Hátt sjálfsmat dregur úr óreglu

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/08/1999

25. 8. 1999

Lengi hefur undirritaður talað um að þörf sé á nýrri grunnskólastefnu þar sem áhersla er lögð á að þroska félagslega færni nemenda. Ástæðan er einföld. Ég tel að einstaklingar séu mun betur í stakk búnir til að lifa heilbrigðu lífi í okkar samfélagi ef þeir eru rökfastir, sjálfstæðir og kunna að tjá sig. Ný íslensk […]

Lengi hefur undirritaður talað um að þörf sé á nýrri grunnskólastefnu þar sem áhersla er lögð á að þroska félagslega færni nemenda. Ástæðan er einföld. Ég tel að einstaklingar séu mun betur í stakk búnir til að lifa heilbrigðu lífi í okkar samfélagi ef þeir eru rökfastir, sjálfstæðir og kunna að tjá sig. Ný íslensk vísindarannsókn sem sýnir fram á tengsl sjálfsmats og áhættuhegðunar styrkir enn frekar skoðun mína um að taka þurfi rækilega til í íslenskum skólamálum.


Í viðtali við Sigrúnu Aðalbjarnardóttur prófessor sem birt var í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag segir meðal annars:

„Unglingum við 14 ára aldur, sem telja að utanaðkomandi þættir ráði miklu um gengi þeirra í lífinu, er hættara við að reykja daglega; hafa leiðst út í mikla áfengisneyslu og/eða að hafa prófað hass og amfetamín.“

Fræðimenn úr ýmsum áttum hafa margoft áður birt niðurstöður rannsókna sem sýna að andleg líðan og félagsleg færni hafa veruleg áhrif á áhættuhegðun ungs fólks. Með áhættuhegðun á ég við vímuefna- og áfengisneyslu, reykingar, ofbeldi, afbrot o.s.frv.

Það er því vægast sagt sorglegt að stjórnvöld og foreldrar (sem þrýstihópur) nýta sér ekki þessar mikilvægu upplýsingar, til dæmis í baráttunni við vímuefnavandann. Í staðinn þráast menn við að nota aðferðir sem sýnt hefur verið fram á að virka ekki eða í það minnsta mjög takmarkað. Hér er ég að tala um allan hræðslu- og upplýsingaáróðurinn sem stjórnvöld, þjóðfélagsverk og hagsmunahópar eru dugleg við troða út um allt án nokkurs teljandi árangurs. Það er í raun ótrúlegt að fullorðið fólk skuli halda því fram að vímuefnaneysla ungmenna sé til kominn vegna þess að þau viti ekki hve hættuleg neyslan er!

Heilbrigð skynsemi segir okkur að áhættuhegðun ungs fólks (og í raun flestra) tengist andlegri líðan og félagslegri færni. Einstaklingur sem getur óhikað tjáð sig, kann að rökstyðja skoðanir sínar, kann að hlusta á skoðanir annarra og er sáttur við sjálfan sig er augljóslega ólíklegri til þess að stunda einhverskonar áhættuhegðun en einstaklingur sem er feiminn og/eða óöruggur með sig!

Vísindarannsóknir virðast ítrekað styðja þessi sjónarmið og því er það skylda okkar sem berjumst fyrir bættu samfélagi að krefja stjórnvöld um öflugt menntakerfi þar sem áhersla er lögð á félagslega færni nemenda.

Í starfi mínu hjá ungum jafnaðarmönnum, sem forseti málstofu um menntamál, hef ég haft umsjón við að skrifa tillögu að nýrri menntastefnu. Vinnuheiti þessarar tillögu er „Menntun með markmið“ og megin markmið hennar er að knýja fram (fyrir löngu nauðsynlegar) breytingar á markmiðum, starfsháttum og kennsluefni skólanna. Markmiðin eru einmitt meðal annars að þroska félagslega færni nemenda samhliða hinu hefðbundna akademíska námi. (sjá nánar: Menntun með markmið)

Deildu