráhrif fá að njóta sín.

Deildu